11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

147. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Þar sem ég skilaði sérstöku nál. um þetta frv. um Stofnfjársjóð fiskiskipa og brtt. í sama máli þykir mér rétt að gera í örfáum orðum nokkra grein fyrir afstöðu minni og brtt.

Eins og segir í nál. mínu á þskj. 318, þá var á stjórnartímum viðreisnarstjórnarinnar — og má kannske segja fyrri viðreisnarstjórnarinnar — tekinn upp sá háttur að taka af óskiptum afla allvæna fúlgu í Stofnfjársjóð fiskiskipa. Sú stjórn lét ekki bíða langt á milli stórra högga, eins og menn muna, í sambandi við þær gífurlegu gengisfellingar sem áttu sér stað tvö ár í röð, 1967 og 1968, og nam hækkun á erlendum gjaldeyri á annað hundrað prósent á einu ári, og var það vegna lækkandi verðs á afurðum og minnkandi fiskafla. En þeirri stjórn þótti ekki nægilega höggvið á hlut sjómanna með því að þeir þurftu að taka á sig minnkandi afla og lækkandi verð, heldur þurfti einnig að skera stórkostlega af hlutnum til þess að leggja í þennan sjóð. Með því að taka af óskiptum afla var sem sagt skipshöfnin látin greiða talsvert stóran hluta af útgerðarkostnaði.

Þegar vinstri stjórnin tók við var þetta stofnfjársjóðsgjald lækkað ofan í 10% af aflaverðmæti þegar landað var heima. En eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá beið hún ekki lengi eftir því að hækka þessa tölu aftur um allháa prósentu.

Þó að talsmenn stjórnarflokkanna hafi talað hér um að það sé öðrum að kenna hversu mikið sjóðakerfið hefur þanist út, þá er sýnilegt hverjum manni, sem eitthvað hefur fylgst með þessum málum, að það hefur aldrei sprungið svo óskaplega út eins og nú á síðustu árum. Og þessi hækkun á framlagi í Stofnfjársjóð fiskiskipa varð líka til þess að efla þetta sjóðakerfi og þá á kostnað sjómanna.

Nú stöndum við frammi fyrir því að taka upp nýja stefnu í þessum málum, og er út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja að eigi að fara að hrista svolítið upp í þessu sjóðakerfi og þá í betri áttina. En ég vil leggja á það áherslu, eins og ég segi í nál. mínu að ég tel ekki nægilega mikið að unnið þó að skrefið sé allstórt að þessu sinni, þessu þurfi að halda áfram. Það var einnig till. sjómanna í sjóðanefndinni að framlagið í Stofnfjársjóð skyldi minnka jöfnum skrefum á nokkrum árum ofan í ekki neitt.

Nú er lagt til að lækka framlagið í Stofnfjársjóð úr 15% í 10%. En menn skyldu taka vel eftir því, að þarna er ekki um þriðjungslækkun að ræða í raun vegna þess að 10% eru miðuð við aðra stofntölu sem mun vera 24% hærri en áður var, þar sem fiskverðið hækkar nú um 24% með millifærslu á því fé sem fór í sjóðinn, en fer nú í fiskverðshækkunina. Þar af leiðir að lækkunin, sem hér er lögð til. er ekki um þriðjung, þ. e. a. s. að lækka þetta um 5% af afla, heldur aðeins um rúmlega 21/2% af afla. Vegna þessa hef ég ákveðið að flytja brtt. á þskj. 319 þar sem gert er ráð fyrir því að sama komi út og það hefði verið lækkað úr 1.5 í 10% miðað við sama grunn, og sýnist mér að talan 8% sé þá nálægt lagi.

Fyrri brtt. mín er þess vegna um að lækka framlagið í Stofnfjársjóð úr 15% af aflaverðmæti í 8% af þeim afla, sem landað er hér heima, en af afla, sem landað er erlendis, lækki framlagið úr 16% í 13%.