27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

3. mál, skákleiðsögn í skólum

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Undir lok síðasta Alþ. flutti ég frv. sem var að efni til samhljóða þessu frv., en í því er kveðið svo á að ráðh. sé heimilt að ráða, eftir því sem fé sé veitt til á fjárlögum, íslenska skákmenn í starf til ákveðins tíma til þess að annast leiðsögn um skákstarf í skólum landsins, en skilyrðið fyrir því að hægt sé að ráða mann í slíka stöðu sé að hann hafi hlotið alþjóðlegan titil í skák. Gert var ráð fyrir því að launin væru miðuð við launakjör menntaskólakennara, en ráðh. skuli ákveða starfsskyldu og starfstilhögun með reglugerð.

Þessu frv. var vísað til hv. menntmn. þessarar deildar sem sendi það til umsagnar Skólastjórafélags Íslands og Skáksambands Íslands. Báðir aðilar mæltu með samþykkt frv. N. gerði orðalagsbreytingar á 1. gr. frv. og varð sammála um að mæla með því við hv. deild einróma að frv. næði fram að ganga í því formi. Þetta var hins vegar á síðustu starfsdögum þingsins og miklar annir og í ljós kom að hæpið virtist, jafnvel þó að Nd. afgr. frv., að hægt væri að koma því með eðlilegum hætti í gegnum þrjár umr. í Ed.

Hæstv. menntmrh. lýsti því yfir við 2. umr. málsins, að höfðu samráði við hæstv. fjmrh., að ríkisstj. vildi fyrir sitt leyti stuðla að því að þetta frv. eða sams konar frv. gæti orðið að lögum nú á haustþinginu og þá væntanlega fyrir jól, þ. e. a. s. áður en fjárlög verða afgr., til þess að hægt sé að taka tillit til þess í fjárlögum næsta árs. Af þessum sökum er þetta frv. nú flutt aftur í nákvæmlega þeirri mynd sem hv. menntmn. þessarar deildar mælti einróma með í vor að deildin samþykkti frv.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.