12.02.1976
Neðri deild: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Forseti. í nál. á þskj. 324 gerum við í minni hl. fjh.- og viðskn. grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls, en minni hl. skipum við hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason.

Afstaða okkar til frv. er sú, að við erum andvígir frv. og leggjum til að það verði fellt. Hér er um það að ræða að leggja á nýtt skattgjald, þungagjald á alla brennsluolíu, gasolíu og svartolíu sem að mestu leyti er notuð af fiskiskipum, en nokkrir aðrir koma þar þó til greina líka. Er gert ráð fyrir að þetta nýja gjald eigi að gefa ríkissjóði á ári í kringum 580 millj. kr., en gjaldið yrði um 1330 kr. á hvert tonn.

Við teljum að það sé ekki ástæða til þess að ákveða þetta nýja gjald. Ríkissjóður hefur nú í mörg ár fengið að vísu tekjur sem þessu nemur vegna ákvæða um söluskatt á gasolíu til fiskiskipa, en það hefur tekist að greiða ríkissjóði þetta gjald í gegnum verðlagninguna almennt séð allan þennan tíma. Ég tel að það væri eðlilegra að gera það þá með sama hætti áfram, ef á annað borð er talið alveg óhjákvæmilegt að ríkissjóður haldi þessum tekjustofni lengur.

Við erum hins vegar á þeirri skoðun, að það eigi að framkvæma það sem áætlað var að gera í þessum efnum þegar ákvörðun var á sínum tíma tekin um að fella niður söluskatt á gasolíu til húsakyndingar. Þá var ætlunin, að fella niður söluskattinn einnig á gasolíu til fiskiskipa. Það er okkar skoðun að það eigi að framkvæma þetta formlega og ríkissjóður eigi að falla frá þessum sérstaka tekjustofni og það sem allra fyrst. Þetta er okkar afstaða til málsins, að við erum andvígir því að þetta nýja gjald verði tekið upp.

Þá þykir mér rétt að benda á það, að þetta nýja gjald hefur það í för með sér að það raskar nokkuð þeim verðgrundvelli sem verið hefur um alllangan tíma á milli gasolíu og svartolíu, þannig að hér verður um tiltölulega miklu þyngra gjald á svartolíunni að ræða en á gasolíu. En nú er einmitt stefnt í þá átt að auka notkun á svartolíu af því að það er á margan hátt þjóðhagslega hagkvæmara og rekstrarlega hagkvæmara að gera það, en með því að hverfa að sérstöku þungagjaldi er beinlínis verið að auka álögurnar sérstaklega á svartolíuna.

Einnig má hafa það í huga að söluskattur var aldrei á svartolíu, svo að það er enn þá minni ástæða til að taka upp þetta gjald með þeim rökstuðningi að það eigi að koma í staðinn fyrir söluskatt sem eitt sinn var, en meiningin var að fella niður að fullu og öllu til fiskiskipa.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta.

Hér er raunverulega verið að festa þetta gjald í nýju formi, sem sérstakan skatt á allri gas- og brennsluolíu. Við viljum ekki standa að slíkri skattlagningu og teljum að nóg sé komið af nýjum sköttum og það beri frekar að hverfa frá þessu en að auka þarna við.