27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Fyrr í þessum umr. komst hæstv. dómsmrh. svo að orði að Framkvæmdastofnun ríkisins hefði með starfsemi sinni styrkt mjög hina dreifðu byggð. Það er að sjálfsögðu mjög ánægjulegt út af fyrir sig ef viðleitni manna hefur einhver jákvæð áhrif í för með sér.

En því miður hefur þróun þessara mála ekki verið jafnánægjuleg í Reykjavík og á Reykjanessvæðinu hvað viðkemur atvinnugreinum sem fengið hafa forgangsafgreiðslu hjá Framkvæmdastofnun ríkisins, og á ég hér einkum við sjávarútveg og fiskiðnað. Sú raunalega staðreynd blasir við þróun þessara atvinnugreina síðustu árin, að á sama tíma sem sjávarútvegur og fiskiðnaður almennt stóreflist víðs vegar um landið hnignar þessum atvinnugreinum verulega á Suðvesturlandi og þá alveg sérstaklega í Reykjavík og á Reykjanesi. Á þessu svæði á sér ekki stað sambærileg endurnýjun fiskiskipa, véla eða tækja í fiskiðnaði eða endurnýjun og uppbygging hraðfrystihúsa og vinnslustöðva eins og annars staðar á sér stað á landinu. Ástæðuna til þessa er m. a. og alveg sérstaklega að mínu mati að leita í þeim lögum og reglum sem gilda um Framkvæmdastofnun ríkisins, um Byggðasjóð, og enn fremur vegna hinnar almennu útlánastefnu opinberra sjóða gagnvart Reykjavík og Suðvesturlandssvæðinu í heild. Staðreynd er að vegna fjárvöntunar er mikil hnignun í sjávarútvegi og fiskiðnaði í Reykjavík. Er ástandið að verða svo alvarlegt gagnvart fiskiðnaðinum í höfuðborginni að óumflýjanlegt er að stefnu opinberra aðila, sjóða og stofnana verði gjörbreytt, þannig að Reykjavík verði ekki afskipt svo sem átt hefur sér stað síðustu árin.

Meðan ríkjandi fyrirkomulag helst varðandi hlutverk og starfrækslu Framkvæmdastofnunar ríkisins og þeirra sjóða, er heyra undir hana, er nauðsynlegt að þessir aðilar komi strax til skjalanna og stuðli að eflingu sjávarútvegs og fiskiðnaðar í Reykjavík sem og annarra atvinnu greina á sambærilegan hátt og átt hefur sér stað annars staðar á landinu. Þess vegna er að mínu mati brýnt að rætt sé í nýju ljósi um endurskipulagningu Framkvæmdastofnunar ríkisins og þeirra sjóða sem heyra undir hana. Einnig ber að hafa í huga þegar rætt er um þessa endur. skipulagningu að Byggðasjóður hefur fengið aukið fjárhagslegt svigrúm við það að 2% af útgjaldaaukningu fjárl. eru ætluð til hans. Við það styrkist fjárhagsstaða sjóðsins verulega og þar af leiðandi eykst svigrúmið til útlána til atvinnuvega á Suðvesturlandi, og er ég þá sérstaklega með Reykjavík í huga.

Með vísan til þess, sem ég hef þegar sagt, vil ég rekja nokkuð hvert hlutverk Framkvæmdastofnunar ríkisins er samkv. núgildandi lögum, þ. e. a. s. þá hlið sem snýr að fjármagninu og einnig framkvæmd þeirra mála gagnvart Reykjavík frá 1972 til dagsins í dag.

Í 3. gr. laga um Framkvæmdastofnunina segir m. a. að hún fari með stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands og einnig að hún fari með stjórn Byggðasjóðs. Í 12. gr. sömu laga segir:

„Lánadeild vinnur að því að samræma útlán allra opinberra stofnlánasjóða og að skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda með sérstöku tilliti til þeirra framkvæmda sem forgang þurfa að hafa samkv. áætlun stofnunarinnar.“ Síðan segir í sömu gr.: „Stjórn stofnunarinnar getur að fengnu samþykki ríkisstj. og í samráði við banka og stærstu fjárfestingarsjóði sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skulu hafa forgang umfram aðrar. Skulu þá lánastofnanir og opinberir sjóðir haga lánveitingum í samræmi við það.“

Hv. 1. þm. Suðurl. sagði eitthvað á þá leið fyrr við þessa umr. að Byggðasjóður hefði víða bjargað atvinnumálum úti á landi. Þessi ummæli munu örugglega vera hárrétt hvað landsbyggðina áhrærir. Reikningar Byggðasjóðs, reikningar Fiskveiðasjóðs Íslands og fleiri opinberra sjóða tímabilið 1972–1974 bera þess glöggt vitni. Enn fremur fer ekkert á milli mála að sjávarútvegur og fiskiðnaður voru forgangsverkefni hjá Framkvæmdastofnun ríkisins umrætt tímabil og eru enn. Hefur uppbyggingin úti á landi verið í fullu samræmi við það. Það skal viðurkennt.

En því miður er óhjákvæmilegt að vekja athygli á þeirri staðreynd að hinum ýmsu byggðarlögum hefur verið mjög mismunað innan ramma forgangsverkefna. Eru hér sérstaklega höfð í huga útlán opinberra sjóða til sjávarútvegs og fiskiðnaðar umrætt tímabil, þ. e. a. s. á árunum 1972–1974. Reykjavík var um árabil aðalútgerðarbær landsmanna. Þar var vagga íslenskrar togaraútgerðar og í áraraðir var blómleg útgerð og mikil fiskvinnsla í Reykjavík, án þess að hallað væri á aðra útgerðarbæi í landinu af hálfu opinberra aðila. Nú bregður svo við að útgerð og fiskiðnaði hnignar mjög í Reykjavík, borgarbúum sérstaklega og svo landinu í heild til mikils tjóns. Hefur þessi þróun verið sérstaklega áberandi síðustu árin. Skýringanna er m. a. að leita í því að fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskiðnaði í Reykjavík hafa verið í algeru fjárhagslegu svelti af hálfu opinberra sjóða, sem stafar m. a. af ranglátri löggjöf er gerir ráð fyrir mismunun í úthlutun eftir byggðarlögum þótt um sambærilega atvinnustarfsemi sé að ræða. Hefur þessi stefna dregið úr athafnahvöt og möguleikum manna á sviði sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Reykjavíkursvæðinu, og kemur þetta fram í miklum samdrætti í frystingu sjávarafurða svo að dæmi sé nefnt. Góð og vel útbúin hraðfrystihús standa verkefnalaus eða verkefnalítil mánuðum saman og enduruppbygging eldri vinnslustöðva gengur mjög hægt, öllum til tjóns. Opinberir sjóðir eru reykvískum fyrirtækjum svo til lokaðir og fyrirgreiðslan af þeirra hálfu til fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskiðnaði í Reykjavík eru í engu samræmi við framlag þessara atvinnugreina í Reykjavík á liðnum áratugum. Skal ég nefna nokkur dæmi.

Fyrst ef litið er á útlán Fiskveiðasjóðs Íslands tímabilið 1972–1974 kemur í ljós að árið 1972 voru heildarútlán Fiskveiðasjóðs Íslands 1263 millj. kr. Þar af fóru til Reykjavíkur 108 millj. eða 8.6%. Árið 1973 eru heildarútlán Fiskveiðasjóðs 2249 millj. kr., þar af fóru til Reykjavíkur 297 millj. eða 13.2%. Árið 1974 eru heildarútlán Fiskveiðasjóðs Íslands 2 661 millj., þar af fóru aðeins 43 millj. til Reykjavíkur eða 1.6%.

Ef lítið er til útlána Atvinnuleysistryggingasjóðs árin 1972–1974, framkvæmdalána, kemur eftirfarandi í ljós: Árið 1972 voru heildarútlán Atvinnuleysistryggingasjóðs, framkvæmdalán — þá eru hafnalánin ekki tekin með — 118 millj. kr. Þar af fóru til Reykjavíkur 32 millj. eða 27.1%. Árið 1973 eru heildarútlán 157 millj., þar af fóru til Reykjavíkur 46 millj. eða 29.3%. Árið 1974 voru heildarútlán til framkvæmda 84 millj., þar af fóru 36 millj. til Reykjavíkur eða 42.8%. Lánveitingar Atvinnuleysistryggingasjóðs til Reykjavíkur eru þó raunverulega hlutfallslega lægri hvað framkvæmdalán varðar, því að stærsti hluti hafnalána fer til hafna úti á landi, og vísa ég til þeirra umr. sem hafa orðið um þau mál í borgarstjórn Reykjavíkur nýlega.

Þá skulum við líta á Byggðasjóð. Á síðasta þingi var upplýst að af heildarútlánum Byggðasjóðs árin 1972, 1973 og 1974 hafa farið til Reykjavíkur sem hér segir: Árið 1972 19 lán að upphæð 16 millj. Þá var heildarfjöldi lána 432 talsins að upphæð 480 millj. Það þýðir að lán til Reykjavíkur á því ári voru 3.33%. Árið 1973 voru veitt 4 lán úr Byggðasjóði til Reykjavíkur að upphæð 5.5 millj. kr. Þá voru heildarútlán 339 að fjárhæð 357 millj. eða lán til Reykjavíkur voru 1.5%. Árið 1974 veitti Byggðasjóður 1 lán af 441 láni til Reykjavíkur að upphæð 1 millj. kr., en þá voru heildarútlán Byggðasjóðs 661.8 millj. Það tekur því ekki að reikna út prósentuna, því að þetta er langt innan við 1%. Það er rétt að árétta það hér, að íbúatala Reykjavíkur á umræddu tímabili var 40% af allri íbúatölu landsins.

Á þessum árum, 1972–1974, fara aðeins 7.2% af heildarútlánum Fiskveiðasjóðs til Reykjavíkur, 31.2% af framkvæmdalánum Atvinnuleysistryggingasjóðs og 1.1% af heildarútlánum Byggðasjóðs. Þessi þróun er gjörsamlega óviðunandi fyrir reykvískt atvinnulíf og íbúa Reykjavíkur.

Þótt eitt stóriðjuver hafi risið upp í nánd við Reykjavík er víðs fjarri að Reykjavík sem slík hafi notið mikils góðs af því fyrirtæki, þótt ekki beri að lasta stofnun þess. En stofnun stórfyrirtækis á einu svæði á ekki að vera réttlætanleg fyrir löggjafarvaldið til að setja lög sem beinlínis fela í sér gífurlega takmörkun á fjármagnsstreymi til smærri fyrirtækja á viðkomandi athafnasvæði. Það hefur því miður gerst. Þess vegna búa mörg minni fyrirtæki við fjármagnsskort á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Þessari stefnu verður að breyta atvinnulífi þessara svæða í hag.

Það á ekki og má ekki vera feimnismál á hinu háa Alþingi, þegar verið er að ræða um endurskoðun á löggjöf um Framkvæmdastofnun Íslands, að halda því fram að Reykjavík eða Stór-Reykjavíkursvæðið skuli sitja við sama borð og aðrir landshlutar hvað varðar fjármagnsmöguleika til atvinnuuppbyggingar. Réttur allra landsmanna á að vera jafn í þeim efnum. Ég hef þá trú að uppbygging atvinnulífsins víðs vegar um landið sé svo sterk að þetta ætti ekki að raska bögum annarra íbúa landsins til hins verra, nema síður sé, þótt Reykjavík njóti fulls og sama réttar til uppbyggingar á traustu og heilbrigðu atvinnulífi á jafnréttisgrundvelli. Allir sanngjarnir menn sjá hina neikvæðu stefnu gagnvart sjávarútvegi og fiskiðnaði í Reykjavík sérstaklega og sjá að hún getur ekki gengið lengur, nema stefnan sé sú að leggja þessa atvinnustarfsemi niður í Reykjavík eða færa hana niður á lægra og lakara stig en annars staðar þekkist á landinu.

Við reykvíkingar biðjum ekki um meiri rétt okkur til handa en aðrir landsmenn hafa. Við biðjum um jafnan rétt, þ. e. a. s. sama rétt. Þess vegna óskum við eftir breyttri stefnu opinberra sjóða gagnvart atvinnulífi höfuðborgarinnar, — stefnu sem felur í sér aukna möguleika á atvinnusviðinu fyrir þúsundir ungra reykvíkinga sem munu leita út í atvinnulíf borgarinnar á næstu árum og áratugum. Við þörfnumst mikils fjármagns í öfluga atvinnustarfsemi á öllum sviðum.

Við teljum að nú sé tími til kominn að breyta lögum þeirra opinberu sjóða sem fela í sér lagaákvæði er mismuna byggðarlögum stórlega. Er ég þá m. a. með í huga það ákvæði í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins sem lýtur að Byggðasjóði, þar sem segir í 8. gr.: „Deildin gerir áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs víðs vegar um land með það fyrir augum að skapa landsmönnum öllum fulla atvinnu og eðlileg lífsskilyrði og stuðla að heilbrigðri byggðaþróun.“ Enn fremur segir í sömu lögum 29. gr.: „Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 8. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Það er lítil hætta á því að sjálfsögðu að byggð fari í eyði í Reykjavík, en mikil hætta er á því að sjávarútvegi og fiskiðnaði hnigni enn meir í Reykjavík ef þessar atvinnugreinar fá ekki sömu eða hliðstæða fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði, Fiskveiðasjóði Íslands, Atvinnuleysistryggingasjóði, Framkvæmdasjóði Íslands o. s. frv. og önnur byggðarlög vegna hliðstæðrar atvinnustarfsemi.

Sem einn af þm. Reykv. tel ég að verði ekki hið fyrsta stefnubreyting Reykjavík í hag mun af því hljótast óbætanlegt tjón. Það er því krafa Reykjavíkur að við endurskoðun og umsköpun Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem ég treysti að verði fljótlega framkvæmd á þessu þingi, verði m. a. sú breyting gerð að útlánasjóðum hins opinbera verði gert skylt að láta sambærilegar atvinnugreinar og fyrirtæki njóta sama réttar í forgangsverkefnum, óháð því hvar atvinnustarfsemin fer fram. Tel ég þessa breytingu mikilvægari fyrir heill landsmanna og þinginu meira til sóma heldur en karp um skoðanir einstakra stjórnarmanna eða starfsmanna þessarar stofnunar. Þó vil ég ekki gera lítið úr því, að það þurfi að breyta stjórnskipulagi Framkvæmdastofnunar ríkisins á þann veg sem sá ræðumaður kom inn á sem hér talaði á undan mér við þessa umr.

Þó vil ég leggja áherslu á að í því efni, við endurskoðun þeirra ákvæða um Framkvæmdastofnunina verði höfð í huga sjónarmið ákveðinnar valddreifingar. Í því efni kemur upp í mínum huga að til greina kæmi t. d. að Framkvæmdasjóður Íslands væri sjálfstæð stofnun utan Framkvæmdastofnunar ríkisins með sjálfstæða stjórn. Ég tel það æskilegt og ég tel núv. tilhögun, að hafa Framkvæmdasjóð undir Framkvæmdastofnuninni, eins og nú er, orka mjög tvímælis frá stjórnmálalegu sjónarmiði séð og vera í engu samræmi við hlutverk sjóðsins í peningakerfi þjóðarinnar.

Ég vænti þess að málefnalegt framlag við þessa umr. fái notið sín einhvers, þannig að öll umr. hér snúist ekki um völd og persónur, þ. e. a. s. kommissara og einstaka þm., og vænti þess að þingheimur taki þessar aths. mínar og tillögur til gaumgæfilegrar íhugunar.