12.02.1976
Efri deild: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eins og nefndarformaður sagði skrifa ég undir nál. með fyrirvara.

Í þessu frv. er stefnt að því að leiðrétta nokkuð það sem misgert hefur verið með skyndiaðgerðum í sjávarútvegsmálum á undanförnum árum, ef ekki áratugum. Enda þótt ég telji að mikið vanti á enn þá að mistökin hafi verið leiðrétt að fullu, hin verstu þeirra, þá stefnir hér vissulega í rétta átt, fyrst og fremst með niðurfellingu Olíusjóðsins svonefnda sem valdið hefur miklum vandræðum í útgerðinni hjá okkur á undanförnum árum. Ég tel að of skammt, langtum of skammt sé gengið í sambandi við lækkun eða niðurfellingu Tryggingasjóðsins.

Hér standa enn eftir tveir sjóðir sem ég álít að hafi gert mjög mikið gagn og séu til þess fallnir að létta undir með útgerðinni á réttan hátt, þar sem eru Aflatryggingasjóður og Verðjöfnunarsjóður.

Ég er sammála því, sem fram hefur komið í umr. um sjóði þessa og þá aðallega Aflatryggingasjóðinn, að ágallar hans felist fyrst og fremst í framkvæmd, séu stjórnunaratriði. Nú hefur hæstv. sjútvrh. látið að því liggja sterklega að þessar reglur verði teknar til endurskoðunar og bót ráðin á helstu vandkvæðunum.

Því er ekki að leyna að þessi sjóður hefur verið misnotaður á liðnum árum. Þetta er sjóður sem gert hefur verið út á. Menn hafa fundið göt í lögum og reglugerðum sem þeir hafa getað smogið í gegnum, og það hefur verið gert út á þennan sjóð.

Þetta frv. er lagt fram raunverulega með atbeina bæði sjómanna og útvegsmanna. Svo sem kunnugt er knúðu sjómenn með verkfallsaðgerðum fram breytingar á sjóðakerfinu, kröfðust raunverulega afnáms sjóðakerfisins á s. l. hausti. Fyrr var ekkert gert í þessum málum.

Áðan sagði ég að þetta kerfi, þetta sjóðakerfi, sem hefur reynst einstaklega flókið og í sumum tilfellum hættulegt fyrir íslenskan sjávarútveg, væri til komið vegna skyndiaðgerða í vandamálum sjávarútvegsins á liðnum árum. Vegna breyttra tíma og vegna breyttrar tækni hafa orðið geysilega miklar breytingar á hlutaskiptalögum í þessu landi, jafnvel á minni skömmu ævi. Sum þessara laga voru ævaforn. Ýmis þeirra eiga rætur að rekja til Gulaþingslaga, önnur til Grágásar og Jónsbókar og enn önnur miklu eldri, og á ég þar við óskrifuð lög veiðimanna allra þjóða. Þróunin varð sú á stríðsárunum og eftir stríðsárin, að kjarasamningar sjómanna hnigu meira og meira í þá átt að minnka hlutdeild þeirra sjálfra sem hafði verið frá fornu fari í útgerðarkostnaði hálfgildings eða alger eignaraðild að útgerðinni. Síðan koma ný skip og dýrari með dýrari veiðarfærum, auknum kapítalkostnaði í útgerðinni, og þá dvínar aðild sjómannanna að útgerðinni enn meir. Og þá var ekki tekið tillit til þess, að í þessari útgerð, einkaútgerð, var e. t. v. óeðlilega lítið eigið fé, en tiltölulega mjög mikið lánsfé eða almannafé. Þessi þróun hefur leitt til þess að dvínað hefur persónuleg eignaraðild sjómanna að útvegi, einkum þó í stóru útgerðarplássunum og einkum hér við Faxaflóa.

Frá almennu sjónarmiði má segja að þessi þróun hafi verið mjög slæm. Fiskimiðin okkar eru almannaeign — almenningur, og æskilegt væri því að stefnt yrði að því að nýting fiskimiðanna yrði almenn. Um gildi þessa almennings, sem fiskimiðin eru, var m. a. fjallað á ráðstefnu sem haldin var á Hótel Loftleiðum hér í Reykjavík í haust og fjallaði um fæðubúskap íslendinga. Þar lýstu sérfræðingar gildi fiskislóðarinnar á þá lund, að grunnslóðin sjálf, hin eiginlegu fiskimið í kringum landið, jafngiltu að frjósemi þrautræktuðu túni um framleiðslu á eggjahvítuefnaríkri fæðu, en djúpslóðin þar fyrir utan jafngilti grónum bithaga. Aðeins íshafssvæðin, svæði sjávar sem eru undir ís, jafngilda foknum eða örfoka öræfum. En auðlegð þessa almennings, fiskimiðanna í kringum landið, er slík, að ákaflega æskilegt væri að eignaraðild að þeim tækjum, sem notuð eru til þess að nytja þessa fiskislóð, yrði sem almennust.

Því er ekki að neita, að enn er það svo í ýmsum fiskiplássum í kringum landið, að eignaraðild sjómannanna sjálfra að skipunum og útgerðinni er talsverð. Ég leyfi mér að staðhæfa að einmitt í þeim sjávarplássum standi hagur útgerðarinnar með meiri blóma en þar sem eignaraðildin að skipunum er á höndum fárra. Ég tel æskilegt að miðað yrði að því, að sjómennirnir sjálfir á skipunum eignist að nýju hlutdeild í útgerðinni og taki þátt í kostnaði af henni, beri af henni gjöld og arð. Með frv. því, er hér liggur fyrir, er að vísu ekki miðað að slíku. En í frv. er sem fyrr segir miðað að leiðréttingu á meingöllum sem sjóðakerfið felur í sér, og enda þótt ekki sé gengið þar eins langt og æskilegt væri, þá er þetta stórt skref í rétta átt og skref sem leitt gæti til þess að auðveldara yrði að taka upp þráðinn, þar sem hann var látinn niður falla, og freista þess að efla að nýju almenningsaðild að útgerðinni.