12.02.1976
Efri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin, þó að þau væru hvergi tæmandi. En ég vona að áður en mjög langt um líður og þegar greiðist úr þeirri samningsflækju, sem fyrir hendi er nú, fái Alþ. að vita um nýjar áætlanir varðandi þessi skip. Eftir því sem ég hef heyrt, þá er talað um að 25–26 togarar verði sérstaklega erfiðir í rekstri. Og það er eins og hann drap á, að rekstur þessara skipa snertir mjög stór bæjarfélög og örugglega atvinnu í þeim bæjarfélögum, og það verður auðvitað að vera verksvið Alþ. að ráða fram úr slíkum vanda. Það þarf ekki að deila um það, að við tökumst á við vandann sem slíkan. Ég var aðeins að forvitnast um, hvort það lægi fyrir endurskoðuð áætlun um þetta. Það, sem hér um ræðir, eru tölur sem nema mörg hundruð millj. kr. og fara að öllum líkindum að mínu mati verulega hækkandi þrátt fyrir uppskurð á sjóðakerfinu. Þá er rekstur þessara skipa með þeim hætti, að ég sé ekki í fljótu bragði hvernig ætla má að úr rætist fyrir þeim á yfirstandandi ári. Það getur vel verið, að það þurfi að koma til sérstakar ráðstafanir fyrir vorið handa þessum skipum, þegar dæmið liggur ljóst fyrir. En ég vil bara undirstrika það, að það verður að vera sérstakt átak sem við gerum í því efni. Ef það er skattlagning á almenning í landinu, þá er nauðsynlegt, eins og ég drap á í umræddu viðtali við hæstv. ráðh., að það sé lykill til þeirra manna sem skortir fisk og taka á sig stórar kvaðir til þess að halda þessum togurum gangandi. Ég vildi aðeins vekja athygli á þeirri staðreynd, að þeir eiga þá siðferðilegu kröfu að fá eitthvað af aflanum til sín þegar þar skortir afla, eins og mun vera á nokkrum stöðum á vissum hluta af landinu.