17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

136. mál, símaþjónusta

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði, vil ég ekki, fyrst ekki er komin endanleg lausn á málinu, kveða fastar að orði um lagfæringuna á þjónustugjöldunum í þessum tveimur hreppum sem um er að ræða. En ég tel víst að það sé ekki langt undan, þó að ég segði ekki meira, enda á það að skila sér jafnt fyrir það þó að ég gæfi ekki of mikil fyrirheit.

Út af því, sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði um neyðarþjónustuna á Hvolsvelli, vil ég segja það, að Hvolsvöllur var einmitt einn af þeim stöðum sem áttu að koma næst i þessum fjögurra flokka stöðum sem átti að taka nú næstu árin, og ástæðan til þess, að hann var ekki í fyrra, var einmitt sú neyðarþjónusta sem þar var haldið uppi. Hitt held ég að mér sé alveg óhætt að fullyrða, að það verður séð um að hún falli ekki niður.

Það verður að segjast eins og er, að enda þótt mönnum finnist dreifing á sjálfvirka kerfinu hjá Landssímanum gangi ekki nógu hratt, þá hefur hún þó gengið með undraverðum hraða. Landssíminn hefur skilað sínum verkum með miklum myndarskap og dugnaði, og hann er ein af þessum fáu ríkisstofnunum sem bera alveg uppi kostnaðinn af dreifingunni. Hann gerði það ekki fyrir einum 16–17 árum, þá var honum lagt fé úr ríkissjóði, en síðan hefur hann gert það og meira að segja skilað til ríkissjóðs öllum sköttum, eins og um einkafyrirtæki væri að ræða, og þar á meðal söluskatti.

Ég verð að segja það eins og er, að þó að ég vildi hag Landssímans sem allra best, þá mundi ég samt ekki treysta mér til að gera till. um að fella niður söluskattinn og minnka þannig tekjur ríkissjóðs, nema þá að þar kæmi eitthvað annað á móti. Hins vegar held ég að það sé líka hægt að segja það með sanni, eins og ég tók fram siðast, að símaþjónustugjöldin eru tiltölulega lág hér og þau hafa hækkað miklu minna en önnur þjónustugjöld og kaupgjald í landinu. Þess vegna er ekkí undarlegt þó að síminn þurfi að huga að sínum fjármálum eins og aðrir aðilar. Það er hægt að breyta því með því að hækka þessi gjöld, en það hefur áhrif, eins og kunnugt er, og frá mínum bæjardyrum séð er ekki hægt að komast hjá því til þess að halda þessari starfsemi sæmilega vel áfram. En ég endurtek það, að símaþjónustan í landinu hefur verið byggð upp af miklum myndarskap og hún er sér í flokki með það, að hér er um að ræða starfrækslu sem almenn er á borð við hvert annað fyrirtæki og verður að greiða skatta og skyldur eins og einkaaðili í þessum efnum.