17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

136. mál, símaþjónusta

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Af því að hér hefur komið á dagskrá neyðarþjónusta vil ég aðeins minnast á það, að í fyrra var samþykkt hér á Alþ. þáltill. varðandi neyðarþjónustu Landssímans. Það, sem síðan hefur gerst, hefur einkum beinst að því að auka neyðarþjónustuna með því að taka upp sólarhringsvaktir á nokkrum símstöðvum.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, að í umr. um þetta mál i fyrra var bent á fleiri leiðir sem ég tel vera mjög virkar og kosta tiltölulega minna, því að neyðarvaktir á landssímastöðvum víða um land eru býsna dýrar í framkvæmd. Þá er ég með í huga þær byggðir, sem hafa ekki bein tengsl við hinar stærri landssímastöðvar. Þess vegna verði gerð athugun á því, hvernig þetta skipulag yrði á annan hátt en hér um ræðir, þ.e.a.s. að landið verði skoðað í heild, í sveitum verði gerðar ráðstafanir til þess, að þar verði tengdur sjálfvirkur sími sem hægt er að hringja úr á staði aðra en símstöðvar, þar sem hvort sem er eru sólarhringsvaktir, og þá á ég við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Ég tel að með þessu móti væri hægt að ná verulegum árangri í neyðarþjónustunni. Við skulum segja sem svo, að fyrir hverja 5–10 bæi væri einn sími eða á einum bæ væri sími sem er sjálfvirkur, það kostaði eina linu í sjálfvirka kerfið og þar með væri hægt að hringja eiginlega hvert á land sem er og þá fyrst og fremst að sjálfsögðu í næstu heilsugæslustöð eða næsta sjúkrahús. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gerð sérstök athugun á þessu, en ég vildi vekja athygli á því að hér er leið sem ég tel vera tiltölulega ódýra i framkvæmd, en geta leyst þetta mál mjög mikið.