17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

136. mál, símaþjónusta

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Símamálin virðast vera kærkomið umræðuefni hér á hv. Álþingi og ég gerði ekki ráð fyrir svo almennum umr. sem raun hefur orðið á.

Út af því, sem hv. 4. þm. Vestf. sagði áðan um símaþjónustuna og tengingu við sjúkrahús og annað því um líkt, þá vil ég taka það fram að einmitt staðirnir, sem nú eru að fá næturvörsluna, eru staðir sem áður höfðu slíkar tengingar og töldu þær alls ekki vera það æskilega eða heppilega til að bæta úr þessu. Það vill svo til að nú er verið að athuga í sérstakri sveit í kjördæmi þessa hv. þm. um tengingu við kauptún úr einu sveitarfélagi og á því eru taldir einhverjir vankantar, en ég vona samt að úr þessu verði hægt að bæta. En ég efast ekki um að það muni ekki vera talið fullnægjandi nema skamma stund. Enn fremur var það svo á s.l. ári, að því miður var ekki hægt að gera eins mikið í símamálunum og til var ætlast vegna þess að kostnaðurinn reyndist meiri en reiknað hafði verið með þegar teknanna var aflað.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykn. sagði, þá er þetta sönn saga og ég hef heyrt af henni látið. Hitt finnst mér nú, að það sé ekki neitt óskiljanlegt, þegar byggist svo ört upp eins og hefur byggst upp í Mosfellssveit nú á tveim árum, þó að símakerfið sé ekki komið í það lag sem þarf að vera. En unnið er nú að því að bæta þar úr, og vona ég að fyrr en seinna þurfi ekki A að greiða fyrir B, heldur greiði bara A fyrir A og B fyrir B. En þessu er blandað saman stundum þegar við á, A og B o.s.frv., og það hefur getað verið eitthvað þess háttar þarna á ferðinni.

Hv. þm. 5. þm. Norðurl. e. talaði um meðaumkun með Landssímanum. Nú verð ég að segja það alveg eins og er, að ég er afskaplega lélegur í allri tæknifræði og ég kann ekki skil á því að hafa meðaumkun með Landssímanum. Ég hélt það væri meðaumkun með þeim sem þyrftu að greiða notendagjöldin sem væri um að ræða, ef menn ætla að hafa meðaumkun, því að það verður hvorki hjá Landssímanum né annars staðar neitt framkvæmt án fjármagns. Og spurningin er ekki um annað en það, hvað það fjármagn á að vera mikið sem á að taka fyrir þessa notkun til þess að hægt sé að koma kerfinu á.

Það, að sjálfvirka kerfið hafi ekki bætt úr símaþjónustunni í landinu, kannast ég ekki við. Hitt getur rétt verið, að fyrst eftir að það hafi verið komið hafi ekki verið nægar línur, en úr því hefur þá verið fljótlega bætt með einum eða öðrum hætti og hefur fyrst og fremst verið reynt að gera það á sviði tækninnar.

Það að hringja á alla bæi í sveitinni samtímis, þekki ég frá því að ég var stöðvarstjóri í sveit. Hlustendunum þótti þjónustan þá ekki góð, þegar kannske voru komnir 10 eða 12 hlustendur á eina línu. En það var hægt í vissum tilfellum að nota þessa leið, en það svið mundu nú fáir kjósa að fara og í einu eða tveimur tilfellum á langri ævi væri hægt að hugsa sér að það kæmi að notum. Svo held ég að ef sjálfvirka kerfið ætti að fara að verða þannig, þá væri erfitt fyrir A, B og C og alla að tala samtímis, því að þá vissu þeir ekki við hverja þeir væru að tala.

Það, sem máli skiptir og ég heyri á því sem fram hefur komið hjá hv. þm., er að þeir vilja meiri hraða í útbreiðslu Landssímans og þar með um leið hærri taxta á símaþjónustunni, því að án þess verður þessu ekki komið í verk. Og það þykir mér gott að heyra, því að það get ég haft að leiðarljósi.