17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

136. mál, símaþjónusta

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér virðist að þau tiltölulega meinlausu orð, sem ég lét hér falla áðan, hafi orðið til þess að hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur tekið afstöðu í málinu. Ég fagna því út af fyrir sig að vita hvar ég hef menn. Það er alltaf betra að vita um það, hvort maður hefur menn á móti sér eða með. En ég held samt að hann hefði ekki þurft að láta sér mislíka svo meinlaus orð eins og þarna var um að ræða, að hann þyrfti að gera svo mikið úr því sem hann gerði áðan.

Hann talaði um að við værum að vekja úlfúð milli annars vegar dreifbýlis og hins vegar þéttbýlis. Er það í rann og veru skoðun þessa hv. þm. dreifbýliskjördæmis sem ekki er vel sett í þessum efnum, að það þurfi að velja úlfúð þó að farið sé fram á að jafnaður sé munurinn sem er í þessum efnum milli dreifbýliskjördæmis og þéttbýliskjördæmis, sem er allt upp í tuttugufaldur? Er það til þess að vekja úlfúð? Er það til þess að fá í þessu tilviki Reykjavík eða Reykjavíkurhringinn upp á móti sanngjörnum óskum þess fólks sem býr úti á landsbyggðinni? Ég held að það komi ekki til mála. Ég held að reykvíkingar séu ekki þeirrar skoðunar almennt að þetta sé til þess að vekja úlfúð. Það eru einstaka broddar í þjóðfélaginu sem láta í veðri vaka að með hví að krefjast meira jafnréttis í þessum efnum en verið hefur sé verið að vekja úlfúð og stefna landsbyggðinni gegn Reykjavík. En þetta er ekki svo. Þetta er einvörðungu gert til þess að láta fólk halda þetta úti á landsbyggðinni, fá það til að þegja. Og ég harma það, að hv. þm. 4. þm. Norðurl. v. skyldi falla í þessa gryfju, vera tvístigandi fyrst, en taka svo afstöðu með broddunum sem vilja kveða þessar sanngirnisraddir niður.