17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

104. mál, starfsemi IBM hér á landi

Fyrirspyrjandi (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Fsp., sem ég hef lagt hér fram, er til komin vegna sívaxandi hlutverks tölvuvinnslu í opinberri stjórnsýslu og rekstri fyrirtækja hér á Íslandi sem annars staðar, og má raunar telja að svo sé komið, að flest lykilverkefni í þjóðfélaginu séu unnin af tölvum. Sem dæmi um tölvuvinnsluna má nefna allt viðskiptabókhald bankanna, skattútreikninga og útskrift ýmissa skattgagna, reikninga opinberra þjónustufyrirtækja, svo sem síma og rafveitna. launabókhald flestra opinberra aðila og stórra fyrirtækja, bókhald ríkisins, Reykjavíkurborgar, Sambands ísl. samvinnufélaga o.fl. o.fl. Þar sem þessi lykilverkefni munu allflest unnin á tölvum eins framleiðanda, þ.e.a.s. International Business Machines, erlends auðhrings sem er svo öflugur að velta hans er mörg hundrað sinnum meiri en fjárlaga íslenska ríkisins og starfsmennirnir fleiri en allir íslendingar, er vert að staldra við og gera úttekt á ástandi þessara mála hér áður en til vandræða kemur. Í þessu sambandi langar mig til að vitna í skýrsíu stofnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna, Intergovermental Bureau for Informatics, sem Háskóli Íslands er aðili að fyrir Íslands hönd, þar sem áhersla er lögð á mikilvægi þess, að einstök ríki fylgist betur með þróun tölvumála og fái beislað hana þannig að tölvutæknin nýtist í þágu þeirra sjálfra. Þar stendur m.a., með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu:

„Nú á sér stað mikil samþjöppun og einokun á tölvutækni. Þar sem gagnavinnslutækni er sú grein stjórnunar sem safnar upplýsingum og geymir þær og þar sem upplýsingar eru eins konar náttúruauðlind sem hvert ríki þarf að hafa algjört vald á ef það á að ráða þróun sinni, þá er augljóst að ríki eru háð þessu grundvallartæki í þágu þróunar. Þetta kallar að sjálfsögðu á stjórnmálaleg afskipti.“ Og síðar segir, með leyfi forseta: „Nú á dögum er gagnavinnslutækni talin með mikilvægustu liðum í stjórnmála-, efnahags-, félags- og menningarlífi ríkja vegna þess að hún hefur meiri áhrif á skipan og venjur samfélagsins en nokkur önnur tækni síðan á tímum iðnbyltingarinnar.“

Einokun erlends aðila í þessu efni hlýtur að bjóða hættunni heim, enda eru margir að gera sér það ljóst, eins og t.d. ráðamenn ríkja Efnahagsbandalagsins þar sem nú er unnið að þróun sjálfstæðrar tölvutækni og framleiðslu gagnavinnslutækna. Í riti útgefnu á vegum Efnahagsbandalagsins um stefnumótun í tölvuvinnslu. Community Political Dataprocessing, er enda bent á hættuna af aukinni forgangsaðstöðu I.B.M. á tölvumarkaðnum og erfiðleika annarra í samkeppninni vegna þess að þetta fyrirtæki hefur nú það forskot að ráða yfir fullkomnari tækni en nokkur annar framleiðandi í heiminum.

Með tilliti til þeirrar aðstöðu, sem fyrirtækið I.B.M. hefur skapað sér á Íslandi, hef ég borið fram spurningarnar á þskj. 127 sem ég tel óþarfi að lesa hér sérstaklega upp, en ég vil skýra þær nánar.

Í fyrsta lagi: Ekki hefur fyrirspyrjandi fundið gögn um að Alþ. hafi veitt erlenda fyrirtækinu I.B.M. lagaheimild til starfa á Íslandi. Það er því fróðlegt að fá fram hvernig heimildin kom til og hvort sambærilegar heimildir hafa verið veittar og þá hverjum.

Starfsleyfi til I.B.M. er ekkert smámál. Þessi auðhringur hefur meiri umsvif í heiminum og e.t.v. meiri ítök í draglegu lífi landsmanna en þær stóriðjur erlendar, sem Alþ. hefur leyft að starfa hér á landi. I. B. M. er stærra en Union Carbide, stærra en Alusuisse, stærra en John Mansfield. Má kannske búast við eftir fordæmið með I. B. M. að fleiri auðhringir fái hér forréttindi á sama hátt?

Eins og fram kemur í annarri spurningu eru leigusamningar I.B.M. á Íslandi miðaðir við erlendan gjaldeyri, þó svo að fyrirtækið sé skráð hér á landi og lúti íslenskri löggjöf, að manni skilst. Flestar tölvur og gagnavinnsluvélar, sem I.B.M. lætur viðskiptavinum í té, eru leigðar og leigan greidd mánaðarlega skv. samningi sem gerður er í bandaríkjadollurum. Þannig tryggir I.B.M. sig gegn gengisfellingum og hafa ýmsir aðilar látið í ljós undrun yfir þessum forréttindum I. B. M. umfram keppinauta sína á íslenskum tölvumarkaði, — keppinauta sem yfirleitt eru íslensk innflutningsfyrirtæki. Er kannske meiningin að leyfa einnig öðrum aðilum á tölvusviði eða öðrum sviðum atvinnulífsins að gera gengistryggða samninga við íslensk fyrirtæki? Tökum sem hugsanlegt dæmi fyrirtæki sem leigir út vélskóflur eða steypuvélar.

Þriðja spurningin er um viðskiptatengsl l.B.M. á Íslandi við móðurfyrirtækið og útibú þess erlendis. I.B.M. erlendis selur I.B.M. hér tölvur og önnur tæki eftir pöntunum og héðan flytur I.B.M. þá út gjaldeyri. Með tilliti til þess hvernig fjölþjóðaauðhringar eru almennt reknir er stjórn á gjaldeyristilfærslunum milli útibúsins hér og höfuðstöðvanna eða útibúa sjálfsagt í höndum höfuðstöðvanna. Æskilegt er að fá vitneskju um hvers konar eftirlit er af Íslands hálfu með þessum fjármagnsflutningum og hve miklir þeir eru, bæði sem heild og sem hlutfall af tekjum I.B.M. á Íslandi.

Fjórða spurning er fyllilega tímabær þar sem leigufyrirkomulagið leiðir til síaukinna gjaldeyrisútgjalda og sýnist dýrara til lengdar. Einnig verða svokallaðar tækniframfarir, sem allar nýjar vélar eru ævinlega kenndar við í auglýsingaáróðri, til þess að leigjendur freistast oft til að skipta um tölvur án tillits til raunverulegra þarfa og fá þá gjarnan dýrari tölvur, eins og þróunin hér á landi sýnir. Líklega mundu margir hugsa sig betur um ef kaupa ætti ný tæki.

Tilgangurinn með síðustu spurningunni er tvíþættur. Hann er í fyrsta lagi að almenningur fái að vita hvaða aðilar, ekki síst í opinbera kerfinu, fá að gera samninga sem miðast við erlendan gjaldeyri. Í öðru lagi er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir ítökum og umsvifum erlenda fyrirtækisins I.B.M. í athafnalífi landsins. Einokunar- eða forgangsaðstaða slíks fyrirtækis getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar varðandi öryggi og hagkvæmni þeirrar lykilstarfsemi í landinu sem gagnavinnslutækni er á leið með og á eftir að verða í okkar landi sem öðrum. Séu ítök umrædds fyrirtækis raunverulega að verða jafnmikil og grunur leikur á gætu einhliða ákvarðanir þess neytt viðskiptavinina til óhagkvæmari samninga. Um slíka notkun aðstöðunnar höfum við reyndar þegar smádæmi. Það var þegar gengi íslensku krónunnar hækkaði örlítið, aldrei þessu vant. Þá svaraði I.B.M. með hækkun leigutaxtans. Gengistryggingin var sem sé aðeins þeirra megin. Séu ítök slíkra aðila nægilega mikil getur líka þjónustuleysi þeirra haft skaðleg áhrif á efnahag landsins ef þeim býður svo við að horfa, eins og sumar þjóðir hafa mátt reyna.

Þegar spurt er um markaðshlutdeild I.B.M. hér á landi er hugsað til þess, að með öðrum þjóðum er lítið á hlutdeild I.B.M. í tölvumarkaðnum sem einokunaraðstöðu ef hún er yfir 60%. Ég legg áherslu á, að hér er átt við hlutdeild að verðmæti til, en ekki í fjölda tölva.