17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

104. mál, starfsemi IBM hér á landi

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er náttúrlega rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði um þetta atriði í 2. lið, að þar stendur staðhæfing gegn staðhæfingu. Ég veit ekki annað um þetta heldur en það sem ég hef fengið upplýsingar um og það er sjálfsagt að hafa það í því efni sem sannara kann að reynast. En þetta eru þær upplýsingar sem ég hef fengið um þetta og hefur verið safnað af rn.

Viðvíkjandi því, hver hefði eftirlit með því eða tryggði það að ekki væri yfirfært meira en markaðsverðmætið, þá verð ég að svara því, að það eru gjaldeyrisyfirvöld sem hafa eftirlit með því. Hvort hægt er að komast svo að orði um það að það sé tryggt, það vil ég ekki beinlínis bera mér í munn, það er kannske erfitt að segja til um það, en það ætti að vera eins vel tryggt og kostur er á. Það eru rétt gjaldeyrisyfirvöld sem um þetta fjalla.

Hvort það sé hagkvæmara að leigja eða kaupa þessar tölvur, það get ég ekki dæmt um af eigin reynd, en þær upplýsingar, sem ég las hér upp, eru byggðar á reynslunni bæði hérlendis og erlendis, að notendur vilja frekar leigja heldur en kaupa. Hvort einhver hefur óskað eftir að kaupa sem ekki hefur fengið það, það skal ég ekki segja um. Ég hygg þó að það muni tæplega geta komið til, því að vélarnar eru bæði til leigu og sölu. Menn geta valið á milli, eftir því sem mér er tjáð. En reynslan er þessi, að menn kjósa af einhverjum ástæðum frekar að taka þær á leigu.

Hvað hlutdeild I.B.M. sé hér mikil, ég gat ekki svarað þeirri spurningu af því að ég hafði ekki upplýsingar um það og þori ekki að fara með tölur í því sambandi. Það er alveg rétt, að það eru langstærstu vélarnar sem eru frá I.B.M. En sú tala, sem ég hef þó aðeins heyrt nefnda: þessu sambandi, en þori ekki að fara með og hef ekki viljað fara með hér, hún er þó ekki í samræmi við þá tölu sem hv. fyrirspyrjandi nefndi.

Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að það er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort það fyrirkomulag, sem er í þessum leigusamningum, brjóti ekki í bága við lög nr. 71/1966, um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Ég vil ekki kveða fastar að orði en ég sagði áðan, að þetta hefur tíðkast þennan tíma hér áa þess að vitað sé um að neinar kvartanir hafi borist. Hins vegar mun rn. athuga þetta atriði nánar, því að það getur vel verið að það væri ástæða til þess að setja löggjöf eða ákvæði í löggjöf um þetta atriði.