17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 7 öðrum hv. þm. að bera fram till. til þál., þá sem er á þskj. 139. Þessi till. er um sjónvarp á sveitabæi með aðstoð Byggðasjóðs. Þar er gert ráð fyrir að Alþ. feli ríkisstj. að hlutast til um að Ríkisútvarpið komi upp endurvarpsstöðvum fyrir þá sveitabæi sem nú njóta ónothæfra eða engra sjónvarpsskilyrða. Í þessu skyni skuli leita til Byggðasjóðs um óafturkræft framlag.

Þessi till. er gamall kunningi hér fl. hv. Alþ. Þegar hún var fyrst flutt, efnislega sama till., á löggjafarþinginu 1972–73, náði hún ekki að fá afgreiðslu. Hún var flutt á næsta þingi á eftir og enn fór á sömu leið. Og hún var flutt í hið þriðja sinn, það var á síðasta þingi, og enn fór á sömu leið. Nú var þess freistað að bera þessa till., sem er efnislega sama till., fram í bið fjórða sinn: þeirri von að nú takist betur en áður. Er ástæða til að ætla að svo geti orðið þegar haft er í huga að í öll þau skipti, sem þessi till. hefur komið til umr. hér í hv. Sþ., hefur henni verið tekið ákaflega vel. Ég ætla að enginn hafi mælt gegn henni. Þvert á móti hafi till. hlotið eindreginn stuðning í umr. En sá stuðningur hefur ekki nægt til þess að fá afgreiðslu málsins hér á þingi.

Það er engin furða þó að till. fái góðar undirtektir því að hér er um mál að ræða sem er óvenju augljóst að því leyti, hvað um mikið réttlætismál er að ræða. Það er um það að r:eða að gera þeim þegnum þjóðfélagsins kleift að njóta sjónvarps sem ekki eiga þess kost nú. Hér er um að ræða fólk á sveitabæjum víðs vegar um landið, fólk sem er einmitt búsett flest í mesta strjálbýli og þyrfti því frekast af öllum að njóta sjónvarpsins og þess sem það hefur að bjóða. Það þarf ekki að fjölyrða hér um mikilvægi sjónvarpsins. Það er öllum ljóst. Það er kannske ekki öllum eins vel ljóst, en ætti að vera það, að einmitt þeim, sem búa í mesta strjálbýlinu, er ef eitthvað er, enn þá meiri þörf á en öðrum að njóta þeirrar þjónustu sem sjónvarpið hefur að bjóða. Það er svo augljóst mál að ég ætla ekki að fara að fjölyrða um það.

Ég hafði hugsað mér reyndar að halda ekki langa ræðu fyrir þessari till. í þetta sinn. Ég hef reifað málið að mínu viti allítarlega í þrjú skipti áður, og ég tel að það sé ekki ástæða til að ræða það svo ítarlega sem ég hef áður gert nú í þetta sinn. Ég vil aðeins vekja athygli á því, hvert er umfang þess verkefnis sem hér er um að ræða, hvað það eru margir sveitabæir sem hér koma við sögu og þurfa að fá sjónvarpsskilyrði sem menn njóta ekki nú.

Fyrir nokkrum árum gerði Landssíminn áætlun um þetta, og þá var gert ráð fyrir að sveitabæirnir væru um 470 og þyrfti um 150 endurvarpsstöðvar til þess að koma þeim í sjónvarpssamband og það mundi kosta að meðaltali um 1 millj. á hverja sendistöð. Þessi áætlun er nokkurra ára gömul, ekki margra ára. Það er ekki jafnnákvæm áætlun nú eins og var þá gerð og þó var hún ekki sérlega nákvæm. En ástæðan til þess er sú að það hefur svo til ekkert skeð í þessum málum á undanförnum árum, að það hefur ekki þótt ómaksins vert að gera nákvæma áætlun um þetta eins og ástandið er í dag. En það er óhætt að fullyrða að ástandið í dag er svo svipað, að sú mynd sem dregin var upp í hinni fyrri áætlun, breytist ekki verulega. Að vísu hafa sjónvarpsskilyrði komið á nokkra bæi sem þá var reiknað með að þyrftu að fá aðstöðu til sjónvarps, en það hafa komið bæir á móti, svo sem nýbýli eða bæir sem hafa komið aftur í byggð, þannig að það skeikar ekki miklu frá því sem áður var talið vera í þessu efni, þ.e.a.s. hvað það væru margir bæir sem þyrftu á sjónvarpsskilyrðum að halda en hefðu ekki. Að sjálfsögðu hefur kostnaður á síðustu árum aukist frá því sem áætlað var fyrir nokkrum árum. Það var reiknað þá með að kostnaðurinn væri um 1 millj. að meðaltali. Nú er álitið að sá kostnaður sé jafnvel hátt á aðra millj. á hverja sendistöð. En á móti kemur að reynsla er fengin fyrir því, að það er hægt að koma þessu í framkvæmd á kostnaðarminni hátt en áður, þannig að hér er nú kannske ekki um eins mikla hækkun á kostnaði að ræða og virðist vera við fyrstu sýn. En ég sé ekki ástæðu til þess að vera að fara hér út í slík tæknileg atriði.

Ég sagði áðan að þessi till. væri að efni til eins og fyrri till. sem fluttar hefðu verið um þetta efni. Það eru þó tvær breytingar á gerðar. Í fyrsta lagi það, að nú er ekki gert ráð fyrir í þessari till., eins og gert var áður, að þessu verki verði lokið á tveim árum. Og í öðru lagi er nú bent á að leita til Byggðasjóðs til þess að fá fjármagn í þessa framkvæmd. Hvor tveggja þessi breyting frá því, sem áður var, er gerð í því trausti að þetta stuðli nokkuð að því að till. fái jákvæða afgreiðslu á þessu þingi, þ.e.a.s. menn sjái ekki eins mikil vandkvæði á málinu ef það er ekki bundið í till. að þessari framkvæmd skuli lokið á tveim árum. Og svo er í till. núna bent á Byggðasjóð til bjargar í þessu efni, en áður var ekki bent á neinn sérstakan aðila, heldur gert ráð fyrir að ríkisstj. sæi fyrir að útvega fjármagn.

Nú er ekki gert ráð fyrir því hér eða talað um ákveðna upphæð sem yrði varið til þessara framkvæmda á þessu ári. Það er gert með ráðnum hug. Ég geri ekki ráð fyrir að eins og málum er nú háttað sé hægt að ljúka þessu í skyndi, þó að ekki sé um risavaxið verkefni að ræða, og það yrði að fara eftir atvikum, m.a. hvað Byggðasjóður treystir sér að gera í þessum efnum. En ég legg áherslu á það, að það er ekki tilviljun að hér er vísað til Byggðasjóðs. Hér er raunverulega um byggðamál að ræða. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að Ríkisútvarpið — sjónvarpið standi undir þessum framkvæmdum af sínum venjulegu tekjustofnum. Í fyrsta lagi er fjárhag Ríkisútvarpsins þannig varið að það eru ekki tök á því, þetta hefur reynsla undanfarinna ára sýnt það. En í öðru lagi verður að viðurkenna það, að í sambandi við að koma á sjónvarpi til þessara sveitabæja, sem hér um ræðir, er ekki hægt að leggja því til grundvallar nein arðsemissjónarmið af hálfu Ríkisútvarpsins. Það styrkir ekki stöðu Ríkisútvarpsins. Þetta eru svo fáir sveitabæir sem um er að ræða og fjárfestingarkostnaðurinn tiltölulega mikill. Hins vegar er hér að mínu viti um byggðamál að ræða og einmitt þess eðlis sem er eðlilegt að Byggðasjóðurinn láti til sín taka. Því er í till. gert ráð fyrir þeirri leið að leitað verði til Byggðasjóðs um fyrirgreiðslu í þessu efni.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að vera langorður í framsögu fyrir þessari till. í þetta sinn og ég ætla að standa við það, en leyfi mér að óska þess að till. verði vísað til hv. fjvn. þegar umr. hefur verið frestað.