17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Mér þykir gott að heyra að hv. 2. þm. Vestf. segist hafa áhuga á þessu máli. Ég hef hins vegar gengið út frá því. Það er rétt sem hann sagði, hann hefur verið fyrsti flm. till. til þál. á undanförnum þingum sem hefur gengið í sömu átt og þær till. sem ég og mínir félagar hafa verið flm. að. En því miður verð ég aðeins að gera athugasemdir við málflutning hans í þessu máli.

Ég sagði áðan, að þetta mál hefði fengið einstaklega góðar undirtektir af skiljanlegum ástæðum á undanförnum árum, samt hefði ekkert skeð. Hvers vegna hefur ekkert skeð? Af því að menn hafa alltaf haft tilhneigingu til þess að blanda inn í þetta mál öðrum málum ekki óskyldum, en þó annars eðlis. Menn hafa sagt að það þyrfti að gera þetta fyrir þessa sveitabæi sem ekki hafa sjónvarpsskilyrði, en það væri svo margt annað sem þyrfti að gera, það þyrfti að bæta sjónvarpsskilyrði líka þar sem þau væru fyrir, en væru ekki nægilega góð, það þyrfti að bæta hlustunarskilyrði hljóðvarps o.s.frv. og nú kom einmitt hv. 2. þm. Vestf. inn á þetta og lagði áherslu einmitt á þetta sjónarmið, að breiða sig út yfir allt og ætla að laga allar meinsemdir í sambandi við þetta mál þegar hann var að rekja hve verkefni Byggðasjóðs væru mikil. Ég held ef mönnum er alvara með að vilja leysa þetta mál með sveitabæina, sem ekki hafa sjónvarpsskilyrði, þá verði menn að taka það sérstaklega fyrir og leyfa sér ekki þann munað í leiðinni að ætla að leiðrétta og gera margt annað gott í sama mund.

Það er góðra gjalda vert og ég hef lýst í Ed. ánægju minni yfir frv. því sem hv. 2. þm. Vestf. er fyrsti flm. að og hann vék að í ræðu sinni áðan, bar sem gert er ráð fyrir, eins og hann orðaði það, sérstökum tekjustofni til þess að sinna dreifikerfi Ríkisútvarpsins. En ég ætla ekki að fara að ræða það frv. núna. Það gengur að vissu leyti alveg í sömu átt og gert var ráð fyrir í till. minni og minna meðflm. á síðasta þingi, þar sem gert er ráð fyrir að varið yrði ákveðnum hundraðshluta af afnotagjöldum Ríkisútvarpsins til þess að bæta dreifingu þessara fjölmiðla. En ég hef alltaf lagt áherslu á að það væri annað mál og að vissu leyti miklu meira mál en að koma sjónvarpinu á sveitabæina, því að það eru geysileg verkefni sem bíða Ríkisútvarpsins í sambandi við dreifinguna, og þau vandamál verða ekki leyst í einni svipan. Þess vegna þurfum við að halda því undanskildu frá hugmyndinni um að leysa þarfir þessara fáu sveitabæja fyrir sjónvarpsskilyrði. Við megum ekki leyfa okkur bann munað að vinna að málum Ríkisútvarpsins almennt burt séð frá þessu. Og það, sem ég finn athugavert við frv. hv. 2. þm. Vestf. og hans félaga í hv. Ed., er að þeir halda þessum viðfangsefnum ekki aðskildum, eins og var hugmynd mín og minna meðflm. Ég óttast að ef við finnum nýjan tekjustofn eða skiptum tekjum Ríkisútvarpsins þannig, að þar sé ákveðinn hluti sem varið sé til að styrkja dreifikerfið, þá verði því fjármagni, sem kemur inn með þessu móti, varið til þess að styrkja dreifikerfið fyrst og fremst þar sem fjölmennið er mest, sjónvarp á þá sveitabæi, sem till. okkar fjallar um, verði útundan eins og hefur verið hingað til.

Ég vona nú að hv. 2. þm. Vestf. og aðrir góðir menn, sem ég efast ekki um að vilja hið besta í þessu efni, leggi sig fram um að leysa mál þessara fáu sveitabæja sérstaklega. Við skulum svo sameinast um að leysa hið stóra vandamál fyrir Ríkisútvarpið varðandi dreifikerfið almennt. Við skulum gera það, en ekki láta þá viðleitni verða til þess að drepa þetta, eins og hlýtur að verða að mínu mati ef við stöndum ekki á verði gegn þessari hættu.

Ég ætla ekki að fara að ræða um hlutverk Byggðasjóðs og verkefni hans. Ég skil lögin um Byggðasjóð þannig, að það sé enginn vafi á því að Byggðasjóður hafi heimild til þess að láta þetta. sérstaka mál til sín taka. Í lögunum um Byggðasjóð eða Framkvæmdastofnun ríkisins segir, að mig minnir í 30. gr., eitthvað á þá leið, að það sé heimilt að veita óafturkræf framlög ef sérstaklega stendur á. Mér finnst það hafið yfir allan vafa að hér standi sérstaklega á, og ég ber það mikið traust bæði til þeirra, sem eru á stjórn Byggðasjóðs, og framkvæmdastjóra Byggðasjóðs, að við athugun á þessu máli finni þessir mætu menn einhvern flöt á þessu máli þannig, að till. sem þessi, sem hér er borin fram, verði raunhæf.