17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, gat þess í upphafi framsögu sinnar að hér væri ekki nýr gestur á ferð í þingsölum. Þetta mun vera í fjórða skiptið sem þessi þáltill. svo að segja óbreytt er lögð fyrir, og vel get ég tekið undir það, að undarlegt má telja að þetta mikla og þarfa réttlætismál skuli ekki hafa fengið meiri og betri byr á gegnum Alþ. en raun hefur borið vitni. Alla vega hefur harla lítið og ekki neitt orðið úr þeim framkvæmdum sem stefnt er að með tillöguflutningnum.

Ég tek fyllilega undir þau orð hv. 3. þm. Vestf. að hér er um byggðamál að ræða. Byggðamál eru fleiri mál en bein atvinnumál. Þau mál, sem snerta félagslega og menningarlega aðstöðu fólks, hvar á landinu sem það er búsett, eru engu síður mikilvæg, og ég hygg að einmilt þessi þáttur, hinn félagslegi, sé ekki síður ráðandi um það, hvort fólk tollir til lengdar í þessum afskekktu byggðum, heldur en hitt, hvort þær fá byggt upp sitt atvinnulíf, hvort sem það eru skuttogarar eða landbúnaðarvinnslustöðvar eða eitthvað annað í þeim dúr.

Ég get hins vegar líka tekið undir þau orð hv. 2. þm. Vestf., að ég hef áhyggjur af að þetta stóra verkefni mundi ekki ná nægilega fljótt fram að ganga með því að treysta algjörlega á Byggðasjóð, hversu velviljuð málefninu sem stjórn Byggðasjóðs væri í sjálfu sér. Hér er vafalaust, að því er ég ímynda mér, um mörg hundruð millj. kr. verkefni að ræða. Það var talað um 150 millj. kr. kostnað fyrir 2–3 árum við að koma í sjónvarpssamband þessum 400–500 sveitabæjum, sem ekki hafa enn sjónvarp. Ég hygg að sú upphæð muni hafa tvö- eða þrefaldast nú. Þess vegna finnst mér að bæði séu málin góð, þessi þáltill., sem ég er meðal annarra meðflm. að, og frv. til l. flutt af hv. 2. þm. Vestf. sem fyrsta flm., og þau eigi bæði að geta náð fram að ganga og þjóna sama tilgangi. Þá á ég við beinlínis að það, sem lagafrv. gerir ráð fyrir, sérstakt gjald samkv. útvarpslögum á viðtækjanotendur og sjónvarpstækjanotendur, kæmi þessu verkefni til góða, enda þótt það hrökkvi alls ekki nógu langt, því að það er að mínu mati mjög hógværlega farið í sakirnar í þessu lagafrv. Því tel ég einsýnt mál að þarna geti þetta tvennt hjálpast að, það verði lagt á þetta sérstaka gjald, sem hv. þm. Steingrímur Hermannson gerir ráð fyrir í sínu frv., og Byggðasjóður komi á móti, þannig að ég get ákaflega vel stutt bæði þessi mál. Þau eru það mikilvæg í sjálfu sér, að við hljótum að beita okkur að því að þau nái bæði fram að ganga. Þess vegna vil ég engan veginn fallast á að þessi mál vinni hvort á móti öðru. Þau eiga að vinna saman að sama markmiði.

Ég tek undir það með hv. 3. þm. Vestf. að í lagafrv. er of óljóst markað til hvers þessi aukni tekjustofn Ríkisútvarpsins eigi að fara. Ef það gengur, eins og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson telur, í það almennt að endurbæta dreifikerfið, þá er ég eins og hann hrædd um að þeir sveitabæir, sem við erum fyrst og fremst að hugsa um, sitji á hakanum. En það er ekkert álitamál, það eru einmitt þessi sveitabýli, mörg þeirra í afskekktustu afkimum íslenskra byggða, sem við fyrst og fremst viljum leggja áherslu á að fái þessa þjónustu og það sem allra fyrst úr þessu. Ég tel þess vegna eðlilegt að það kæmi til greina að þessu lagafrv. yrði breytt í þá átt, að þessar tekjur af nýju gjaldi til viðbótar útvarpsgjaldi rynnu tryggt og ákveðið til þessa verkefnis, að koma sveitabæjunum fyrst í samband. Dreifikerfið almennt þarf endurbóta við og það þarf að koma, en það liggur ekki eins mikið á því að fá fullkomið dreifikerfi almennt eins og að leiða til lykta þetta nauðsynja- og réttlætismál. Þess vegna vil ég vænta þess, að við flm. þessarar till. getum fallist á að bæði þessi mál, sem hér liggja fyrir Alþ. nú, þjóni sama tilgangi og að okkur beri að vinna að framgangi þeirra beggja.

Ég vil, úr því að ég er komin hér upp til umr. í þessu máli, láta þess getið að mér segir illa hugur um það, sem í rauninni hefur þó verið hemlað á miðri leið, að kasta nú hundruðum millj. í innflutning litsjónvarpstækja á meðan við höfum ekki haft efni á því að veita glætu af sjónvarpi til allra landsmanna. Þetta hef ég áður bent á sem forkastanlega mismunun. Það er enginn vafi á því, að við höfum ekki efni á að kosta miklum fjármunum til þeirrar aukaánægju sem sjónvarpsnotendur á tiltölulega afmörkuðu svæði á landinu hefðu af lít á sjónvarpsskerminum sínum, á meðan afskekktasta fólkið á Íslandi hefur enga mynd, hvorki svarthvíta né litaða. Þetta ætti að liggja í augum uppi og ég vænti þess, að ekki verði farið frekar út í innflutning litsjónvarpstækja á meðan þessu máli eru ekki gerð þolanleg skil, þ.e.a.s. stefnt sé að því að sjónvarpið nái til allra landsmanna.