17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér inn í þessar einkaumr. þeirra þm. Vestf., en með leyfi forseta, ég leyfi mér að lesa upp þessa till. eins og hún hljóðar:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að Ríkisútvarpið komi upp endurvarpsstöðvum fyrir þá sveitabæi sem nú njóta ónothæfra eða engra sjónvarpsskilyrða. Í þessu skyni skal leita til Byggðasjóðs um óafturkræft framlag.“

Ég tel þessa þáltill. alveg óþarfa. Ég tel sjálfsagt að ríkisstj. eða þeir, sem vinna að útbreiðslu sjónvarps á Íslandi, hafi það sem sjálfsagt hlutverk að breiða út sjónvarp og útvarp við sem best skilyrði, eins og fjárhagsleg geta leyfir hverju sinni.

Ég vil taka það strax fram, að ég tel alveg sjálfsagt að koma öllum þeim þægindum sem hægt er, og við skulum þá bæta við: öllum þeim þægindum sem reykvíkingar búa við, á hvern einasta sveitabæ sem allra fyrst. En það verður að ráðast svolítið eftir fjárhagslegri getu þjóðarinnar. Og ég vil segja það, að ég er furðu lostinn yfir öllum þeim till. og þeirri heimtufrekju sem kemur í tillöguflutningi hér á Alþ. hvað eftir annað. Ég lít á þennan tillöguflutning sem hreinan áróður fyrir þingsæti hvers og eins, flutning á till. sem þeir vita fyrir fram að þjóðin ræður ekki við, en hver einasti þm. og hver einasti landsmaður vildi gjarnan hafa efni á að samþykkja. Þetta er því bara hrein sýndarmennska og langt frá því að það sé samboðið Alþ. að flytja svona till. á þeim tíma — sérstaklega á þeim tíma sem við lifum í dag.

Ég vil fá upplýst hjá flm. hvernig á að fjárfesta í þessum útbreiddu sjónvarpsendurvarpsstöðvum, eins og ástandið er núna. Á maður virkilega að þurfa að taka því hvað eftir annað, að engin önnur hugmynd komi fram en að bæta við þau gjöld, sem fyrir eru, á þá sem hafa víðkomandi þægindi? Nú er ég ekki sérstaklega að tala um reykvíkinga. Ég held að afnotagjöld yfirleitt séu orðin alveg nógu þung, bæði fyrir útvarp og sjónvarp. I.andið er í þrengingum, fjárhagsþrengingum, ég held að okkur sé það vel ljóst. Við höfum undanfarið gefið út skuldabréf, við höfum gefið út spariskírteini sem við getum svo ekki endurgreitt þegar þau falla á gjalddögum. Við höfum þurft að fá ný erlend lán til að standa undir framkvæmdum, nauðsynlegustu framkvæmdum. Við höfum þurft að taka ný erlend lán til að standa undir afborgunum af öðrum erlendum lánum sem falla í gjalddaga. Samt sem áður koma þeir fram á Alþ. í auknum mæli með till. um kostnaðarsamar — mjög kostnaðarsamar framkvæmdir sem gætu beðið. Ég álít, því miður fyrir fólkið sem bíður eftir þessum þægindum, að það eigi að bíða með fjárfestingu í þessum endurvarpsstöðvum þangað til við getum á eðlilegan hátt í gegnum fjárlög tekið þetta sem forgangsframkvæmd — ef það er þá talið að þetta skuli vera forgangsframkvæmd — þegar við stöndum í fjárlagagerð. Ég vil hreinlega vara við áframhaldi á þessum tillöguflutningi.

Ég skal ekki segja hvort það er hægt að finna einhverjar nýjar tekjulindir fyrir Byggðasjóð, þannig að Byggðasjóður geti staðið undir þessu. Ég lít á fjárlögin sem einn heildarbyggðasjóð og svona eins og desert á eftir Byggðasjóðinn eins og hann er. Ég veit ekki betur en að þm. raði sér á fjárlögin, á framkvæmdaliði fjárlaganna a.m.k., þau tvö þing sem ég hef tekið þátt í gerð fjárlaga. Svo kemur Byggðasjóður á eftir. Það er opin leið sem sagt inn í hluta af fjárlögunum eftir að þeim hefur verið lokað. Og þar er sérstök stjórn sem ég vildi glaður taka þátt í að leggja niður. En ef það eru einhverjar aðrar tekjulindir fyrir Byggðasjóð, sem hægt er að finna, án þess þó að um frekari álögur á fólkið almennt sé að ræða, þá skal ég glaður samþykkja þær. Það er þó eitthvað nýtt sem kæmi hér fram á Alþ.

Ég vil taka undir það, sem kom hér fram, ég held hjá 2. þm, Vestf., að það verður að passa að skaða ekki einn til að hygla öðrum. Það er mergurinn málsins í mínum málflutningi og ég vil undirstrika það.

Það var talað um, ég held af hv. landsk. þm., að þetta hefði aðeins kostað — ég vona að ég fari með rétt mál — aðeins kostað um 150 millj. kr. fyrir fjórum árum, (Gripið fram í.) Já, sem væri orðin enn þá stærri. Ef okkur munar ekkert í dag um samsvarandi upphæð 150 millj. kr. fyrir fjórum árum, þá værum við alls ekki í þeim vandræðum sem við erum í sem þjóð.

Ég vil vara við þeim síauknu álögum sem felast í till. sem fluttar eru þessa dagana á þinginu. Og ef hv. 3. þm. Vestf. verður fyrir vonbrigðum og meiri vonbrigðum eftir hverja ræðu 2. þm. Vestf., þá verð ég að segja að ég verð fyrir síauknum vonbrigðum með málflutning þeirra þm. Vestf. sem hér hafa talað fyrir þessu máli. Þeir eru allir í sama bát hvað mig snertir.

En sem sagt, ég held að við ættum að reyna að ljúka einhverju af fjárfrekum framkvæmdum, sem þegar eru á fjárlögum, og taka þá þessa framkvæmd sem næstu framkvæmd sem fjárlög þola, en alls ekki bæta henni á ástandið eins og það er í dag.