17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hv. 12. þm Reykv. hefur orðið fyrir sárum vonbrigðum með þá hv. þm. Vestf. sem hér hafa talað og þeir svo fyrir vonbrigðum hver með annan. Ég hef ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum og það liggur sæmilega vel á mér enn þá. Auðvitað eru vestfirðingar að ræða hér sjónvarpsmál af því að þeim eru kunnir þeir vankantar sem eru á framkvæmd þessara mála, og þeir eru e.t.v, að berjast fyrir því sem þeir telja vera hagsmunamál þeirra byggðarlaga sem hafa sent þá til starfa í þessari stofnun, og það er náttúrlega hv. 12. þm. Reykv. líka að gera. Hann er með sínum málflutningi að gæta hagsmuna þeirra sem hann telur sína umbjóðendur.

Hver eru þessi sjónvarpsmál, sem vestfirðingar hafa verið hér að ræða? Það eru hér í þinginu tvö mál um útbreiðslu sjónvarps á ferðinni, till. til þál. hér í Sþ. og enn fremur frv. til l. um breyt. á útvarpslögum í Ed. Þetta eru tvær leiðir að sama marki og mér finnst að báðar geti vel komið til greina og kannske væri eðlilegt að reyna að samræma þær, samræma kraftana þannig að það sé ekki endilega um tvær leiðir að velja, heldur megi fara þær báðar að nokkru leyti. Meginatriðið er náttúrlega það að framkvæmdum verði hraðað. Það er alveg áreiðanlegt að það er vel fær sú leið að taka 10% af afnotagjöldunum og verja til þessarar uppbyggingar. Byggðasjóður hefur auðvitað fjármagn til ráðstöfunar, þó að ég hins vegar vilji undirstrika að þörfin fyrir það fjármagn sé mjög viða og sé mjög brýn. En hann hefur fjármagn til ráðstöfunar og gæti hugsanlega hlaupið undir bagga til bráðabirgða. Ég er ekki svo áræðinn að nefna óafturkræft framlag, eins og stendur í þáltill., en ég tel vel geta komið til greina að hann lánaði fé til verksins og síðan yrði það smám saman endurgreitt eftir því sem félli til ef farin væri þessi prósentuleið.

Þegar íslenskur sjónvarpsrekstur hófst, þá var hafist handa um myndarlega — ótrúlega myndarlega uppbyggingu dreifikerfisins um landið. Framkvæmdir þessar voru fjármagnaðar, eins og menn vita, með því að til þeirra var varið innflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum. Þetta gaf góða raun og framkvæmdahraðinn var mjög góður. En þegar sjónvarpstækin voru komin á allan þorra heimila í landinu hvarf að mestu leyti sá tekjustofn sem staðið hafði undir uppbyggingunni, og þegar uppbygging dreifikerfisins stöðvaðist höfðu þó ekki verið sköpuð skilyrði til viðtöku sjónvarpsefnis í nokkrum byggðarlögum. Skv. áætlun, sem póst- og símamálastjórnin lét gera haustið 1974 og er dags. 15. nóv., vantaði 14 nýjar endurvarpsstöðvar sem þjóna ættu 50 eða fleiri notendum hver og var þá áætlaður kostnaður við byggingu þeirra tæplega 50 millj. kr. Þá þurfti skv. áætluninni nauðsynlega að endurbæta 16 bráðabirgðastöðvar og áætlaður kostnaður við það var þá 35 millj. Auk þess var gerð áætlun um endurbætur nokkurra endurvarpsstöðva á 23 millj. Enn fremur var gerð áætlun um endurvarpsstöðvar vegna nokkurra fiskimiða. Það er að sjálfsögðu geysimikið og kostnaðarsamt verkefni og gerði áætlunin ráð fyrir 600 millj. kr. kostnaði.

Það þarf ekki að fjölyrða um það hvílíkt réttlætismál það er að skapa öllum landsmönnum sem jafnasta möguleika til nota þessa fjölmiðils sem er í ýmsum tilfellum veigamikið menningartæki. Það er skylda ríkisins og ríkisfyrirtækja að skapa þegnunum öllum sem jafnasta lífsaðstöðu í hvívetna, og þetta er vitaskuld einn þáttur þess máls. Að sjálfsögðu er þetta kostnaðarsamt verkefni og það er nauðsynlegt að tryggja til verksins traustan tekjustofn. Ef við athugum hvað afnotagjöld sjónvarpsins eru, þá kemur í ljós að innheimt afnotagjöld sjónvarps árið 1974 voru 259.6 millj. kr. Árið 1975 er áætlað að innheimtist ca. 390 millj., þannig að 10% af afnotagjöldunum gæti reynst eðlilegt að verja til uppbyggingar dreifikerfisins. Það er ekkert fráleit tala að hugsa sér þessi 10%.

Flm. frv. í Ed., frv. á þskj. 105, leggja til að viðaukagjald verði lagt á sjónvarpsgjöldin til þess að mæta þessu. En það er skoðun mín að sjónvarpsgjöldin þyrftu ekki endilega að hækka um 10%, þyrftu ekki endilega að hækka verulega þó að tekinn væri póstur út til þessa sérstaka verkefnis, heldur mætti að skaðlausu spara nokkuð á sumum líðum í sjónvarpsrekstrinum. Og þar er ég sammála hv. 12. þm. Reykv., að auðvitað mega menn ekki eyða í tóma ráðleysu. Þeir verða auðvitað að afla teknanna eða spara á öðrum liðum til þess að geta framkvæmt málin. Og hún var alveg laukrétt hjá honum, hugvekjan sem hann flutti um erlendar lántökur, mikilvægt umhugsunarefni fyrir okkur hér á hv. Alþingi.