17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að leggja hér orð í belg úr því að svo miklar umr. hafa orðið um þá þáltill. sem hér liggur fyrir um sjónvarp á sveitabæi, vegna þess að hér er um mjög merkt mál að ræða og mál sem við hljótum að taka alvarlega.

Ég vil leyfa mér að þakka flm. þessarar þáltill, það framtak að hafa lagt hana hér fram enn þá einu sinni. Ég efast satt að segja um að allir þm. geri sér ljóst hversu stórt mál þetta í rauninni er fyrir þá sveitabæi sem um er að ræða. Og ég held að það sé alveg fráleitt að menn, sem aldrei hafa átt heima í sveit, geri sér nokkra grein fyrir því, hvað hér er um að ræða.

Við skulum athuga eitt, að byggðaþróun hefur orðið þannig í sveitum, að fyrir svo sem tveimur áratugum og ekki lengra síðan, þá voru heimili yfirleitt fjölmenn. Bæði var þá margt um vinnufólk og kynslóðirnar bjuggu saman á heimilinu, þannig að heimilin voru með allt öðrum svip þá en nú er og þess vegna ekki eins mikil þörf á tilbreytingu og á heimilum í dag, þar sem kannske er um að ræða bara hjónin og börnin. Þess vegna eru heimilin með allt öðrum svip og því miklu meiri nauðsyn á tæki eins og sjónvarpinu sem raunverulega færir nýtt líf inn á sveitaheimilin og sérstaklega hin afskekktu, því að það eru einmitt þau sem hér er um að ræða í mörgum tilfellum, heimili sem ekki ná sjónvarpssendingum. Ég vil þess vegna taka undir þetta mál.

Ég vil taka það fram, að ég legg engan dóm á þá deilu sem hér hefur verið um það hvernig beri að fjármagna þetta. Það er fyrst og fremst vegna þess að ég er málinu ekki nógu kunnugur til þess að geta gert mér grein fyrir því í fljótu bragði og leiði því þá leið hjá mér. Það, sem auðvitað er stóra spurningin í þessu öllu saman, hvernig hægt er að fjármagna fyrirtækið. En ég hef alltaf skilið það svo, að Byggðasjóður væri á einn og annan hátt til þess stofnaður að stuðla að eðlilegri þróun í byggð landsins og að létta undir með þeim byggðarlögum sem erfiðast eiga á ýmsan hátt. Það hefur komið fram og kemur auðvitað alltaf fram þegar um fjármagn er að ræða, að þá er svarað ýmsum þarfamálum á þann veg að fjárhagsleg geta leyfi ekki að þetta sé gert. Þetta heyrum við víða og það er eðlilegur hlutur. Og manni dettur stundum í hug að þegar um er að ræða að framkvæma eitthvað, þá séu það stóru svæðin sem eigi að njóta fjármagnsins, en hinir geti svo verið út undan sem búa í hinum dreifðu byggðum landsins. Ég er ekki að segja að þetta sé ásetningur nokkurs manns, heldur verður þetta einhvern veginn svona í framkvæmd. Og það er kannske ekki óeðlilegt að þeir, sem ekki heyrist mikið í, úti um landsbyggðina gleymist meðan hinir, sem eru nær, láta til sín heyra og heimta kannske stærsta bitann af kökunni.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að blanda mér í deilur hv. þm. sem kalla sig dreifbýlisþm. og svo aftur þéttbýlisþm. Ég er of nýr í þessu hlutverki til þess að geta það með nokkrum rétti. En ég kom hér upp aðeins til þess að flytja stuðning minn við þetta mál sem ég tel mjög merkt og mjög þýðingarmikið að því verði ráðið til lykta á sem farsælastan hátt fyrir þá sveitabæi sem hér er um að ræða.