17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég held að það sé nú svolítið illa gert að vera að koma inn í þessa umr. hv. stjórnarsinna hér í Sþ. um þetta mál. Það er kannske að bera í bakkafullan lækinn einnig eftir þær umr., sem hér hafa orðið um þetta mál.

Varðandi þessi mál hefur nokkurt kapphlaup verið hér í þinginu um till. varðandi sjónvarpsdreifinguna milli þeirra framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, og skal ég síst amast við því þegar um góð mál er að ræða að þeir keppist við að flytja um það till., þó að okkur, sem erum núna í stjórnarandstöðu, finnist náttúrlega öllu nær að þeir beittu sínum miklu og ótvíræðu áhrifum, sem þeir hafa í stjórnaraðstöðunni, til að hrinda þessu máli í framkvæmd, koma því ekki bara í tillöguform hér, heldur láta ríkisstj. sína gera þetta. Það væri náttúrlega það allra æskilegasta. Ekki trúi ég því a.m.k. að hv. 12. þm. Reykv. sé svo voldugur maður innan þessa hóps að hann sé hér alger þröskuldur í vegi og komi í veg fyrir þessi góðu áform hinna, þó að ég heyri það að honum sé allilla við þetta mál.

Sannleikurinn er nú sá, að fyrst eftir tilkomu sjónvarps hjá okkur fór dreifing sjónvarpsins töluvert hratt um landið. Það var tekið allmyndarlega á þessu af Ríkisútvarpinu sjálfu. Nú hin síðustu ár hefur dofnað mjög hér yfir og nær ekkert gert. Ég stórefa það t.d. að síðustu tvö árin hafi nokkurt átak, sem teljandi er, verið gert í þessum dreifingarmálum. Ég hygg að það sé rétt, að það hafi nær ekkert verið gert. Og það stafar af því, eins og margoft hefur verið bent á af hálfu Ríkisútvarpsins, að það vantar tekjur til þess að standa undir þessum kostnaði. Það kann vel að vera að Ríkisútvarpið þyrfti að búa við betri fjárhag að ýmsu leyti, En ég held að það sé líka rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Páls Péturssonar, og það hef ég oft bent á, að það mætti einnig huga að ýmsum sparnaði. Það er auðvitað alltaf spurning varðandi tekjur stofnunar eins og Ríkisútvarpsins hvernig á að verja þeim. Á að verja þeim eingöngu í dagskrána, eins og hefur verið gert síðustu tvö árin, eða á að láta þótt ekki nema væri 10%, eins og hér hefur verið talað um, af þessum tekjum renna beint til dreifikerfisins og til þess að efla og bæta sjónvarpsskilyrði þar sem þau eru ónóg eða nær engin? Ég held sem sagt, að það ætti að skylda Ríkisútvarpið til þess að verja ákveðinni prósentuupphæð af tekjum sínum til þess að sjá um þetta verkefni. Það væri engin ofraun. Það mætti þá gjarnan huga að einhverjum sparnaði innan þessarar stofnunar um leið, og það mætti þá gjarnan innan þeirra veggja láta niður falla draumana um litsjónvarpið sem nú virðist æðsti draumurinn í þeim herbúðum og svo áberandi að e.t.v. falla svona vesæl verkefni eins og sjónvarp á sveitabæi og bætt sjónvarpsskilyrði í þeim landsfjórðungum, þar sem þau eru verst, þau falla væntanlega þar í skuggann. Mér skilst það og það er áreiðanlega rétt að þetta sé æðsti draumur þeirra í dag, og ég spái því að þegar þar að kemur verði fjárhagur Ríkisútvarpsins miklu betri talinn af forráðamönnum þess, þegar þeir fara að ráðast í þá framkvæmd, þá muni ekki vera mikið til fyrirstöðu eftir að þeir hafa fengið leyfi stjórnvalda til þess að ráðast í þá framkvæmd.

Ég er samþykkur þessari till. varðandi þá meginhugsun sem í henni felst, að hér megi einskis láta ófreistað til þess að koma sjónvarpi til þeirra sem ekki njóta þess í dag. Einangrun þessa fólks er alveg nægileg þó að hún væri rofin af þessum fjölmiðli sem þó er um margt menningartæki, þótt margt mætti þar betur fara.

Spurningin er auðvitað um það, hver eigi hér að greiða, og vitanlega er það Ríkisútvarpið sjálft sem þar á til að koma alveg sérstaklega. Það hefur gert þetta, það á að sinna þessu verkefni áfram, það á að verja til þess ákveðnum hluta af sínum tekjum að sjá um þetta skylduverkefni sitt, — skylduverkefni sitt sem opinberri stofnun ber að rækja.

Það kann vel að vera að það þyrfti eitthvert viðbótarfjármagn og þá væri sjóður eins og Byggðasjóður ekki óeðlilegasti aðilinn. Hann hefur sinnt ýmsum verkefnum sem eru hliðstæð þessum, og það mætti vel hugsa sér hann sem viðbótaaðila. En fyrst og fremst þarf Ríkisútvarpið að annast þetta sjálft og verja til þess ákveðnum hluta af sínum tekjum. Það var að vísu, að mig minnir, till. um þetta flutt við fjárlagaafgreiðsluna hér af hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, um það að ákveðnum hluta af tekjum Ríkisútvarpsins yrði varið í þessu skyni. Sú till. var vitanlega felld, m.a. auðvitað með atkv. flm. að þessari till. án efa, allra þeirra eða flestra, eins og þeirra stjórnarsinna í heild. Var þó ekki hér um neina viðbót á fjárl. að ræða, heldur aðeins spurning um ráðstöfun á vissum tekjupósti fjárlaga.

Ég hef áður rætt í Ed. um það frv. sem þar er til meðferðar nú um viðaukagjald og ég get svarað því frv. á sama hátt og ég hef gert hér, að Ríkisútvarpið eigi að verja ákveðnum hluta af heildartekjum sínum til þessa verkefnis. Mér finnst nefnilega hlálegt að leggja hér á viðbótargjald til þess að láta þá greiða sem búa við óhæf sjónvarpsskilyrði, Ég held að þeim, sem sjá sjónvarp ekki nema svona bærilega annan hvern dag, eins og t.d. hjá akkur eystra í fyrravetur, og varla það, þeim muni þykja býsna kyndugt að eiga nú að fara að greiða viðaukagjald ofan á þetta sjónvarpsgjald sitt til þess að mega halda áfram að horfa á þokuna og snjóinn. Fyrsta skilyrðið er að Ríkisútvarpið sinni þessu sjálft af eigin tekjum, en sé ekki verið að bæta við það tekjum, sem auk þess ertu í frv. tæpast nógu skýrt afmarkaðar til þessa verkefnis, þ.e.a.s. það mun vera orðað svo. Ég er ekki með frv. hérna hjá mér, en það mun vera orðað á einhvern hátt þannig, að þetta viðaukagjald eitt skuli notað í þessu skyni, en þegar kemur að framhaldinu, þá er sagt: að viðbættu fjármagni sem veitt er til slíkra framkvæmda af öðrum teljum Ríkisútvarpsins og á fjárl. Það er sem sagt ekkert ákveðið um það, að af núverandi tekjum Ríkisútvarpsins þurfi að verja nokkru til þessa verkefnis, þar eigi þetta, viðaukagjald alveg að nægja. En það er rétt að fara ekki nánar út í það hér, því að ég sé að það er enginn flm. hér inni af þessum þrem mönnum sem fluttu þetta frv. Ég hef lýst yfir andstöðu minni við það að því leyti til, að ég vildi hafa annan hátt á sem ég hef áður lýst, en verkefnið er jafnmikilvægt fyrir því.

Meginhugsunina að baki þessari till. og öðrum till., sem fram hafa komið, get ég stutt. En ég tel, eins og ég hef áður sagt, eðlilegast að Ríkisútvarpíð sjálft sjái um þetta og það væri skyldað blátt áfram til þess að verja ákveðnum hluta af tekjum sínum til þess að sinna þessu brýna verkefni, og mér heyrðist áðan að við hv. þm, Páll Pétursson værum býsna sammála um þetta atriði.