28.10.1975
Sameinað þing: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1976

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Nokkur eftirvænting og jafnvel áhugi mun jafnan ríkja meðal almennings þegar stjórnarskipti eiga sér stað. Fólkið bíður spennt eftir stefnuyfirlýsingu frá forsrh. og einnig munu margir bíða spenntir eftir fjárlagafrv. frá nýrri ríkisstj. er sýnir með því hvernig hún hyggst leysa aðsteðjandi vanda, einkum í efnahagsmálum.

Vissulega átti þetta við á s. l. ári um fyrsta fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., sér í lagi þar sem hann ásamt öðrum flokksbróður, sem nú er sjávarútvegs-, heilbr.- og trmrh., lögðu fram till. um verulega breytingu á gildandi skattalögum snemma á árinu 1974. Hefði það frv. náð fram að ganga mátti vænta þess að áhrif þess hefðu verið um 4.6 milljarðar í lækkunum skatta og þá auðvitað um hliðstæða lækkun ríkisútgjalda. Þetta var í tíð vinstri stjórnar. Ætla má að jafngildi till. þeirra flokksbræðra í dag mundi ekki vera fjarri 10 milljörðum til lækkunar. Þetta voru því einkar athyglisverðar till. á sínum tíma og var ekki svo lítið handbærar í fylgjandi kosningabaráttu með tilheyrandi árangri. Sett var fram ný kenning um hvernig ríkisútgjöld skyldu mótuð. Þeir sögðu að óhjákvæmilegt væri að setja þak á fjárlögin hverju sinni og raða síðan útgjöldum, sennilega þá í forgangsröð, upp undir þakskeggið og halda sér fast í það. Mörg hvöss orðin voru látin falla í garð fyrrv. fjmrh., Halldórs E. Sigurðssonar, í umr. og túlkun um þessa till.

Nú liðu fram tímar og tillögumaður og aðalmótandi í skattkerfisfræðum íhaldsins gafst kostur á að sýna till. sínar og hugmyndafræði í raun. Hann varð hæstráðandi um fjármál ríkisins. En hvað skeður? Fyrsta frv. frá hans hendi sýnir meiri þenslu en dæmi eru til um nokkru sinni áður, og áður en til samþ. kom hafði hækkun orðið veruleg í meðferð Alþ. Skyndilega er þakkenningin rokin út í veður og vind með tilheyrandi afleiðingum fyrir allan almenning og verðbólguvöxturinn í mettölu frá því er hæstv. ráðh. settist í stólinn.

Í aths. á bls. 149 í fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár segir orðrétt: „Fjármál ríkisins eru samofin efnahagsmálum þjóðarinnar og hin almenna hagþróun endurspeglast einatt í þeim áætlunum um ríkisbúskapinn sem settar eru fram í fjárlagafrv. Það frv., sem hér liggur fyrir, er engin undantekning þeirrar reglu.“

Síðar segir í sömu athugasemdum: „Fjárlagafrv. ber það með sér engu að síður að komið er í veg fyrir frekari útþenslu ríkisbúskaparins og dregið er úr ríkisframkvæmdum.“

Einnig er kvartað yfir því að vart hafi gefist tóm til þess að móta heilsteypta stefnu á svo skömmum tíma er núv. ríkisstj. hafði þá setið.

Nú sjáum við aftur nýtt frv. og ekki er kvartað í þetta sinn um tímaskort. Því eru rök fyrir þeirri kröfu almennings í landinu að ákveðin og glögg stefna kæmi fram með þessu frv. En er það svo? Að mati okkar í Alþfl. er það alls ekki. Hvað veldur? Jú, frv. er byggt á þeirri forsendu að fjöldi lagafrv. komi fram í tæka tíð og þau nái lagagildi fyrir n. k. áramót. Meðan engu af þessum frv, hefur verið einu sinni útbýtt er ekki með nokkrum rökum unnt að halda því fram að frv. sýni fastmótaða stefnu — og þó. Hvað má lesa út úr því? Óskýra mynd af stjórnarstefnu. Útlínur að viðleitni íhaldsstjórnar til þess að þjarma að þeim, sem minna mega sín, og draga saman seglin á sameiginlegri fjárhagslegri þjónustu sem þeir þurfa mest á að halda er verst eru settir í þjóðfélaginu. Eftir þessu tekur allur almenningur í landinu. Frv. er m. ö. o. dæmigert um það ráðaleysi er ríkt hefur í stjórn efnahagsmála okkar um langan tíma. Það er bókstaflega byggt á því er enginn veit á þessari stundu hvernig verður mótað í margvíslegum frv. er snerta að meira eða minna leyti alla þegna þjóðarinnar og þó mest, eins og ég sagði áðan, þá er minnst hafa til hnífs og skeiðar. Þetta er íhaldsstefna í raun. Þetta er ekki, að ég ætla, boðlegt neinum þeim hv. þm. er vill telja sig hafa einhvern áhuga á að jákvæð þróun í samfélagi okkar haldi áfram, eins og verið hefur sem betur fer um langan tíma undanfarið. Nú á með einu pennastriki að færa margt aftur um mörg ár. Ætla félagshyggjumenn hér á hv. Alþ., að sætta sig við slík vinnubrögð?

Margoft hefur nefndafarganið verið gagnrýnt hér og utan dyra. Svo er að sjá sem það hafi verið einkar geðfellt hjá núv. ráðh. að láta n. starfa. Hjá hæstv. fjmrh. hafa n. kviknað sem rósir á sumardegi, en sem rétt er um rósir er lítið um ávextina. Með pomp og pragt var sagt frá skipun n. á sínum tíma og skyldi þar taka til bæna allt skattakerfið í landinu, og menn áttu von á gagngerðum till., því að öllum ber saman um að gildandi skattalög eru ekki viðhlítandi En ekkert kemur enn fram, ekki a. m. k. hér á Alþ. Ég margmótmælti ýmsum breytingum á s. l. vetri í skattalöggjöfinni og sagði að það væri lítt til sóma fyrir Alþ. samþ. þær. Þetta hefur nú í reynd sannast og verið mótmælt um allt land af óbreyttum borgurum landsins. Það er meira en lítið bogið við þá ríkisstj., er ekki tekur mark á slíkum aðvörunum og kemur með raunhæfa leiðréttingu á röngum og mjög ósanngjörnum skattalögum.

Í aths. við fjárlagafrv. fyrir árið 1976 segir á bls. 157, í upphafi máls, og hæstv. ráðh. vitnaði í þessi orð áðan: „Brýnustu viðfangsefnin á sviði efnahagsmála um þessar mundir eru að hamla gegn verðbólgu og draga úr hallanum í greiðsluviðskiptum við erlendar þjóðir. Forsenda árangurs í þessu efni er að ríkisbúskapurinn stuðli að almennu jafnvægi í þjóðarbúskapnum.“

Þetta munu vera sannmæli út af fyrir sig. En hvernig er í reynd farið eftir þessu af hálfu hæstv. fjmrh. og ríkisstj.? Rétt er að líta nokkuð á það.

Samkv. eigin umsögn með frv. í fyrra var áætlað að skuld ríkissjóðs mundi verða um einn milljarður um s. l. áramót, þ. e. 1974–1975. En hver varð raunin á? Skuldin varð um 4 milljarðar. Sýndi það aðhald? Nei. Hvar var forsendan um jafnvægi þá? Höfðu menn ekki komið auga á hvað væri nauðsynlegt til jafnvægis og hömlunar gegn óðaverðbólgunni, eða tók hæstv. fjmrh. ekki eftir hverju hæstv. forsrh. lofaði í stefnuræðu sinni í fyrra varðandi verðbólguna og þróun mála hér heima, eða voru ráðh. svo fjarri hver öðrum í margvíslegum erindum erlendis sem innanlands að ekki gæfist svigrúm til yfirvegunar á vandanum og ráð við? Hvað sem því líður virðist það út af fyrir sig jákvætt að þeir skuli nú hafa komið auga á forsendu fyrir að jafnvægi verði komið á.

En hver er þá þróunin á yfirstandandi ári? Er jafnvægisforsendunni fyrir að fara í þróun ríkisbúskaparins nú. Eftir því sem ég best veit um stöðu ríkissjóðs og ríkisstofnana gagnvart Seðlabankanum um þessar mundir er staðan u. þ. b. 8–9 milljarðar í skuld, — ég verð þá leiðréttur ef þetta hefur breyst nýlega, — og gjaldeyrisstaðan nærri 4 milljarðar í mínus. Hvað segir þetta okkur? Bendir þetta til þess að í raun sé nokkur minnsta viðleitni til þess að hamla gegn mestu verðbólgu, er hér hefur nokkru sinni ríkt. Ég tel að svo sé ekki. Stjórnun á efnahagsmálum er í raun harla lítil eða engin. Það liggur í augum uppi, að þrátt fyrir að nú séu sett fram góð áform um breytta stefnu hefur ekkert enn komið hér fram á Alþ., er mark takandi sé á, að skipulega og markvisst verði ráðist að verðþenslunni hér innanlands. Miklu fremur hefur Seðlabankinn tekið fram fyrir hendur hæstv. ríkisstj. til hömlunar á verðþenslunni, eins og hæstv. ráðh. drap á nokkuð áðan, með ákveðnum reglum um aukningu útlána. Á meðan svo er starfað, að ríkissjóður yfirdregur miskunnarlaust hjá Seðlabankanum og eykur með því peningaveltuna í þjóðfélaginu verður varla um árangur að ræða í baráttunni við verðbólguna.

Þótt talsverður hluti verðþenslunnar hér á landi sé erlendis frá er samt sem áður miklu meiri sá þátturinn er við sköpum sjálf og þar skipar heiðurssætið sjálfur fjmrh. Hæstv. fjmrh. hefur þó eina afsökun sér til málsbóta í árangursleysinu við verðbólgudrauginn. Hún er sú að hann hefur ekki yfirráð á stórum fjárfestingarsjóðum. Til er stofnun í landinu og þeim íhaldsmönnum hjartfólgnari en orð fá lýst og þeir vilja vera láta. Frá þessari stofnun rennur drjúgur skildingur sem að uppruna kemur frá ríkissjóði og gerir stöðu sjóðsins erfiðari. Einnig er skipulagsleysi ríkjandi með heildarlánakerfið, og margar stórvirkjanir eru í gangi í senn. Áhrifin frá þessu öllu verkar til örvunar í verðbólguátt og árangurinn er glæsilegt Evrópumet í verðbólgu tvö s. l. ár eða samtals um 204%. Þessi þróun mála knýr svo almenning í landinu til þess að eyða sem mestu og eftirspurn eftir erlendum varningi er um of. Og þrátt fyrir minni tekjur af útflutningi landsmanna má ekki hemla á móti innflutningi með skipulegum ráðum. Því er nú svo komið, þrátt fyrir miklar erlendar lántökur, að gjaldeyrissjóðurinn er enginn og vel það, eins og ég sagði áður. Þetta kalla ég hreint stjórnleysi. Krafa annars stjórnarflokksins er skýlaus og svo hörð sem verða má, sem sagt 100% frelsi til þess að kaupa hvað sem hugurinn girnist erlendis frá, þótt ekki sé til króna í kassanum, og allt verður að fást með lánskjörum. Svona getur enginn ábyrgur einstaklingur hegðað sér að mínu mati. En getur þá ríkisstj., er vill láta taka stefnu sína alvarlega, kallast ábyrg og stjórnsöm? Nei. Hverjum manni, háum sem lágum, mun hollast að horfast í augu við staðreyndir og hegða sér samkv. því.

Núv. hæstv. forsrh. gagnrýndi á sínum tíma harðlega þá þróun hjá vinstri stjórninni að 13% greiðslubyrði væri um of fyrir þjóðina að þola vegna afborgana og vaxta af erlendum lánum. En hvernig er þetta nú í dag? Það er einkar athyglisvert að þessi byrði nálgast nú 19% og stefnir innan skamms, eftir 1 eða 2 ár, að 20% byrði. Sem sagt, fimmta hver króna rennur í afborganir erlendra lána og vaxta. Mér er næst skapi að spyrja: Er þetta hægt, Matthías?

Tekjuáætlun fyrir ríkissjóð er að venju byggð á áætlun sem gerð er í Þjóðhagsstofnuninni. Þetta á auðvitað við um almenna efnahagsþróun og hvað hún gildir fyrir þjóðarbúskapinn. En eins og allt útlit er nú er vart við öðru að búast en lítið svigrúm sé til áætlana um mikla tekjuaukningu. Gerir frv. ráð fyrir 20.5% hækkun frá gildandi fjárlögum, en nokkru minni hækkun frá rauntekjum ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár. Alls eru tekjur áætlaðar 57.4 milljarðar.

Gert er ráð fyrir að tekjur til skatts muni hækka á milli áranna um 27% að meðtalinni 11/2—2% fjölgun framteljenda. Með hliðsjón af þessu er frv. byggt á því að skattvísitalan hækki aðeins um 25 stig. Þetta tel ég mjög varlega áætlað. Þegar haft er í huga það ástand er nú ríkir hér bæði varðandi verðbólguna og deilur um kjaramál, og verði haldið fast við að skattvísitalan hækki ekki meir mun það óhjákvæmilega koma fram sem veruleg aukning almennrar skattheimtu á alla launþega í landinu. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir því að skattur á fyrirtækjum muni lækka talsvert, en þó er tekið fram að afar erfitt sé nú að áætla þennan skatt. Knýjandi nauðsyn er á því að koma við breytingu á skattlagningu fyrirtækja og breyta afskriftareglum. Verðbólgan gerir slíkt strik í þessu máli að ekki má lengur við svo búið standa. Verðmætaaukning hjá einstaklingum og einstaka fyrirtækjum vegna opinberra framkvæmda er oft geysimikil, en skatttekjur til ríkisins eru sáralitlar eða engar vegna þessarar starfsemi. Þetta gildir þó einkum um land og fasteignir.

Frv. gerir ráð fyrir að 2% sölugjaldið, er runnið hefur í Viðlagasjóð, verði nú fastur tekjustofn hjá ríkissjóði. Þessu spáðum við í Alþfl. á sínum tíma og gagnrýndum þess vegna aukningu á þessu álagi, en einkum vegna þess að ekki lá neitt fyrir um hvernig framvinda skattamála í landinu yrði. Söluskattsstigin eru þá með lögfestingu á þessu orðin 20. Til þess að sefa einhverja aðila er því lofað að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga muni framvegis fá sín 8% reiknuð af 20 stigum gjaldstofns, en ekki af 13 stigum eins og lengi hefur verið. Þetta mun gefa sjóðnum nokkur hundruð millj. kr. Samt sem áður er tekið fram að enn liggi ekki fyrir niðurstöður endurskoðunar um þessi mál og því sé frv. sjálft eðlilega byggt á óbreyttum hluta til sveitarfélaganna. Sem sagt „meningen er god nok “

Frv. boðar einnig að sveitarfélögunum skuli tryggðar auknar tekjur, en á móti taka þau á sig verulega aukin umsvif frá ríkinu. Umræddur tekjuauki kann að reynast um 800 millj. kr. Hins vegar liggur ekki skipuleg athugun fyrir með hvaða hætti sveitarfélögin geta eða vilja taka þetta á sig né því síður nokkuð um kostnaðarskiptingu á verkefnum. Hér er þó um mjög viðkvæmt og þýðingarmikið mál að ræða. Einnig eru aðstæður víðast hvar á landinu afar ólíkar bæði innan kjördæma og landshluta. Hverjir eru t. d. sameiginlegir hagsmunir Kópavogs og Sandgerðis eða í Höfnunum og Hafnarfirði? Þetta er allt innan kjördæmis hæstv. fjmrh. Gæti það ekki tekið nokkurn tíma að samræma sjónarmiðin og gæta réttlætis í deilingu tekna og kvaða á milli ríkis og sveitarfélaga? Það er ekki nóg að formæla Reykjavíkurvaldinu, það er ekki nóg að boða mörg frv. og þau eigi að taka gildi um n. k. áramót, eða telur hæstv. ríkisstj. meiri hl. sinn svo sauðtryggan að fleygja megi fjölda frv. um afar viðkvæm mál inn á Alþ. rétt fyrir jólafrí og þau renni í gegn, eins og oft hefur tíðkast undanfarin ár? Slík vinnubrögð eru óþolandi og ekki sæmandi neinum.

Ég undirstrika það, að réttmætt getur verið að sveitarstjórnir taki við meiri umsvifum og þeim sé um leið tryggt meira fjármagn, en þá þarf áður að vera til vel undirbúin athugun á málinu.

Já, svo er það blessaður dropinn sem hæstv. ráðh. minntist á hér áðan. Gildi hans vex með hverju ári og nú skal Áfengisverslunin gefa um 6 milljarða í hreinar tekjur eða sem næst jafngildi 15 mjög vel útbúinna stórra skuttogara. Ekki má minna gagn gera. Svo er nú komið högum ríkissjóðs að um 10% tekna hans koma frá víneinkasölunni. Þetta harma ég persónulega. Hér er sýnd veiði en ekki gefin í öllum tilfellum. Það er ekki stund til þess nú að fjalla meir um vandamál tengd vínnautn í landinu, en sannarlega stefnir þar í enn meiri ógöngur en nokkru sinni áður. Fjárlagafrv. bendir ekki á neina lausn, því miður.

Í frv. eru taldir upp ýmsir aðrir tekjuliðir, en það getur hver lesið sér til um og þarf ég ekki að fjalla meira um tekjuhliðina.

Í kaflanum um lánahreyfingar út kemur fram að hækkun til vegaframkvæmda fer úr 900 millj. kr. í 1050 millj. kr. eða nettó um 150 millj. kr. Hins vegar er nokkur samdráttur hjá landshöfnum eða mínus 40 millj. kr. Þetta kemur fram gagnvart Þorlákshöfn. Til Njarðvíkurhafnar er gert ráð fyrir 50 millj. kr. lántöku. Þetta er ekki nægilegt, eins og hæstv. fjmrh. veit manna best um, og verður að tryggja hærra lán ella stöðvast framkvæmdir þar við mjög óheppilegar aðstæður. Ég vil vænta þess að þetta verði sérstaklega vel athugað. Gert er ráð fyrir að taka lán fyrir framlagi ríkisins í járnblendiverksmiðjuna, allt að 285 millj. kr. Skýrt er tekið fram í frv. að hér sé þó einungis um hluta af nauðsynlegu fjármagni að ræða og þurfi síðar að gera nána grein fyrir fjármögnun ríkissjóðs til verksmiðjunnar: enn eitt dæmið um að á niðurstöðum frv. er vart mark takandi.

Í kaflanum um orkumál segir orðrétt, „að í áætlunum sínum stefni aðilar að miklu meiri framkvæmdum en hugsanlegt er að afla fjár til, og með tilliti til þess og ónógs rökstuðnings fyrir fjárbeiðnum hefur verið horfið að því ráði að sundurliða ekki í frv. það 5 000 millj. kr. lánsfjármagn sem á þessu stigi er áætlað að gengið geti til orkumála á árinu 1976.“ Já, 5 000 millj., takk. Sæmilegur ostbiti það! Skyldi nokkur kommissar hafa áhuga á bita eða vökuli þm. með byggðastefnu í bak og fyrir? Við skulum doka við og sjá hvað setur.

Í kaflanum um lánahreyfingar inn kemur í ljós að útgáfa spariskírteina er orðin lífsnauðsynlegt haldreipi fyrir ríkissjóð. Gert er ráð fyrir sölu slíkra bréfa fyrir 1400 millj. kr. Erlend lántaka er áætluð á 3 580 millj. kr. Nettóaukning á lántökum er áætluð 1725 millj. kr. Samkvæmt þessum lið verður meginhækkun lánsfjár í formi aukinna lántaka erlendis frá. Samt sem áður vantar mikið hér til viðbótar til þess að gefa skýra mynd af fyrirhuguðum erlendum lántökum vegna stórframkvæmda á árinu 1976.

Á bls. 179 segir að stefnan sé að koma með fullbúna áætlun fyrir lok októbermánaðar. Það er nú skammt til mánaðamóta og því stutt að bíða — eða kann svo að fara að þessi stefna eins og fleiri renni beint út í sandinn?

Eins og ég hef þegar getið um er ekki unnt að taka þetta fjárlagafrv. mjög alvarlega þar sem það byggist á mjög mörgum frv. er enn hafa ekki verið lögð fram og munu jafnvel ekki sum a. m. k. vera mótuð enn og því síður rædd hjá stjórnarandstöðuflokkunum. Ég dreg persónulega í efa að öll frv. gangi fram eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þess vegna mun ég ekki lengi fjalla um útgjaldahliðina þar sem forsendur fyrir henni eru afar óljósar. Þó vil ég drepa á fáein atriði sem miklu varða um niðurstöðu frv.

Fyrst vil ég mótmæla ákveðið fyrirhugaðri skerðingu á slysa- og lífeyristryggingum um allt að 2 000 millj. kr. Við í Alþfl. erum síður en svo mótfallnir víðtækri endurskoðun á almannatryggingakerfinu. En það nálgast hótfyndni að mínu mati að koma fram með lækkun um 2000 millj. á þessum liðum löngu áður en tillögur um breytt fyrirkomulag sjá dagsins ljós. Ég læt segja mér það oftar en tvisvar að meiri hluti sé fyrir þessari kjarnskerðingu hér á Alþ. nú. Það fólk, er nýtur þessara bóta, er svo illa sett, að með engu móti er verjandi að rýra kjör þess, þótt þröngt sé í búi nú hjá ríkissjóði. og það löngu áður en lagfæring á skattkerfinu í heild nær fram að ganga. Ég treysti því að svo margir félagshyggjumenn séu hér innan veggja enn þá að þetta áhlaup á lífskjör þessa fólks verði stöðvað í fæðingu.

Á bls. 192 neðst segir orðrétt, með leyfi forsela: „Framlag til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva miðast við það að ekki verði teknar á fjárlög fjárveitingar til nýrra framkvæmda á árinu 1976.“ Já, svo mörg eru þau orð. Skyldi hæstv. heilbr.- og trmrh. vera ánægður? Mikið hefur hann þá róast, síðan hann tók við þessum málum, á þeim tíma sem liðinn er frá því hann átti sæti í fjvn. og var í stjórnarandstöðu við vinstri stjórn í landinu. Ég ætla að bíða og sjá hvað kemur í ljós varðandi sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og læknabústaði.

Í ræðu sinni fyrir fjárlagafrv. í fyrra sagði hæstv. fjmrh. að frv. um lánasjóð námsmanna mundi verða lagt fram og afgr. sem lög í tæka tíð. En hann gleymdi því sennilega óvart áðan að minnast á það. Enn er ekki komið neitt fram er veiti mönnum úrlausn í þessu efni og ekki veit ég til þess að frv. sé tilbúið. Hér er þó um afar mikið mál að ræða, og með fullri sanngirni má segja að nær 1000 millj. vanti á til þess að standa við marggefin loforð til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ef íhaldið hefði ekki heykst á því að standa að raunhæfum breytingum á lánakjörum sjóðsins væri málefnum hans nú miklum mun betur komið.

Undir formennsku Ragnars Arnalds, hv. þm. menntmn. Ed. vorum við, sem þar áttum sæti, búnir að vinna að mótun á tillögum sem þeir stjórnmálaflokkar vildu koma í gegn og voru jákvæðar, og höfðum við haft samráð við fulltrúa stúdenta og fulltrúa úr Lánasjóði. En þegar til átti að taka hafnaði Þorv. Garðar Kristjánsson hugmyndunum og stjórnmálaástand í landinu var með þeim hætti þá að ekki var talið unnt að koma þessum hugmyndum áleiðis.

Enn hefur ekkert skeð og allt er nú fyrr en ella komið í hnút með þessi mál. Hin öra verðbólga tvö s. l. ár hefur sannarlega hnýtt rembihnút á mál Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Nú verður ekki með nokkru móti lengur undan því ekist að koma með raunhæfa löggjöf um sjóðinn og hvernig námsmenn endurgreiði fengin lán. Fjárlög verða að tryggja lausn við ríkjandi aðstæður, ella mun fjöldi námsmanna neyðast til þess að hverfa frá námi síðla vetrar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ef þetta tekst ekki eru stigin mörg spor aftur á bak.

Í fyrirspurn um dagvistunarheimili frá Benedikt Gröndal í s. l. viku kom fram hjá hæstv. menntmrh. að þar er mikið vandamál óleyst. Ég fæ ekki séð hvernig áætlað fjármagn til þessara mála fær staðist. Hækkun verður blátt áfram að eiga sér stað.

Augljóst er að mikil vanáætlun er hjá dóms-og kirkjumrn. hvað varðar útgjöld vegna aukinna umsvifa hjá landhelgisgæslunni. Ekki er gott að segja enn til um hvað sá liður þarf að hækka mikið en þar getur komið til verulegra upphæða. Sama má segja um málefni hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Ég ætla ekki að fjalla meira um einstaka liði. Það hefur verið rakið hér að framan af fyrri ræðumanni úr stjórnarandstöðunni. Ég vil enn taka það fram að augljóst er að frv. hlýtur að taka miklum breytingum í meðförum Alþ., annað er óhjákvæmilegt. Útgjaldaliðir eru óraunhæft metnir niður á við, og svo er forsenda fyrir launaútreikningi á öllum launaliðum brostin og kann að skakka verulegum upphæðum. Allt þetta gerir það að verkum að umr. nú við 1. umr. geta verið með styttra lagi. Ég læt því máli mínu lokið, herra forseti. Það er ekki annað að gera en að sjá hverju fram vindur með boðuð frv. og afstöðu manna til kjaraskerðingar á hendur þeim veikburða. Síðla á því herrans ári 1975, á ári aukinna kvenréttinda um allan heim, á ári vaxandi jafnréttis viða um heim, er boðuð skerðing almennra mannréttinda hér á landi af úrræðalausri íhaldsstjórn.