18.02.1976
Neðri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) [frh.]:

Hæstvirtur forseti. Ég átti eftir að taka nokkur atriði til athugunar vegna ræðuflutnings hv. 2. þm. Austurl. og hv. 3. þm. Reykv. um þetta mál þegar hlé var gert á fundi hér í fyrradag.

Það var ágætt að hv. 3. þm. Norðurl. v. fékk að tala á undan mér. Það var sannarlega upplífgandi að hlusta á hann og heyra hans dóm um álverksmiðjuna, rekstur hennar og hvernig hefur þróast í þjóðlífinu síðan verksmiðjan byrjaði rekstur. Það er enginn vafi á því að hv. 3. þm. Norðurl. v. slær út hv. 2. þm. Austurl. og hv. 3. þm. Reykv. þegar um þetta mál er rætt. Ég held nú satt að segja að hv. 2. þm. Austurl. hafi orðið svolítið afbrýðisamur þegar hann hlustaði á ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. En hvað sem því líður þá geri ég ráð fyrir að hv. 2. þm. Austurl. standi það af sér og hugsi sér að bæta þá úr því næst þegar hann tekur til máls.

Ég hafði rætt nokkuð um þann hag sem íslendingar hafa haft af álverksmiðjunni og einnig hvernig viðhorfið verður ef þær till., sem hér liggja frammi, verða samþykktar. Ég býst við því, að allir hv. þm. séu sammála um að till. færi íslendingum auknar tekjur bæði í orkusölu og einnig í skattheimtu. Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði reyndar áðan að skattarnir lækkuðu við þessa breytingu. En það er nú eftir því hvernig á það er lítið. Það má fullyrða að skattarnir eru miklu öruggari nú en eftir gamla fyrirkomulaginu, því að nú er kveðið svo á að það skuli vera lágmarksskattur af hverju tonni, 20 dollarar, hvernig sem reksturinn gengur. Það skal borga þetta framleiðslugjald hvernig sem reksturinn gengur, þótt tap sé á rekstrinum. En sá galli var á fyrri samningi, þótt hann hafi verið að mörgu leyti góður, að þegar tap var á rekstrinum myndaðist skattinneign samkv. þeim ákvæðum sem ekki var hægt að komast hjá.

Hv. 2. þm. Austurl. spurði að því um daginn hvernig skattinneignin ætti að greiðast? Hann taldi að samninganefndin hefði staðið sig illa, að það skyldi ekki vera bara strikað út, það sem kallað var skattinneign. Það var náttúrlega ekki hægt, vegna þess að svo er kveðið á í samningnum að skattinneignin myndist þegar illa gengur og of mikið hefur verið borgað árið áður, en skattinneignin greiðist með 5.6% vöxtum, eins og tekið er fram í grg. með frv., og það verður ekki farið að greiða af þessari skattinneign fyrr en framleiðslugjaldið kemur yfir 20 dollara á tonn. Þar sem skattgjaldið fylgir álverðinu, þá er öruggt talið að skatturinn fari yfir þetta mark, því að með þeim tilkostnaði, sem nú er á álframleiðslu, er talið öruggt að ekki sé nokkur leið að framleiða ál með því álverði sem nú er skráð á heimsmarkaði, álverðið verði því að hækka ef framleiðsla á þessum dýra málmi eigi að halda áfram.

Og hvernig á að greiða skuld Hafnarfjarðarbæjar, Iðnlánasjóðs og Byggðasjóðs? spyr hv. þm. Þetta greiðist af óskiptu, sem er umfram 20 dollara.

Þetta er ekki flókið dæmi, og ég er víss um að hv. 2. þm. Austurl. skilur þetta og þarf ekki að biðja um frekari skýringar.

Hv. þm. talaði talsvert um orkuverðið og sagði að það væri óhæfilega lágt, næstum því til skammar. Getur það verið að hann hafi sömu skoðun og hv. 3. þm. Norðurl. v. sem sagði áðan að álverksmiðjan fengi 50% af orkunni, sem seld er í landinu, fyrir aðeins 10% af því sem inn kemur fyrir orkusöluna? Ef menn trúa því að dæmið sé svona, að þetta sé staðreynd, þá er eðlilegt að mönnum finnist orkuverðið lágt, óhæfilega lágt. En þetta er bara ekki svona, og skal ég koma að því áður en langt líður.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði að orkuverðið samkvæmt eldri samningi væri þó miklu skárra en það sem samið hefði verið um til aukningar álverinu, þessi 20 mw. sem er ætlað að selja nú til viðbótar. Og eftir að hann var búinn að ræða eldri samninginn og eldra orkuverðið, þá komst hann að þeirri niðurstöðu að líklega hefði orkuverðið í upphafi verið sem næst kostnaðarverði. Þetta byggir hann vitanlega á því, að það voru sérfræðingar til aðstoðar við þessa samninga og reiknuðu út kostnaðarverð frá virkjuninni við Búrfell og gáfu ráðleggingar um það, hvað hægt væri að selja orkuna fyrir til álversins til þess að það yrði ekkí undir kostnaðarverði. Það var misskilningur hjá hv. þm. þegar hann talaði um að það hefði ekki verið reiknað með miðlunarmannvirkjum í Þórisvatn. Það var gert. En nokkrum hluta af þeim kostnaði var deilt á Sigölduvirkjun sem nýtur þessara framkvæmda og einnig fyrirhuguð Hrauneyjarfossvirkjun og aðrar virkjanir í Þjórsá sem kynnu að koma fyrir neðan Þórisvatn. En mér finnst það virðingarvert hjá hv. þm. þegar hann eftir vangaveltur kemst að þeirri niðurstöðu að orkuverðið, eins og samið var um frá virkjuninni við Búrfell, hafi verið sem næst kostnaðarverði. Og hann furðaði sig ekkert á því að við, sem hefðum talað um þessi mál, bæði ég og hv. 6. þm. Reykv., hefðum getað sannað að þetta var ekki undir kostnaðarverði, heldur ríflega kostnaðarverð.

Það er rétt, aðeins til upprifjunar, að minna á það að kostnaðarverð á kwst. frá virkjuninni við Búrfell var 20 aurar, en það var samið um 26 aura greiðslu til 1. okt. 1975 og 22 aura eftir það, eða 2.5 mill, og það vita vitanlega allir hv. þm. að 1 mill er einn þúsundasti úr dollar og aurafjöldinn breytist eftir því hvernig gengi dollars er. Enn er rétt að rifja það upp að til 1. okt. var framleiðslugjaldið aðeins 12.5 dollarar á tonn, en eftir 1. okt. átti það að verða 20 dollarar á tonn, en þó með þessum fyrirvara um rekstrarútkomu og skattinneign sem gæti myndast.

Orkuverðið samkvæmt þeim till., sem nú liggja fyrir, er, eins og menn hafa vitanlega veitt athygli, að frá 1. okt. 1975 samkvæmt þeim till. sem fyrir liggja, verður það 3 mill til ársloka 1975 og frá 1. jan. 1976 til 1. júlí 1976 3.5 mill, næstu 12 mánuði 4 mill og næstu 6 mánuði 4–5 mill eftir verði á áli. Og frá 1. jan. 1978 fylgir orkuverðið álverði eins og tilgreint er í grg. með frv.

Það hefur verið talað um þetta lága orkuverð í öðru orðinu sem álverksmiðjan greiðir og það séu aðeins 10% af því sem fæst fyrir orkusölu, þótt álverksmiðjan noti 50% af orkunni. Mér þykir rétt að skýra þetta nánar fyrir þeim hv. þm. sem halda að þetta sé svona. Ég er sannfærður um að hv. 3. þm. Reykv., þegar hann heldur þessu fram, trúir því að þetta sé þannig. Og hv. 2. þm. Austurl., mér dettur ekki í hug að halda að hann tali gegn betri vitund og alls ekki hv. 3. þm. Norðurl. v. Allir þessir þm. kappkosta að hafa það sem sannara reynist. Þess vegna er það, að ég vil koma með það í þessum umr. sem ætti að sannfæra menn um það sem rétt er. Mér dettur ekki í hug að vera að draga hlut álverksmiðjunnar fram neitt betri en hann raunverulega er.

Eins og ég sagði áðan, hækkar orkuverðið samkv. nýju till. fyrstu árin eins og skýrt er í aths. að frv., þ.e. í áföngum, fyrst um 20% og 1. júlí 1977 um 80% og fylgir síðan álverði. Samanburður á greiðslu ÍSALs og annarra orkunotenda er að hætti Þjóðviljamanna, þ.e. greiðslur ÍSALs fyrir orkuheildsölu eru bornar saman við greiðslur almennings til orkuveitna. Sé hins vegar borið saman heildsöluverð til ÍSALs annars vegar og heildsöluverð til Rafmagnsveitu Reykjavíkur hins vegar kemur í ljós að ÍSAL greiðir um 52% af heildsöluverði til Rafmagnsveitu Reykjavíkur miðað við orkuverð til ÍSALs frá 1. júlí 1976. Það eru 52% miðað við það sem Rafmagnsveita Reykjavíkur greiðir, en ekki 10%. Og það er náttúrlega reginmunur hvort það er heildsöluverð eða smásöluverð. Þetta hlutfall er þó of lágt ef tekið er tillit til þess, að ÍSAL tekur við 220 kw. spennu en Rafmagnsveitan ýmist 132 kw. spennu eða þaðan af minni. ÍSAL sér sem sagt um eigin spennustöðvar og að sjálfsögðu dreifikerfið. Og það er stóra málið, að ÍSAL sér um dreifingarkerfið og spennustöðvarnar. En til þess að fá þessa háu tölu fyrir orkusölu til almennings í landinu hefur orðið að grípa til dreifikerfisins og það verður algjörlega rangur samanburður ef annars vegar er miðað við heildsöluverð og hins vegar við smásöluverð. Ég veit að hv. þm. taka þetta til greina og sjá, að þetta gelur ekki reynst rétt, þegar þeir átta sig á þessu.

Tilkostnaður við framleiðslu, flutning og dreifingu raforkunnar hér við innlendar aðstæður, vatnsaflsvirkjanir, er að langmestu leyti háður uppsettu afli, en að mjög litlu leyti háður nýtingartíma þess, þ.e. orkusölunni. Af þessum sökum er eðlilegra að bera saman greiðslur miðað við afl heldur en orku, og sé það gert verður hlutfallið ÍSAL enn meira í vil en ef það er gert eins og ég sagði áðan. ÍSAL hefur nýtingartíma um 8200 klst. á ári og greiðir því frá 1. júlí 1977 6300 kr. árskw. Rafmagnsveita Reykjavíkur hafði á árinu 1975 nýtingartímann 4965 kwst. á ári og greiðir miðað við þann nýtingartíma 12100 kr. árskw. ÍSAL greiðir því um 52% af því sem Rafmagnsveita Reykjavíkur greiðir fyrir afnot af sama afli. En þess ber jafnframt að geta, að ÍSAL tekur við allri sinni orku með 220 kw. spennu, en Rafmagnsveita Reykjavíkur tekur við helmingi sinnar orku með 132 kw. spennu, en hinum helmingnum með 6–66 kw. spennu. Til þess að lækka spennuna fyrir afhendingu þarf að sjálfsögðu spennustöðvar sem auka tilkostnaðinn fyrir Landsvirkjun. Er talið að þegar um 132 kw. spennu er að ræða í stað 220, þá hækki orkukostnaðurinn raunverulega um 7%.

En það er þessi afgangsorka og 20 mw. sem fara til stækkunar á álbræðslunni, það er nú það versta, sagði hv. 2. þm. Austurl. Það mátti skilja á honum að hitt væri hægt að fyrirgefa. En afgangsorkan, hvað segir Landsvirkjun um hana? „Afgangsorka sú, sem átt er við í samningunum við járnblendiverksmiðjuna og ÍSAL, er unnin úr vatni sem tiltækt er hverju sinni þegar forgangsorkuþörfinni hefur verið fullnægt. Þannig verður orkukaupandi, sem eingöngu kaupir afgangsorku, að sætta sig við í vatnsleysisárum að fá alls enga orku um margra mánaða skeið yfir vetrarmánuðina. Afgangsorkusala hefur ekki áhrif til flýtingar næstu virkjana og hefur þannig ekkí aukakostnað í för með sér fyrir orkuöflunarfyrirtæki. Sala afgangsorku er ákaflega hagkvæm fyrir orkuöflunarfyrirtæki, þó að verðlagning á slíkri orku sé lág, þar sem hér er um hreinar aukatekjur að ræða af sömu fjárfestingu eins og ef afgangsorkuafhendingin hefði ekki komið til.“ Þetta er nú það sem Landsvirkjun segir um þetta, og 60% af þessum 20 mw. eru afgangsorka. Og á bls. 36 í fskj. frv. vitnar Landsvirkjun enn um hagkvæmnina á því að selja þessi margumræddu 20 mw., og ég ætla ekki að fara aftur að vitna í það þar sem allir hv. þm. hafa þetta skjal fyrir framan sig. Og nú veit ég að hv. 2. þm. Austurl. og fleiri, sem hafa rætt um rafmagnsmálin, eru sannfærðir um að það er hagræði fyrir Landsvirkjun að selja 20 mw. á því verði sem hér hefur verið rætt um.

Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í rafmagnsverðið. Það liggur fyrir að það er hagnaður að því sem hér hefur verið lagt til að lögfesta og að með því fær landsvirkjun og þjóðarbúið aukinn hagnað af álverksmiðjunni.

Hv. 3. þm Norðurl. v. minntist á dæmið A og B sem greint er frá í fskj. með frv. Honum fannst það skrýtið að dæmið B skyldi vera þarna með. þar sem það væri ekki álitið raunhæft. Ég held að það sé algengt í samningum að koma með ýmis dæmi sem ekki geta talist raunhæf þegar til alvörunnar kemur, en þykir samt sem áður gott að hafa þau til umræðu og hafa sem útspil, eins og bað er orðað, þótt það endi ekki með því að byggja áætlanir á því í lok samningsumr. Og ég lagði ekki út af dæmi B. vegna þess að ég taldi það ekki vera raunhæft. Ég lagði út af dæmi A sem við teljum vera raunhæft vegna þess að það byggist á þróun á verði áls síðustu 20 ár og allir, sem þekkja til þessarar framleiðslu, telja að það sé varleg áætlun að byggja á dæmi A. Og með því að byggja á dæmi A kemur í ljós mikill hagnaður bæði af orkusölu og einnig meira öryggi af skattgjaldi heldur en er samkv. eldri samningum.

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. 3. þm. Norðurl. v. út af fullyrðingum hans um að þjóðin hafi tapað á álbræðslunni, hún hafi reynst illa, hún hafi sogið til sín vinnukraft og fjármagn og þjóðarbúið hafi skaðast. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um þetta vegna þess að fullyrðingar hans stangast algjörlega á við staðreyndir.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða öllu meira um þetta mál. Ég held að ég hafi komið inn á flest þau atriði bæði nú og í fyrradag, sem hv. 3. þm. Norðurl. v., hv. 2, þm. Austurl. og hv. frsm. minni hl , 3. þm. Reykv., gerðu athugasemdir við. Ég tel að það, sem stendur í fskj. með frv., og það, sem fram hefur komið bæði hjá mér og hv. 6. þm. Reykv, sé nægilegt til að sanna að þjóðarbúið hefur hagnast á álverksmiðjunni frá því fyrsta, að till. þær, sem fyrir liggja, verða til þess að auka tekjur þjóðarbúsins, til þess að auka hag Landsvirkjunar, til þess að koma í veg fyrir miklar hækkanir á almenning frá Landsvirkjun nú í bráð, og ég tel að með þeim breyt., sem hér er lagt til að lögfestar verði, sé stigið stórt spor til þess að auka hagnað af þessu fyrirtæki sem frá upphafi hefur verið íslensku þjóðarbúi til hagnaðar.