18.02.1976
Neðri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. minni hl. (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Það er vissulega gleðilegt að meira að segja stjórnarþm. eru nú farnir að viðurkenna að orkuverð til álversins sé of lágt og það erlenda fyrirtæki, sem hér um ræðir, njóti óeðlilegra forréttinda, eins og fram kom í máli þeirra hv. framsóknarþm. Páls Péturssonar og Ingvars Gíslasonar. En munurinn á þeim félögum er sá, að hv. þm. Páll Pétursson dregur af hlutunum niðurstöðu og myndar sér sjálfstæð~ skoðun og tekur afstöðu samkv. því, en hv. þm. Ingvar Gíslason telur sig rígbundinn af stjórnarsamstarfinu.

Hv. þm. Ingvar Gíslason tók hér fram að sumt væri til bóta í þessum nýju samningsdrögum, en viðurkenndi þó að fjarri væri því að samningarnir væru orðnir fullkomnir. Það er vissulega eðlilegt að þm. reyni að afsaka það nú að hafa skipt um skoðun. Það gera framsóknarþm. gjarnan um þessar mundir og framsóknarmenn yfirleitt. Þeim er kannske vorkunn. Það er vonandi að þeir hafi líka kraft og áræðni til þess að áskilja sér rétt til þess að skipta um skoðun aftur, eins og hæstv. utanrrh. gerði í sjónvarpsumræðum í gærkvöld.

Hv. þm. Ingvar Gíslason telur okkur bundin af gamla samningnum, og hann sagði að æskilegt hefði verið að miklu fleiri breytingar hefðu orðið á þessum nýju samningsdrögum. Um það eru allir sammála. Það hefði verið æskilegt að það hefðu orðið miklu meiri breytingar. En hvers vegna í ósköpunum var það þá ekki reynt? Hvers vegna reyndi t.d. þessi hv. þm. ekki að koma fram neinum breytingum þegar málið var skoðað í n.? Það gerði hann ekki.

Hv. þm. Jóhann Hafstein sagði hér að fjarri væri því að hægt væri að hagræða bókhaldi án okkar vitundar, eins og ég leyfði mér að halda fram fyrr í umr. Hann á þá væntanlega við að fjarri sé því að hægt sé að hagræða bókhaldinu án vitundar ríkisstj. Á þá sem sagt að álykta að bókhaldinu sé hagrætt með hennar vitund? Ekki batnar það við það, nema síður sé. Hins vegar vita þeir, sem eitthvað vilja vita um starfsaðferðir auðhringa, að það er einmitt ekki síst þessi hagræðing bókhalds frá landi til lands sem skapar gróðaaðstöðu þeirra. Ef hið svokallaða tap álversins hér á landi er raunverulegt, hvernig samræmist það þá þeirri stefnu alúsvissara að sækjast samt eftir stækkun Straumsvíkurverksmiðjunnar? Er það þá til að tapa meiru? Ætli það? Enda er tapið bókhaldslegt. Við hverja ætli álverið versli mest. Það er aðallega tvenns konar hráefni sem það flytur inn, súrál og rafskaut, kannske eru hlutföllin 9:1 í verðmætum, ég giska á eitthvað slíkt. Og súrálið kaupir verksmiðjan frá hringnum sjálfum, frá fyrirtækjum Alusuisse. Og hver ákveður þá verðið? Og hvert er svo hráálið selt héðan? Kaupendur eru náttúrulega ýmsir. Meira að segja kom einhvern tíma kínverskt skip og var mikið gert með það í fréttum. En stærstu kaupendurnir munu þó vera fyrirtæki í Englandi og Þýskalandi, flest þeirra að líkindum dótturfyrirtæki Alusuisse. Það er einmitt á svona fyrirkomulagi sem sjálf tilvera auðhringanna byggist, yfirráðum að því marki að þeir geti hagrætt og meira og minna ráðið verðinn á sinni vöru.

Hv. þm. Jóhann Hafstein rakti hérna líka ýmsa kafla úr grg. með fyrri álsamningi. M.a. vitnaði hann í áætlanir um raforkuverð með eða án sölu til ÍSALs o.s.frv. Það ætti að vera óþarfi að vitna í þessar fyrri áætlanir. Þær gilda ekki lengur, þær hafa ekki staðist, það er honum kunnugt um eða ætti að vera. Eins gerði hann aths. við það, að ég hefði sagt að álverið færi ekki að íslenskum lögum, leiðrétti sig reyndar og sagði, eins og ég hafði sagt, að það lyti ekki íslensku dómsvaldi, og það er tvímælalaust rétt. Ég þarf ekki annað en vitna í ummæli sjálfs forstjóra álversins, Ragnars Halldórssonar, þegar hann kom á fund hjá n. Aðspurður sagði hann að hann líti svo á að álverið heyrði ekki undir íslensk lög, önnur en þau sem samningurinn er sjálfur.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson lagði mikla áherslu á það, að 6 af 7 nm. í iðnn. hefðu viljað samþykkja samningana eftir þá athugun sem þeir hefðu fengið í n. Ég verð nú að leiðrétta hv. nefndarformann. Þeir vildu það bara alveg strax án þess að það hefði fengið nokkra einustu athugun. Þeir vildu samþykkja þetta strax á fyrsta fundi. Hann gerði líka grín að því, að ég hefði tekið hér fram að enn væri ósvarað mörgum spurningum, þrátt fyrir það að sjálf hefði ég lagt fram svo og svo margar — ég held að hann hafi talið 30. Ég skal ekki deila um það. Ég hef ekki talið það sjálf, þær eru í ýmsum liðum. En ég vil benda hv. nefndarformanni á það, að einmitt svörin við þessum spurningum gáfu tilefni til frekari spurninga og þeirra hefði ég viljað spyrja á þriðja fundinum eftir að tími hafði unnist til að vinna úr svörunum, en á þær hafði n. ekki nokkurn áhuga að hlýða og því síður að leita svara við þeim.

Þessi hv. þm. sagði líka að ég hefði sagt að ekkert samband hefði verið haft við fulltrúa Náttúruverndarráðs. Ég tók einmitt fram að þeir hefðu sjálfir átt frumkvæðið. Ég hygg að ég þurfi ekki að fara að endurtaka það hérna.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson sagði líka að allir hefðu verið sammála um að það ætti að gera fyllstu kröfur. Auðvitað eru allir sammála um að það ætti að gera fyllstu kröfur, meira að segja hv. þm. Ingólfur Jónsson, og það tel ég nú dálítið nýtt hjá honum. Hitt er annað, að það eru líka sumir sem vilja að það sé gengið eftir kröfunum og að loforð í því sambandi séu haldin, þ.á m. fulltrúar Náttúruverndarráðs. Ég hef áður rakið það, að af fyrri reynslu legg ég lítið upp úr þeim loforðum, sem nú eru gefin, eða þeim fyrirheitum, sem prentuð eru í bréfi álversins með nál. meiri hl. Þessi fyrirheit eru háð lánsfjárútvegun, eins og áður hefur verið rakið hér. Það er áreiðanlega hægt að hagræða slíku eftir þörfum, ekki síður en bókhaldinu um taprekstur.

Hv. nefndarformaður benti líka á að við hefðum hér í okkar málflutningi, sem eru á móti þessum samningi, reiknað skattinneignina út eftir núverandi gengi. Að sjálfsögðu reiknum við hana eftir núverandi gengi. Þetta er skattinneign sem stendur nú í 4.4 millj. dollara. Það gerir 748 millj. kr. íslenskar. Auðvitað reiknum við eftir því gengi sem hún stendur í þegar hún er reiknuð út. Ég tók það mjög skýrt fram í m.inni ræðu að reiknað væri á því gengi sem gilti í árslok 1975 enda stendur heldur hvergi að inneign eigi að reiknast á einhverju öðru gengi. Og í þessu sambandi má kannske líka koma inn á það, að talað er um að það leggist á hana vextir samkv. vöxtum bandarískra banka sem hv. þm. sagði hér að væru 5.6%. Um það stendur ekki neitt. Það stendur að þeir hafi s.l. 10 ár verið að meðaltali 5.6%. Ætli þeir hafi ekki farið hækkandi eins og aðrir vextir almennt, hvar sem er í heiminum? Ég býst við að séu þessir 5.6% vextir meðaltal, þá hafi þeir kannske byrjað í miklu lægri tölu og hafi síðan hækkað, og guð má vita hvað þeir eru núna eða hvað þeir verða þegar við eigum að borga þessa reikninga.

Sama gildir náttúrlega um það sem hann sagði um framleiðslugjaldið. Honum fannst óréttlátt, fyrst þetta væri reiknað í núverandi gengi, að framleiðslugjaldsgreiðslurnar skyldu þá vera reiknaðar á því gengi sem þá gilti. Þetta er það sem gefið var upp af ríkisbókhaldinu, og eðlilega eru greiðslurnar miðaðar við það gengi sem þær voru í þegar þær voru greiddar, en ekki einhvern tíma löngu eftir að þær hafa verið greiddar, nema þá að hv. þm. Ingólfur Jónsson telji að það sé alls ekki lengur hægt að reikna út í íslenskum peningum, það verði að miða allt við þennan elsku hjartans dollar hans.

Hv. þm. Jóhann Hafstein og reyndar líka Ingólfur Jónsson töldu að hlutfallið á milli íslendinga og álversins í heildargreiðslum kæmi ekki málinu við. Það kannske kemur ekki beint þessum samningsdrögum við sem slíkum. En vissulega kemur það málinu við hvað við íslendingar borgum af heildargreiðslunum og hvað erlendir aðilar borga af heildargreiðslunum. Þar með er ekki endilega verið að halda því fram að þegar selt er rafmagn í miklum mæli til stóriðju, hvort sem hún er erlend eða innlend, þá eigi hún að borga það sama og borgað er fyrir raforku til heimilisnota. En að hún noti yfir 50% af rafmagni og borgi ekki nema um 10% af greiðslunum, það getur hreinlega ekki staðist heilbrigt mat. Það kom fram í svörum sem okkur voru gefin um verðið til þeirra sem kaupa í heildsölu, — svörum frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, - ég leyfi mér að lesa það hér, með leyfi forseta, að eftirfarandi aðilar borga: a) Álfélagið 31 eyri á kwst., b) allir aðrir kaupendur, að almenningsveitum meðtöldum, 132 aura á kwst. og e) almenningsveitur einar 154 aura á kwst. — og beri hv. þm. saman ef þeir vilja.

Að lokum vil ég enn benda á að í öllum útreikningum sínum í frv. gefa semjendur sér að álverð hækki um 2.5% á ári. Þeir segjast reyndar taka þar mið af þeirri verðþróun sem orðið hefur áður og má það vel vera. En eftir sem áður er ekki tekið tillit til annarrar verðþróunar og er því ómögulegt að taka þessa verðhækkun á áli nema sem hluta af almennri verðbólguhækkun, þ.e.a.s. hækkun á öllum vörum og þar með á rafmagni líka. Alls ekkert tillit er tekið til fyrirsjáanlegrar stórhækkunar á framleiðslukostnaði raforku hér innanlands. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir endurskoðun á samningstímabilinu með tilliti til þessa. Eins og ég hef bent á áður í þessum umr. er í útreikningi á raforkuverðinu ekki einu sinni miðað við sömu hlutfallshækkun á verði áls og rafmagns, heldur hækkar orkuverðið um sílækkandi hlutfall af álverðshækkuninni. Er því í rauninni um að ræða minna tekjuhlutfall fyrir íslendinga í raunverulegum verðmætum eftir því sem verðlag stigur, og að sama skapi léttari greiðslur fyrir álhringinn eftir því sem verðlag stígur.

Við útreikninga mína geng ég út frá því álverði sem er í dag, þ.e.a.s. 39–40 cent á pund. Það var gefið 1975 30 cent á pund. Segjum að það hafi aðeins hækkað, það er ekki komið heilt ár, — segjum að það sé 39–40 cent á pund. Eftir þeim ákvæðum, sem samningsdrögin gera ráð fyrir, gefur það orkuverðið 3.95 mill fyrir kwst. til álversins í heild. Og hér er rétt að vekja sérstaka athygli á því, að þegar Landsvirkjun gerir ÍSAL reikning fyrir raforkunotkun, þá ber henni, Landsvirkjun, að verðleggja allt rafmagnið á einu og sama verði. Þetta má sjá í orðalagi 13. og 14. gr. rafmagnssamningsins á bls. 14 í þessum samningsdrögum. Ég tel óþarfa að lesa það hér upp. Í þessum útreikningi er ég hins vegar að slá mati á það, við hvaða verði rafmagnið til gömlu smiðjunnar er sótt að gefnum ákveðnum forsendum um verðlag á raforkunni til nýja hlutans, fjórða áfanga. Ég hef áður lýst því hér í umr. hvernig ég teldi rétt að taka verðið 10 mill fyrir viðbótarsöluna til fjórða áfanga, en það byggist á athugunum á afhendingarskilmálunum sjálfum sem hljóta að vera eitt af grundvallaratriðunum þegar þetta mál er skoðað. Og ég skal svo reikna þetta dæmi einu sinni enn. Ég geri ráð fyrir 1100 gwst. notkun gamla hlutans, þ.e.a.s. ákveðnu meðaltali, en neyslan hefur stundum verið minni og stundum aðeins meiri. Viðbótarsmiðjan á að fá 176 gwst. Samanlagt gerir þetta 1276 gwst. — ég vona að hv. þm. fylgist með — sem á núverandi verði, 3.95 mill, gerir 5040. 176 gwst. á 10 mill gera 1760. Drögum frá. Útkoman er 3280. Svo er einfalt að deila 1100 í þá upphæð. Útkoman er 2.98 eða segjum 3 mill. 3 mill er sem sagt raforkuverð til gamla hlutans, 3 mill áfram. Það er svo áfram hægt að halda því fram að 10 mill sé ekki heildarverð til nýja hlutans, vegna þess að skipt sé í forgangsorku og afgangsorku. En afhendingarskilmálarnir tala bara sínu máli. Þeir eru svo harðir að hér er ekki um neina afgangsorku að ræða í neinum venjulegum skilningi þess orðs. Ég hef áður í þessum umr. lesið upp til samanburðar afhendingarskilmálana í samningnum um járnblendiverksmiðjuna og í þessum samningsdrögum, og ég tel óþarfa að endurtaka þá lesningu nú. Hv. þm. geta lesið það sjálfir. Ég ætla ekki að tef ja tímann.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson endurtók það áðan, sem við bæði höfum reyndar bent á fyrr í umr., að jafnvel orkuverðið 10 mill er undir framleiðslukostnaðarverði, Hvað þá um 3 mill eða jafnaðarverðið 4.43 1978? Það er greinilegt að hvernig sem lítið er á dæmið, þá er orkuverðið langt undir því marki sem eðlilegt hefði verið að gera kröfu um, langt undir heimsmarkaðsverði og langt undir því marki sem við íslendingar hljótum að gera kröfu um þegar við tökum mið af því hve gífurlega framleiðslukostnaðurinn er að hækka hjá okkur og mun hækka á næstu árum. Þetta er smánarlegt verð í einu orði sagt. Bæði út af því og öðru, sem við höfum nefnt hér áður, getur Alþ. ekki staðfest þennan samning. Það er ekki hægt að staðfesta hann eins og hann er. Það þarf að vísa honum til baka og aftur í endurskoðun.