19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að taka undir þau ummæli hv. 2. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar, að fyrst vantraust er komið fram á hæstv. ríkisstj., þá er eðlilegt og öllum fyrir bestu að það fari fram sem fyrst. Hins vegar geri ég mér algjörlega ljóst að það er á valdi hæstv. forseta að ákveða hvenær slík umr. fer fram, og ég mun og minn flokkur að sjálfsögðu sætta mig við úrskurð hans í þeim efnum.

En fyrst á annað borð er vakið máls á þessu efni hér utan dagskrár í Sþ., þá tel ég rétt að það komi fram, að það er að sjálfsögðu ekki, getur ekki verið og má ekki vera tilgangur flutnings vantrausts á ríkisstj. að gera neina tilraun til þess af stjórnmálaflokkanna hálfu að hafa áhrif á lausn þeirrar alvarlegu kjaradeilu sem nú er uppi með þjóðinni, allra síst þegar eins háttar í viðskiptum okkar við aðrar þjóðir og nú á sér stað þessa dagana og um þessa helgi. En þó að stjórnmálaflokkarnir eigi að sjálfsögðu ekki og geti ekki verið þeirra eðlilega ætlun að hafa nein afskipti af kjaradeilunni og þeirri lausn hennar sem æskilegt er að eigi sér stað sem allra fyrst, þá kemst ég ekki hjá að vekja athygli á því, að nokkru öðru máli gegnir um hæstv. ríkisstj. Henni, sem löglega kjörinni stjórn í landinu hlýtur að bera skylda til að reyna að hafa heillavænleg áhrif á það að þessi alvarlega deila leysist sem fyrst. En hingað til hefur því miður kveðið lítið að því að hún hafi látið sig ágreiningsefni deiluaðilanna nokkru skipta. Ég minni í þessu sambandi á að af hálfu launþegasamtakanna í framhaldi af kjararáðstefnu þeirra voru ríkisstj. afhentar till. sem að dómi launþegasamtakanna hefðu átt að geta stuðlað að skjótri og skynsamlegri lausn á þeim erfiðu kjaramálum sem við er að etja. Einnig fóru fram viðræður milli fulltrúa launþegasamtaka og fulltrúa vinnuveitenda og a.m.k. varðandi nokkur mikilvæg atriði varð samstaða af þeirra hálfu um að bera fram vissar óskir gagnvart ríkisstj. Að því er fram hefur komið í fjölmiðlum hefur ríkisstj. enn sem komið er ekki tekið undir þessar óskir, hvorki óskir af hálfu launþegasamtaka né þær óskir sem reyndust vera sameiginleg sjónarmið launþegasamtaka og vinnuveitenda. Hér tel ég að ríkisstj. hafi farið of hægt, hafi haft of hægt um sig, hafi haft of lítið frumkvæði, og þeim mun fyrr sem hún lætur málið til sín taka og þá að sjálfsögðu í því skyni að hafa skynsamleg og heillavænleg áhrif á sem skjótasta og réttlátasta lausn deilunnar, þeim mun betra.

Þetta taldi ég rétt að kæmi fram fyrst á annað borð var vakið máls á þessum atriðum hér utan dagskrár í dag.