19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hefði ekki farið að blanda mér í þessar umr. um dagsetningu á umr. um vantraust ef ekki hefði gætt nokkurs misskilnings hjá hv. 2. þm. Austurl., þar sem hann vildi kenna hæstv. forsrh. um það, að af þessari umr. gæti ekki orðið fyrr en á mánudag, og lét orð falla eitthvað á þá lund, að formaður Framsfl hefði tjáð að sér væri ekkert að vanbúnaði þegar við hann var rætt um þetta. Þetta vil ég nú leiðrétta. Hins vegar má segja að þetta sé e.t.v. afsakanlegur misskilningur, af því að rétt er það, að þegar ég var rétt kominn inn í þinghúsið eða salinn hér í gær og hafði ekki séð neina vantrauststill., þá átti formaður Alþb., einn af flm. þessarar till., viðtal við mig og skýrði mér frá þessu.Og það er alveg rétt, að ég sagði um leið eitthvað á þessa leið: Ja, það er allt í lagi — eða eitthvað á þá lund, en sagði jafnframt: Talaðu við forsrh. — Ég vona að hv. þm. kannist við að þessi hafi verið mín viðbrögð eða eitthvað á þá lund. Mér fannst ákaflega eðlilegt að fyrst væri haft samband um þetta við forsrh. þar sem hér er um að ræða vantraust á ríkisstj. Síðan ræddum við saman, forsrh. og ég, og síðan var þetta rætt í ríkisstj. og væntanlega í þingflokkum ríkisstj. líka, og þá var það sammæli manna að það væri eðlilegt og á engan hallað þó að þessi umr. biði til mánudags. Hér er því ekki á neinn hátt við hæstv. forsrh. að sakast einan sér. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Auðvitað er það laukrétt, að það er sjálfsagt að vantrauststill. séu ræddar sem fyrst, og þeirri reglu hefur verið fylgt yfirleitt á Alþ. það ég best veit, nema þá ef einhverjar alveg sérstakar ástæður hafa verið fyrir hendi. Um það er enginn ágreiningur að svo eigi þetta að vera. En við lítum svo á að ekki sé þetta óeðlileg töf á því að umr. um vantraust fari fram þó að það dragist fram á mánudag. Þess verður að gæta, að þarna koma helgidagar á milli eða dagar sem þing er venjulega ekki háð á, og þá er ekki ýkjamikill dráttur sem á þessu verður. Ég held því að staðhæfa megi að þetta sé algerlega eðlileg og venjuleg meðferð á vantrauststill. Ég er satt að segja hissa á því, að þessarar óþolinmæði skuli gæta, reyndar ekki hjá hv. flm. till., heldur hafa það verið aðrir sem hafa komið hér upp og sagt nokkur orð um þetta.

Ég vona nú að athuguðu máli að það geti orðið sættir um þetta atriði og menn þurfi ekki að vera að deila svo mjög út af því. Ég vil varla gera því skóna að hv. flm. geri sér von um að þessi vantrauststill. verði samþykkt, og þá held ég að það megi nokkuð einu gilda hvort það dregst fram á mánudaginn eða á sér stað á föstudegi, þannig að ég vil nú vænta þess að um þetta geti þrátt fyrir þennan lítilfjörlega ágreining, sem upp hefur komið, tekist gott samkomulag.

Það er e.t.v. hugsanlegt að þeir lifi í þeim heimi, hv. stjórnarandstæðingar, að þeir haldi að þessi vantrauststill. verði samþykkt. Þá er það, eins og hér hefur verið réttilega tekið fram, að tímarnir eru ákaflega alvarlegir og ég býst varla við að það yrði talin mikil forsjá í því að gera landið stjórnlaust á þessum alvarlegu tímum. Það gæti hvarflað að manni vegna þess ákafa sem um þetta er, að fá þessa till. afgreidda, að stjórnarandstæðingar væru viðbúnir að mynda nýja stjórn, hún væri tilbúin að taka við. Og þá skipti það kannske einhverju máli hvort það væri á laugardaginn eða mánudegi eða þriðjudegi. (Gripið fram í: Það er sjálfsagt hægt að flýta umr. ef ný stjórn er til.) Ef ný stjórn er til, já, sjálfsagt að flýta umr. Þetta þarf að upplýsa. Ég gæti vel trúað því, að það yrði spurning sem yrði borin fram í umr. um þessa vantrauststill., hvort svo væri eða ekki, og þá er kannske gott að hafa vissa „generalprufu“ um það hér. Ég veit að hv. stjórnarandstæðingar geta ekki einir sér myndað þingræðislega ríkisstj. Ég veit líka að þeir hafa ekkert leitað til Framsfl. um myndun slíkrar stjórnar, ég get vottað það. Ég veit að þeir geta með góðri samvisku svarið það, að þeir hafa ekki haft nokkur sambönd við Framsfl. Hafa þeir haft slík sambönd við Sjálfstfl.? Það væri fróðlegt að fá það upplýst hér. Mér þætti t.d. fróðlegt að heyra það frá flm., hv. formanni Alþfl., Benedikt Gröndal, hvort það væri tilbúin slík stjórn, — ég nefni hann nú til af því að hann hefur oft að mínum dómi talað mjög skynsamlega um mikilvæg málefni sem hér hafa verið til meðferðar á Alþingi.

Þetta var nú útúrdúr og í sjálfu sér óþarfur, vegna þess að ég ætlaði bara að bera vitni og reyna að leiðrétta þennan misskilning sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. og kann að eiga sér skiljanlegar orsakir vegna þess hvernig ég brást við í fyrstu þegar hv. þm. Ragnar Arnalds, formaður Alþb., talaði við mig. En sem sagt, það er ekki við hæstv. forsrh. í þessu efni að sakast. Við erum alveg sammála um þetta atriði og teljum að það sé ekki á neinn hátt hallað á neinn þó að þetta dragist til mánudags. Það má vel vera að okkur ráðh. veiti ekki af tímanum til að undirbúa okkur. En ef til vill gæti það komið sér vel fyrir hina, hv. stjórnarandstæðinga sem fara í umr., að fá þennan lengri frest til þess að undirbúa sínar ræður.