19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég skal fúslega taka til greina óbein tilmæli forseta um að þessar umr. dragist ekki á langinn, enda hef ég ekki hér mörgu við að bæta. Ég stend nú aðallega upp vegna ummæla hæstv. dómsmrh. Hann kom hér í ræðustól til þess að staðfesta það, að það væri ríkisstj. í heild sem bæri ábyrgð á þessari ákvörðun, að umr. færu ekki fram fyrr en á mánudag, og ég held að það sé alveg óumdeilt, að það er sem sagt ríkisstj. í heild sem hefur tekið þá ákvörðun að fá umr. þessari slegið á frest fram yfir helgi. Um hitt held ég að sé enginn misskilningur, hvað fór okkar í milli í samtali okkar í gær, milli mín og hæstv. dómsmrh. Ég ræddi við hann sérstaklega um fram komna till. og þá ósk okkar stjórnarandstæðinga að umr. um hana færu fram án ástæðulauss dráttar, nefndi sérstaklega nokkra möguleika, þ. á m. föstudagskvöldið sérstaklega. Hann lýsti því yfir að það væri allt í lagi, þessi till. væri fram komin og sér væri ekkert að vanbúnaði í þessum efnum, eins og haft var hér eftir hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. En það er reyndar rétt, að hann vísaði mér á forsrh. í þessu sambandi, og að sjálfsögðu hafði ég þá gert ráð fyrir að eiga einnig viðræður við hann, en hann var ekki kominn í húsið.

Ég held að af þessu sé alveg ljóst, að allir flokkar aðrir en Sjálfstfl. — eða forustumenn allra flokka — hafa í sjálfu sér verið reiðubúnir til að láta þessar umræður fara fram á föstudegi, og það er sem sagt hæstv. forsrh. sem ræður því og hefur komið því til leiðar að umr. dregst fram yfir helgi, enda þótt hann hafi fengið ríkisstj. í heild til þess að fallast á þessa niðurstöðu sina og styðja sig í því að fá umr. frestað.

Það hefur verið spurt nokkuð um það í þessum umr. hvers vegna stjórnarandstæðingar óski eftir því að þessum umr. sé flýtt. Ég vil benda hv. þm. á að hér er ekki um neinn óeðlilegan flýti að ræða. Ég minni á það, að mikilsverðar till. og frv. eru oft tekin fyrir daginn eftir að þau eru lögð fram, og jafnvel kemur það fyrir að frv. og till. séu tekin fyrir samdægurs. Þess eru jafnvel ýmis dæmi og það meira að segja nú frá seinustu vikum, að frv. séu afgr. í gegnum þrjár umr. í hvorri d. fyrir sig. Ég sé því ekki að það sé með nokkrum rétti hægt að kalla það einhvern óeðlilegan flýti, ef till. er lögð fram á miðvikudegi, að umr. um hana fari fram á föstudegi.

Ég held að það fari ekkert á milli mála, að ástandið í þjóðfélagi okkar hefur verið býsna alvarlegt á undanförnum mánuðum, en þó keyrir nú um þverbak þessa dagana, eins og öllum mun ljóst vera. Það er skoðun æðimargra og þ. á m. okkar stjórnandstæðinga, að hæstv. ríkisstj. beri ekki svo litla ábyrgð á því hvernig komið er og að það séu afskipti hennar og þá öllu heldur afskiptaleysi hennar af þeim kjaradeilum, sem nú standa yfir, sem gera það að verkum að hún verði að bera þar þunga ábyrgð og eigi þar stóra sök. Þar á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við hin neikvæðu viðbrögð ríkisstj. gagnvart till. sem Alþýðusamband Íslands lagði fram fyrir tveimur og hálfum mánuði og hafa að vísu fengið einhverja meðferð af hálfu forsrh., en öllum mun víst bera saman um að þau viðbrögð hafa verið harla neikvæð. Það segir sig sjálft, að þegar hundruð millj. kr. fara í súginn á degi hverjum vegna allsherjarverkfalls sem m.a. má rekja til afskiptaleysis og neikvæðrar afstöðu ríkisstj., þá er svo sannarlega þörf á því að ræða það mál hér á hv. Alþ. á formlegan hátt. Það er það sem við förum fram á og vonumst þá til þess að sú umr. geti með einhverjum hætti leitt til þess að endir verði bundinn á þessar alvarlegu kjaradeilur.

Ég ætla ekki hér að fara að gera að umtalsefni gamanmál hæstv. dómsmrh. um hugsanlega nýja stjórnarmyndun. Ég veit að hæstv. dómsmrh. þekkir öllum mönnum betur stjórnmálasögu íslendinga og hvaða aðdraganda það hefur haft að vantrauststill. hafa verið fluttar. Og hann veit það jafnvel og ég, að það mun aldrei hafa gerst að þeir menn, sem borið hafa fram vantrauststill. á Alþ., hafi jafnhliða haft nýja ríkisstj. í handraðanum. Það hefur víst aldrei gerst. Hitt er ljóst, að á öllum sviðum þjóðfélagsins er nú hin mesta óstjórn ríkjandi. Það getur ekki farið fram hjá neinum. Og af þessari ástæðu verður núv. ríkisstj. að víkja. Það er með þetta í huga að sjálfsögðu sem umrædd till. er flutt.