19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég er þakklátur þeim tveimur hv. alþm. sem hafa átt frumkvæði að því að flytja þetta mál inn á hv. Alþ. Mér sýnist að þarna sé verið að leitast við að leysa úr þörf sem má ekki dragast öllu lengur að úr verði bætt.

Í þessum umr. og fyrri umr. um fæðingarorlof kvenna hafa ræður manna jafnan hnigið í þá átt, að það málefni sé tryggingamál og heyri undir tryggingakerfið, og ég get vel fallist á að svo sé. En í því sambandi þykir mér rétt að banda einnig á það, að ég hef aldrei heyrt svo talað um lífeyrissjóði og lífeyrissjóðsgreiðslur, hvorki hér á Alþ. né annars staðar, að það þyki ekki einnig heyra undir tryggingakerfið og vera tryggingamál.

Þrátt fyrir það að menn virðast vera sammála um þetta hefur lífeyristryggingakerfið verið byggt upp í áföngum og heyrir ekki allt undir einn hatt. Og vegna þess að við höfum ekki einu sinni í því efni fundið eina fullnaðarlausn til frambúðar sem leyst væri í einu hvað lífeyríssjóðina snertir, þá er fullkomlega eðlilegt, að ég ekki tali um réttlætanlegt, að málefni, sem þessi till. fjallar um, sé einnig leyst á sama hátt.

Ég ætla ekki að fella um það nokkurn dóm, hvort lífeyrissjóður bænda er fær um að sinna því hlutverki sem honum er hér ætlað. Till. gerir ekki heldur ráð fyrir því, að það skuli hann gera skilyrðislaust, heldur er hér verið að teita að leið til að leysa þessa miklu þörf, og bent á þessa leið, en gert ráð fyrir því í leiðinni að það skuli kannað af fleiri aðilum, þeim sem mesta þekkingu hafa á því, hver geta sjóðsins er. Ef sjóðurinn væri um vað fær, þá hygg ég að allir menn væru sammála um að þetta verksvið væri ekki fjarri því að falla undir eðlilega starfsemi hans. Vil ég leggja áherslu á að ég er þeirrar skoðunar að hann sé það fyllilega, en að sjálfsögðu verður að kanna hvort sjóðurinn er fær um það.

Menn hafa bent á það hér að sjóðurinn væri veikur. Ég þori ekki að segja um það. Það er alltaf matsatriði hver er sterkur og hver er veikur. Það er eftir því hvaða hlutverk hverjum og einum er ætlað. Það var bent á það hér í ræðu áðan að greiðslur til lífeyrissjóðsþega úr sjóðnum væru ekki háar. Eftir því sem þar kom fram er það rétt, að svo er ekki. Hins vegar er líka vitað að sjóðurinn sinnir ýmsum öðrum þörfum. Hann lánar út. Hann styður að því að hægt sé að greiða fyrir frumbýlingum og þeim sem standa í framkvæmdum við landbúnað. Þetta þarf að sjálfsögðu að meta. Á þessi lífeyrissjóður að gera það eða á að ætla það einhverjum öðrum sjóði, og væri eðlilegra að lífeyrissjóðurinn sinnti þá frekar þessum þörfum, að greiða fæðingarorlof bændakvenna? Á þessu stigi get ég ekki kveðið upp úr um það hvort þessa leið eigi skilyrðislaust að fara eða ekki. En ég er mjög ákveðið samþykkur því að þessi till. verði samþ. til þess að könnun verði gerð á því hvort þessi leið sé fær og hvort hún sé betri en aðrar. Ég tel nauðsynlegt að kanna allar hugsanlegar leiðir til úrbóta í þessu efni. Meðan ekki hefur fundist allsherjar eða endanleg lausn þessara mála sem spannar yfir allt verkefnið, — það hefur ekki enn séð dagsins ljós, — tel ég fulla þörf á því að till. eins og þessi verði samþykkt til þess að leitað verði allra hugsanlegra leiða sem mönnum koma til hugar.