19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það var raunar í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Reykv. sem mig langaði til að segja örfá orð til viðbótar. Hv. þm. vitnaði til ummæla minna um að greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda sem fæðingarorlof bændakvenna stefndu í hættu möguleikum til öflunar fjármagns til uppbyggingar í atvinnulífinu, eitthvað á þessa leið. Þó að ræða mín væri óundirbúin og ekki skrifuð, þá skrifaði ég samt eina setningu og það kom sér vissulega vel, vegna þess að hún snerti nákvæmlega það sem ég gerði að umræðuefni í sambandi við þetta atriði, en hún var svona:

„Mér virðist að ýmsar till. um útgjöld miði að því að sjúga merginn úr möguleikum innanlands til fjármagnssöfnunar til að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu og framförum í atvinnulífi þjóðarinnar.“

Ég held að hv. 5. þm. Reykv. hafi dregið dálítið djúpt drættina í þessu efni þegar hann vitnaði til ummæla minna, því að ég var að ræða almennt um þetta mál og fjarri því að ég sé þeirrar skoðunar að þetta mál sem slíkt mundi hafa mikil áhrif í þessum efnum. En mér sýnist margir lækir renna í sömu áttina í sambandi við þessi mál, og þó að það sé auðvitað ljóst að útgjöld úr Lífeyrissjóði bænda mundu að sjálfsögðu skerða möguleika hans til útlána, það er ljóst, þá hef ég ekki kunnáttu á því hve mikil útgjöld væri hér um að ræða, og þarf auðvitað að athuga bað sérstaklega. En það, sem ég vildi leggja áherslu á og ræddi um í nokkru máli, var þetta, að mér sýnist það virkilega íhugunarefni og alvörumál fyrir þjóðina að ekki sé sífellt gengið á möguleika til fjársöfnunar til þess að standa undir framförum og uppbyggingu.

Það þarf ekki að lýsa því, hvaða áhrif verðbólgan hefur í þessum efnum. Hún hefur náttúrlega skelfileg áhrif og ég álit að þetta séu kannske einhver alhættulegustu áhrif verðbólgunnar. En til viðbótar við verðbólguna koma ýmsar ákvarðanir sem stefna í sömu áttina, þar á meðal t.d. það ef tekið væri upp gegnumstreymiskerfi lífeyrissjóðanna og hætt við svokallað uppsöfnunarkerfi. Ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á þessu ári er 7 milljarðar og fer vaxandi með hverju ári sem líður. Ef þessi sparnaður, sem þarna er um að ræða, væri verulega skertur, þá mundi það minnka möguleikana til þess að afla nauðsynlegs fjármagns til að standa undir atvinnulífinu í landinu, því að það er alveg augljóst að við erum raunar þegar a.m.k. að mjög miklu leyti sokknir djúpt í erlendri skuldasöfnun, þannig að við verðum að spyrna við fótum í því efni. Okkar atvinnulíf, okkar efnahagur stendur ekki undir öllu meiri skuldasöfnun við útiönd en þegar hefur verið stofnað til, nema þá hreinlega í beinum tengslum við uppbyggingu atvinnustarfsemi sem stendur undir sér sjálf og bætir ekki við neinum greiðslubyrðum.

Það var þessi þáttur sem ég lagði út í að hugleiða í sambandi við þetta mál og benti á að hér væri um að ræða eina af mörgum tillögum og ráðstöfunum sem gerðar hafa verið og hníga allar í þá átt að minnka möguleikana til þess að safna saman fjármagni sem geti staðið undir nauðsynlegri uppbyggingu og nauðsynlegum framförum í atvinnulífi þjóðarinnar og hægt og bítandi hafa þau áhrif að atvinnulífið slappast, það verður þróttminna og framleiðir minni verðmæti. Þetta veikir smátt og smátt efnahag þjóðarinnar, ekki síst þegar til lengdar lætur.