19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Jón Helgason:

Herra forseti. Eins og hefur verið tekið fram áður eru nú í gildi lagafyrirmæli sem fela ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. frv. um fæðingarorlof fyrir allar konur, bændakonur eins og aðrar. Og ég vil sérstaklega taka undir með hv. 6. þm. Suðurl., að ég vil láta skoða allar leiðir til þess að ná því marki. Það er þess vegna sem ég get ekki fallist á það að Alþ. nú í þáltill. skori á ríkisstj. að athuga sérstaklega einhverja eina leið, þar sem það bætist þar við, að ég tel þá leið ekki heppilega og færa vegna þeirra atriða sem ég benti á áðan.

Hv. 9. landsk, þm. endurtók það í síðustu ræðu sinni að Lífeyrissjóður bænda væri stór. En stærð er ákaflega afstætt hugtak. Hún hlýtur að fara eftir því hvaða verkefni sjóðnum eru falin. Það verkefni, sem Lífeyrissjóður bænda á að rækja, er honum þungt vegna þess hvað það er tiltölulega stór hópur bænda sem á rétt á lífeyrisgreiðslum, miðað við þá sem greiða í sjóðinn.

Ég held að hér hafi dálítið verið blandað saman málum þegar talað hefur verið um önnur hlutverk Lífeyrissjóðs bænda. Þar er talað um útlán hans. Sjóðurinn er byggður upp eins og aðrir lífeyrissjóðir sem söfnunarsjóður til þess að geta síðan tekið á sig þær skyldur sem á hann falla, og þá þarf hann að ávaxta sitt fé. En það er allt annað hvort hann lánar út fé til að ávaxta það eða hvort hann greiðir það út án þess að eiga þess kost að fá það aftur, eins og hann gerir með lífeyrisgreiðslunum og mundi einnig gera með því að greiða fæðingarorlof.

En ef undir þessum kringumstæðum hefur þýðingu að samþ. þáltill. í þessu máli, þegar lagafyrirmæli eru nú í gildi um að ríkisstj. skuli leggja þetta mál fyrir hv. Alþ., — ef það hefur þýðingu að samþ. þáltill., þá vil ég samþ. þáltill. sem kveður fastar að orði og einskorðar sig ekki við þessa einu leið sem ég tel ekki rétta. Ég vil þá hreinlega að samþ.þáltill. sem skorar á ríkisstj. — ekki að kanna möguleika á því, heldur skorar á ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. frv. um fæðingarorlof bændakvenna. Mér finnst að það sé þá nær því viðhorfi sem ég hef til þeirra hluta, að þar verði réttur bændakvenna og bændastéttarinnar jafn á við aðrar stéttir.