19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég var einn af þeim sem voru ekki alls kostar ánægðir með breytinguna á lögunum um atvinnuleysistryggingar, þar sem sú breyting fól í sér að það væru aðeins þær konur, sem tilheyrðu launþegasamtökunum, sem fengju fæðingarorlof, en t.d. ekki konur í sveitum landsins. Að því leyti tel ég þessa þáltill. góða, þó að ég hefði viljað hafa hana á annan veg en hún er.

Því miður hlustaði ég ekki á allar þessar umr., en ég þykist heyra að þessi þáltill. sé orðuð á þennan veg sem hún er vegna þess að það kenni hér nokkurs misskilnings um hvernig er með Lífeyrissjóð bænda. Lífeyrissjóður bænda hefur alls ekki tekið til starfa. Hann tekur ekki til starfa fyrr en árið 1986 — og hvers vegna? Vegna þess að hann er það veikur að hann er ekki fær um að sinna því hlutverki, sem honum er ætlað, fyrr en 1986. Þær greiðslur, sem nú eru úr sjóðnum, koma með tvennum hætti. Það er Stofnlánadeildin sem borgar 37.5% af þessum greiðslum og úr ríkissjóði koma 62.5%. Þetta er vegna þess að Lífeyrissjóðurinn er ekki fær um að sinna sínu hlutverki fyrr en í ársbyrjun 1986. Ég vil að menn hafi þetta til athugunar þegar þeir taka afstöðu til þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir.

Ég hefði viljað láta þessa till. hljóða frekar á þessa leið, með leyfi forseta: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að kannaðir verði möguleikar á því að bændakonum verði tryggt allt að þriggja mánaða fæðingarorlof við barnsfæðingu.“ Þar með yrðu kannaðar allar þær leiðir sem tiltækar eru.

Ég heyri það á máli hv. þm., að þeir hafa ekki kynnt sér þessi lög eða þá stöðu sem þessi lífeyrissjóður er í. Það eru milli 90 og 100 lífeyrissjóðir í landinu, og að þetta sé sjötti sterkasti sjóðurinn, það fer eitthvað á milli mála. Ég held að það sé langt frá því þó að ég hafi ekki alveg í höfðinu hvernig þetta er. Ég held að það sé langt frá, enda er þetta sjötta árið síðan var farið að borga í sjóðinn og fyrstu fjögur árin var þetta í áföngum. Það var bara 1/4 af greiðslunum fyrsta árið, helmingur næsta ár, það fór ekki full greiðsla í þennan sjóð fyrr en árið 1974. Og þá geta menn séð hvað þetta er sterkur sjóður, þar sem þegar þessi lög voru samin og samþ. var ekki gert ráð fyrir að hann gæti valdið hlutverki sínu fyrr en í ársbyrjun 1986. En til fróðleiks ætti ég e.t.v. að lesa upp 19. gr. laganna sem er þannig, með leyfi forseta:

„Til ársloka 1985 skal fé til lífeyrisgreiðslna samkv. 18. gr. greitt að 37.5% af Stofnlánadeild landbúnaðarins en 62.5% úr ríkissjóði. Frá 1. jan. 1986 skal Lífeyrissjóður bænda standa undir lífeyrisgreiðslum þessum.“

Ég vil bara biðja flm. að athuga þetta, og það hefði verið miklu skemmtilegra að lesa yfir lögin áður en þáltill. var samin.