19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar. — Ég verð að segja að ég varð dálítið óþægilega undrandi við orð hv. 3. þm. Norðurl. e., og ég vil tjá honum það og öðrum hv. þm. að það er algjörlega óréttmæt ásökun að flm. hafi ekki kynnt sér lögin um Lífeyrissjóð bænda. Ég hef lesið þau yfir og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og ég veit það raunar, það er rétt hjá hv. þm. að þessi lífeyrissjóður verður ekki fullmegnugur einn og óstuddur að standa undir þessum greiðslum, sem honum er ætlað, fyrr en árið 1985. Engu að síður liggur sú staðreynd fyrir að þegar eru hafnar greiðslur úr sjóðnum, að vísu í smáum stíl, og ég skal ekki uppáleggja þeim neina ákveðna upphæð í þessu, lífeyrissjóðsmönnum. Þeir sníða sinn stakk eftir vexti þarna, og ég endurtek að ég tel ekki óeðlilegt að þessi samtök bænda, sem vísað er til í till., geri sinar till. og athugasemdir. Það er rétt, hv. þm. las upp þessa lagagr., ég hef lesið hana líka og þarf ekki að lesa hana aftur.

Ég verð að lýsa því yfir, að mér finnst ansi hart ef bornar eru til baka upplýsingar sem ég hef frá forsvarsmönnum bændasamtaka og Lífeyrissjóðs bænda sjálfs, og ég vil ekki gera mér það að góðu að ég geti ekki treyst þeim upplýsingum sem þarna eru fyrir hendi. Ég vil líka taka fram og endurtaka, að þetta um styrkleika sjóðsins hef ég nú bara úr Tímanum. Ég las mjög viðamikla grein upp á 2–3 siður eftir Jóhannes Nordal, þar sem voru 3–4 töflur, mjög smátt skrifaðar, og þar var Lífeyrissjóður bænda í áttundu röð að styrkleika hvað eignir snertir. Þetta er staðreynd sem þá verður að verða hrakin betur en hér hefur verið gert, svo að ég geti fallist á það. Ég tók það fram áðan að ég var leiðrétt þegar ég spurði forsvarsmenn Lífeyrissjóðsins hvort þetta mundi vera rétt, og satt að segja kom það mér nokkuð á óvart að Lífeyrissjóður bænda, svo ungur sem hann er, skyldi þegar vera kominn í áttundu röð hvað snertir eignir. Hann sagði, svo að ég hafi rétt eftir honum: Ætli hann sé ekki í sjötta sæti fremur en áttunda? (Gripið fram í: Hver sagði það?) Ég get upplýst hv. þm. um það. Ég vil það ekki hér, því að það gæti hugsanlega komið viðkomandi starfsmanni illa sem sýndi mér lipurð og skilning á erindi mínu, þegar ég leitaði til hans.

En ég endurtek og ítreka: Þessi till. felur ekki í sér meiri hættu en þá að skjóta þessu til bænda sjálfra, hver sé hugur þeirra til þessa máls og hverjar þeirra till. Og mér finnst bændum lítt sæmandi að vilja skjóta sér svo algjörlega undan þessu máli eins og hér hefur komið fram í máli bænda fyrst og fremst, og vil ég þá enn benda á ummæli hv. þm. Steinþórs Gestssonar, að vitanlega eru lífeyrissjóðir tryggingamál, þeir eru tryggingamál svo greinilega að ekki verður um villst.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. En ég vænti þess að þessi úrtölusjónarmið, að því er mér finnst að ósekju og óverðuglega, sem hér hafa komið fram, muni ekki ráða framvindu þessa máls.