19.02.1976
Efri deild: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

168. mál, flugvallagjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í fjárlögum fyrir árið 1976 er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af flugvallagjaldi nemi 235 millj. kr. á þessu ári. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. fjárlaga að til þess að sú áætlun stæðist yrði að framlengja gildistíma lagaákvæða um flugvallagjald, en þau renna út um næstu mánaðamót. Flugvallagjald var sem kunnugt er sett með l. nr. 11 1975 um ráðstafanir í efnahags- og fjármálum. Tilgangur þeirra lagaákvæða var tvíþættur: annars vegar flugvallagjaldið lagt á sem liður í þeim almennu ráðstöfunum í efnahagsmálum sem gerðar voru þá, en hins vegar til þess að þeir, sem um flugvellina ferðuðust greiddu eitthvert gjald fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.

Flugvallagjald það, sem nú er innheimt, nemur 2500 kr. fyrir hvern fullorðinn farþega frá Íslandi til annarra landa, en vegna ferða innanlands hefur gjaldið almennt numið 350 kr. fyrir fullorðna, þó þannig að lægra gjald er innheimt vegna ferða til og frá öðrum flugvöllum en í Reykjavík og Keflavík.

Með frv. því, sem hér er lagt fram, er lagt til að flugvallagjaldið frá Íslandi til útlanda verði framlengt ótímabundið, en verði lækkað verulega frá því sem nú er. Lagt er til að gjaldið fyrir utanferðir lækki úr 2 500 kr. í 1 500 kr. og verður gjaldið eftir þessa breytingu hliðstætt sams konar gjöldum í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi. Í farþegaflugi innanlands og til Færeyja og Grænlands er hins vegar lagt til að flugfélögunum verði gert að greiða 200 kr. fyrir hvern farþega. Flugfélögunum er heimilt að hækka verð farmiða í innanlandsflugi sem gjaldinu nemur og skal gjaldið vera ósérgreint í farmiðaverðinu. Noti flugfélögin heimild sína til að hækka farmiðaverð sem gjaldinu nemur mun farmiðaverð eins og það er í dag til og frá Reykjavík lækka um 150 kr. við þessa breytingu. Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á að áætlað er tekjur ríkisins af flugvallagjaldi í innanlandsflugi samkv. þessu frv. nema 40 millj. kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um frv., vísa til grg. og legg til að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.