19.02.1976
Neðri deild: 62. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Það er um þingsköp sem ég vildi ræða. Hér hefur verið efnt til nýs fundar til þess að taka fyrir mál sem rétt var verið að ljúka við atkvgr. um til 3. umr. Þetta er afbrigðilegt og ég sé enga ástæðu til að taka fyrir 3. umr, þessa máls með þessum hætti. Það er ekkert sem rekur á eftir með það. Ég get því ekki fallist á, að 3. umr. málsins fari fram með þessum hætti, og tel eðlilegt að málið komi á dagskrá eins og þingsköp gera, ráð fyrir og með fullum og eðlilegum fyrirvara og hér geti farið fram 3. umr. um málið. Ég óska því eftir að hæstv. forseti fallist á það að falla frá því að taka fyrir 3. umr. um málið nú á þessum aukafundi og málið verði tekið fyrir á næsta auglýstum fundi með venjulegum hætti og þá tekið til 3. umr. Þetta er eindregin ósk mín. Annars get ég ekki fallist á að afbrigði verði veitt.