28.10.1975
Sameinað þing: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1976

Fjmrh. (Matthías Á, Mathiesen) :

Herra forseti. Það er fyrst sem svar til hv. 5. þm. Suðurl., að það er rétt skilið hjá honum að miðað við þá áætlun, sem gerð hefur verið af Hagstofunni um landbúnaðarframleiðslu, þá þyrfti 870 millj. kr. til viðbótar til hámarksverðtryggingar á verðlagstímabilinu frá 1. sept. 1975 til 1. sept. 1976. En eins og hæstv. landbrh. vék að áðan hyggst hann beita sér fyrir innbyrðis breytingum á þeim reglum sem gilda í þessum málum. Er talið að á þessu ári muni vera innan við einn milljarð sem fari til útflutningsuppbóta og gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrv. að reynt verði að stefna að því að sama tala verði til útflutningsuppbóta á næsta ári. En ef sú regla, sem er í gildi, væri að fullu nýtt, miðað við framleiðsluna, þá þyrfti 870 millj. kr. til viðbótar við þá tölur sem í fjárlagafrv. er. Þetta er því rétt skilið hjá hv. þm.

Í sambandi við fyrri aths. hv. þm. og þær hugleiðingar með hvaða hætti hann óskaði eftir að fram kæmi í fjárl. og ríkisreikningi það sem raunverulega rynni í ríkissjóð í sambandi við áfengissölu og þar á móti áfengisneyslu, — ég held, að það yrði mjög erfitt að koma reikningum þannig fyrir. Ég geri ráð fyrir að það sé enginn aðili sem mæli með hagnaði af áfengissölu til ríkissjóðs. Þetta eru hins vegar staðreyndir lífsins, að hér er um að ræða sölu á áfengum drykkjum, og menn geta svo deilt um hvort það eigi að vera á vegum ríkisins eða á vegum einstaklinga með þá sérstakri skattlagningu frá ríkinu. Þetta er auðvitað allt saman mikið matsatriði, og ég get sagt fyrir mitt leyti að það er vissulega engin sérstaklega mikil ánægja að því að leggja fram einhverjar tölur um tekjur í ríkissjóð sem byggjast á slíkri neyslu. En þetta eru staðreyndir og fram hjá því verður ekki komist, og þær tölur verða að sjálfsögðu að vera í ríkisbókhaldi með sama hætti og önnur uppsetning sem þar er.

En út af því, sem þeir hv. fjvn.-menn, sem hér töluðu áðan, sögðu, þá er eitt sameiginlegt með því, sem frá þeim kom, að annað veifið ræddu þeir um að það skorti aðhald hjá ríkissjóði, það væri um óhemjumikla eyðslu að ræða. Í hinu orðinu var rætt um að það vantaði mikið fjármagn, sérstaklega ræddi hv. 5. þm. Vestf. um hinar dreifðu byggðir og þangað þyrfti mjög mikið fjármagn. Það er ekki hægt að gera allt í einu, bæði að draga saman og eyða. Það verður ekki möguleiki á því, en auðvelt að setja slíkt fram.

Hv. 5. þm. Vestf. ræddi um fjármálaseníin úr Reykjaneskjördæmi. Það er auðvitað alveg rétt, þar eru þau mörg, bæði innan þings og utan. En þar finnast nú vart allsherjarséní eins og á Vestfjörðum.

Hv. 11. landsk. þm. gerði samanburð á hækkun fjárl. frá 1975 og fjárlagafrv. nú fyrir árið 1976 og sagði að hér væri um met að ræða. Það er alveg hárrétt hjá honum. Hækkun fjárlaga frá 1974 til fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er 95.2%. Hækkun fjárl. frá 1971 til 1973 var hins vegar 94.7% þannig að hér er aðeins um vinning að ræða. Ég frábið mig þó þeim ástæðum sem voru fyrir hækkun fjárlagafrv. fyrir árið 1975, því að vissulega hafði þessi hv. þm. haft mikil áhrif á gang fjármála frá því á haustþingi 1971 og allt fram til ársins 1974. Þeir, sem muna, muna mjög vel afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1974 upp á 29 milljarða 402 millj. kr. Menn vissu mjög vel að þar skorti þó nokkuð mikið á. Þegar fjárlagafrv. var svo lagt fram haustið 1975, þá sló það að sjálfsögðu öll met, enda afleiðing af stjórnarstefnu sem hv. 11. landsk. þm. hafði stutt og verið einn af forustumönnum í sama bandi við fjármálin hér á Alþ. sem formaður fjvn. Hækkunin var hvorki meira né minna en 00.6%, og það datt ekki nokkrum manni í hug að reyna að draga dul yfir það. En það verður að leita orsakanna þegar menn gera sér grein fyrir þeirri hækkun sem þá varð. Hækkunin frá því í fyrra og þar til nú er hins vegar 21.5%, og það verður að fara aftur til ársins 1970 til að finna minni hækkun fjárl. á milli ára. Ef við hins vegar bærum saman, sem er kannske það raunhæfa, fjárlög og ríkisreikning, þá komumst við líka að þeirri niðurstöðu að hækkun fjárlagafrv. fyrir árið 1976, miðað við áætlaðan ríkisreikning 1975, þá er hækkunin 12.5% Og það verður að fara aftur til ársins 1970 til þess að fá lægri samanburðartölu þar á móti. En það er ekki öll sagan sögð með þessu. Lítum á tölurnar frá 1971–1973, þ. e. 11 milljarða 23 millj. sem hækka upp í 21 milljarð 457, þetta er 94.7% hækkun. Hver verður hækkunin á verðlaginu á þessu tímabili? Hver verður hækkun framfærslukostnaðar á sama tímabili í prósentum? (KP: Hvar er hæstv. samgrh.?) Hann er nú horfinn úr salnum, en vinur hans situr hér og meðtekur að sjálfsögðu fyrir hann það sem hann mun gjarnan láta hann vita. Hækkunin á framfærslukostnaðinum á þessu tímabili er 14.3%, þ. e. hækkun framfærslukostnaðar á árunum 1971–1973, 14.3%, en hækkun fjárlaga á sama tíma um 94.7.% Hver er svo framfærslukostnaðarhækkunin frá 1974–1976? Hún er 111.1%, en á sama tíma hækka þó fjárl. ekki nema 95.2%. Það liggur í augum uppi að á fyrra tímabilinu er hækkun fjárl. margfölduð miðað við þá verðlagsþróun sem þá var í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til að svara fleiri aths. úr ræðum hv. þm. Eins og ég gat um áðan voru þar ýmist um að hér væri ekki um nægjanlegt aðhald eða að menn væru ekki reiðubúnir til þess að veita nægjanlegt fjármagn í ákveðnar framkvæmdir. Ég held að það verði ákaflega erfitt að ná þessum tveimur sjónarmiðum saman og það yrðu skemmtileg fjárlög sem þeir aðilar sem hér töluðu áðan, mundu koma saman ef þeim væri falið að gera það.