23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Íslendingar höfðu ekki lengi haft innlenda stjórn í landinu þegar alþm. notuðu í fyrsta skipti rétt sinn til þess að flytja till. um vantraust árið 1909. Allar götur síðan þá hafa till. um vantraust á einstaka ráðh. eða heil rn. verið fluttar öðru hverju og hafa fáar ríkisstj. komist hjá því að ganga undir slík próf. Till. um vantraust hafa þó aldrei fellt meirihlutastjórnir, þær hafa fallið án þess, heldur hefur stjórnarandstaða jafnan beitt þessu vopni til þess að knýja fram útvarpsumr. án tafar þegar mjög alvarleg vandamál hafa blasað við þjóðinni. Á þann hátt geta stjórnarandstöðuflokkar gegnt skyldum sínum best og af mestri áherslu.

Eins og einn þm. orðaði það í byrjun aldarinnar hér í þessum sama sal, gagnrýnum við stjórnarandstæðingar nú ríkisstj. fyrir „ístöðuleysi gagnvart útlenda valdinu og fyrir lélega stjórn og athafnaleysi innanlands.“

Ekki verður á þessu herrans ári sagt að íslendingar búi við frið eða farsæld. Hvarvetna blasa við okkur hrikaleg vandamál sem við sjáum engan veginn fram úr á þessari stundu.

Í landhelgismálinu eigum við í ófriði við voldugan nágranna og sjómenn okkar hætta lífi sínu við gæslustörf dag hvern.

Efnahagur þjóðarinnar er svo bágborinn að við lífum að heita má á erlendu lánsfé, og það þykir varla tíðindum sæta þótt boðið sé út nýtt milljarðalán fyrir okkur suður í París. Innanlands hefur 50% verðbólga á ári riðið húsum, valdið stórfelldri röskun á þjóðlífinu, ýtt undir spákaupmennsku og brask og stóraukið misrétti landsmanna.

Nú standa sakir þannig, að þótt launþegar fái alls enga kauphækkun er samt vitað um 13–17 % verðhækkanir sem eru fram undan fyrir 1. okt. n.k. og fara tölurnar eftir því hvaða stofnun hefur reiknað þær út.

Svo til öll framleiðsla og mestöll þjónusta liggja niðri vegna verkfallanna, og loðnan syndir lítt trufluð með landi. Barátta launþegasamtakanna snýst nú ekki lengur um bætt kjör frá því, sem er í dag, heldur fyrst og fremst um að halda óbreyttum kaupmætti launa í þeirri verðbólgu sem þegar er sjáanleg og mælanleg fram undan.

Meðan öllu þessu fer fram hefur Alþ. setið aðgerðalítið og haldið stutta fundi fimm daga víkunnar. Hér eru ekki haldnir 28 klst. fundir. Er þá að undra þó að stjórnarandstaðan blási í þá lúðra, sem hæst hljóma, og knýi ríkisstj. til umr. frammi fyrir landslýð um það, hvert þessi óheillaþróun muni leiða og hvað sé til ráða til þess að spyrna við henni.

Tilefnið er ærið þótt aðeins væru talin efnahags- og utanríkismál sem ég mun koma aftur að innan skamms. En fleira kemur þó til. Það hefur nú undanfarið komið í ljós, sem kunnuga hefur lengi grunað, að hér á landi hafa starfað viðtækir og voldugir hringar afbrotamanna sem stundað hafa stórfellt smygl, fjármálasvindl og aðra glæpastarfsemi, e.t.v. allt til manndrápa. Enda þótt dugandi og samviskusamir löggæslumenn starfi að rannsókn þessara mála hafa þau leitt í ljós alvarlegar veilur á dómkerfi ríkisins. Þetta kerfi hefur ekki brugðist við hinum mikla vanda með árverkni og festu, eins og nauðsynlegt var. Það hefur ekki sent nauðsynlegan liðsauka til að hraða og ljúka þessum málum, heldur hefur það haldið á sumum þeirra með seinagangi og tregðu. Smyglmálið mikla og það, sem því fylgir, getur reynst þjóðinni hættulegra, þegar fram líða stundir, en allt annað sem við deilum um í dag á sviði efnahagsmála og jafnvel utanríkismála. Er ekki betra að vera aðþrengd þjóð í samfélagi, sem er heiðarlegt, réttlátt og heilbrigt, heldur en að vera efnuð þjóð í samfélagi sem er mergsogið af spákaupmennsku, glæpum og misrétti?

Afbrotahamfarir geta valdið þjóðinni meira tjóni en náttúruhamfarir, og hvers vegna eru þá ekki viðbrögð yfirvalda svipuð? Af hverju mætir ekki dómsmálakerfið þeim ótíðindum, sem gerst hafa, með því að fjölga rannsóknarliði, aðskilja lögreglu og dómstóla og hindra að málin rykfalli hjá saksóknara? Það er ógerningur að líta yfir svið íslenskra þjóðmála í dag án þess að gefa þessum málum líka gaum og draga þau fram, því að enn er ekki upplýst hvert hin sanna mafía hér á landi hefur teygt arma sína. Það skiptir meginmáli að þjóðin geti borið óskorað traust til allra þátta dómsvaldsins þegar slík mál koma fram í dagsljósið.

Efnahagslíf okkar íslendinga er þeim annmörkum háð, að hér eru hagsveiflur meiri en gerist með öðrum þjóðum. Því er það að góðæri og velmegun truflast alltaf öðru hverju af miklum efnahagserfiðleikum þegar þjóðin verður að taka á sig þungar álögur til að rétta hag sinn. Undanfarin tvö ár hefur þungbær kreppa gengið yfir allan hinn vestræna heim og höfum við ekki farið varhluta af henni. Nú er sjáanlegur verulegur bati hjá mörgum öðrum þjóðum, en hér hefur sáralítil breyting orðið enn og spáð er áframhaldandi erfiðleikum. Þjóðin þekkir þessar sveiflur og allur þorri landsmanna hefur ekki skorast undan því að bera sínar byrðar, heldur sýnt þolinmæði og langlundargeð. En eina kröfu gerir þjóðin til valdhafa sinna, og hún er að byrðunum sé réttlátlega dreift og misrétti þjóðfélagsins a.m.k. ekki aukið á slíkum tímum. Á þessu hefur orðið alvarlegur misbrestur í tíð núv. ríkisstj. Misréttið hefur farið vaxandi á mörgum sviðum og þess vegna skortir mikið á að þjóðin beri traust til stjórnarinnar.

Það fer ekki á milli mála að bilið milli þeirra, sem eru vel efnaðir, og hinna, sem eru litlum efnum búnir, hefur farið vaxandi. Enda þótt reynt hafi verið að hygla láglaunafólkið dálítið umfram aðra hefur hlutskipti þess samt sem áður farið versnandi, en margir hinna, sem alltaf bjarga sér, hafa beinlínis grætt á verðbólgunni. Þá hefur misrétti í skattamálum farið sívaxandi og er það nú svo stórfellt að það spillir trausti manna á þjóðfélaginu og dregur úr vilja þeirra til að taka á sig byrðar. Félög og fyrirtæki greiða sáralítinn og oft engan tekjuskatt, svo að dæmi sé nefnt. Þúsundir einstaklinga lifa góðu lífi, en greiða samt engan tekjuskatt, og er þá von að hinum gremjist, sem skattinn greiða. Enn er að nefna það misrétti í almennri aðstöðu til að bjarga sér og sínum sem kemur skýrast, þó á örlítið öfgakenndan hátt, fram í því að fjárglæframenn skuli geta „spilað á bankakerfið“ í a.m.k. áratug og ráðskast með milljónir af sparifé landsmanna, eins og einn af aðstoðarbankastjórum Seðlabankans hefur nýlega viðurkennt að hér hafi gerst

Fáir hafa orðið eins fyrir barðinu á vaxandi misrétti undanfarinna ára og gamla fólkið sem hefur mátt þola að verðbólgan æti upp lífeyri þess. Það er sannarlega ánægjulegt að verkalýðshreyfingin skuli nú krefjast úrbóta á þessu sviði og fá þær, enda er þjóðfélagsleg skylda að gæta hagsmuna gamla fólksins. Við megum aldrei láta það bera byrðar verðbólgu og kreppu meðan yngri kynslóðir hirða verðbólgugróða af íbúðum sem eru margar hverjar reistar að verulegu leyti fyrir sparifé eldri kynslóðar. Það er spá mín að verkföllin, sem nú standa yfir, muni verða talin merkust fyrir það, að þau voru notuð til að knýja fram veigamiklar umbætur á lífeyrismálum til að bæta hag lífeyrisþega og endurskipuleggja lífeyrismál þjóðarinnar í heild. Þetta eitt er mikill árangur sem þjóðin mun lengi njóta góðs af. Þessi árangur næst að vísu með því einu að ganga á stóran stofn sparifjár — ekkert fáum við fyrir ekkert — sem notaður hefur verið til fjárfestingar, en það er vandamál sem við verðum að leysa á annan hátt í framtíðinni.

Ríkisstj. hefur átt við mikla erfiðleika að etja og hún hefur beitt gegn þeim hefðbundnum hagstjórnartækjum með sorglega litlum árangri. Hitt er þó verra, að stjórnarflokkarnir hafa látið það viðgangast að í stjórnarráð þeirra hefur margs konar misrétti milli landsmanna farið ört vaxandi. Það hefur verið vaxandi misrétti í tekjuskiptingu. Það hefur verið vaxandi misrétti í skattamálum. Það hefur verið vaxandi misrétti milli ungra og gamalla. Það hefur verið vaxandi misrétti milli þeirra fáu, sem kunna á kerfið, og hinna mörgu, sem bera kerfið uppi með vinnu sinni. Af þessum sökum hefur vantraust á ríkisstj. verið mikið og fer vaxandi eftir því sem mánuðir hafa liðið án þess að spyrnt væri gegn slíkri óheillaþróun.

Ef ríkisstj. vill breyta vantrausti almennings í traust, þá verður hún að ráðast gegn meinsemdum hins vaxandi misréttis og uppræta þær. En því hefur ekki verið að heilsa, því að launþegar hafa orðið að beita allsherjarverkfalli til að knýja fram umbætur er veita gamla fólkinn nokkra vernd gegn óréttlæti óðaverðbólgunnar. Af hverju gerði ríkisstj. ekki þessar breytingar á lífeyrissjóðunum með sinn mikla þingmeirihluta fyrir ári? Af hverju hefur stjórnin ekki gert teljandi umbætur í skattamálum á þriggja missira starfstíma? Alþfl. hefur flutt till. varðandi báða þessa stóru málaflokka og gert grein fyrir hugmyndum sínum og till., og það hafa raunar fleiri gert. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram sinn skerf. En þeir sitja eftir sem með völdin fara.

Aðdragandi þeirra verkfalla, sem nú standa yfir, hefur verið með öðru móti en oftast áður og er mikils vert að allir geri sér grein fyrir þeirri þróun. Það var ljóst þegar eftir samningana í fyrrasumar að nýir stórsamningar mundu verða nú í byrjun þessa árs. Forusta Alþýðusambands Íslands tók því snemma að búa sig undir þessa samninga og ræða þær leiðir sem fara mætti að þeim. Kaupmáttur launa hefur um tveggja ára skeið farið ört lækkandi, svo að litill vandi væri að rökstyðja miklar kröfur um kauphækkanir, jafnvel þótt ekkí væri reynt að fá allt það bætt upp í einn sem tapast hefur. En augljóst var og er að mikil bein kauphækkun á þessu ári mun óhjákvæmilega leiða til þess, að verðbólgan magnast enn meir og getur aftur farið upp í 50% hraðann eða svo. Sú þróun væri þjóðarógæfa og kauphækkanirnar mundu fljótt hverfa í hítina. Forustumenn Alþýðusambandsins völdu því aðra og ábyrgari leið. Þeir hófu að undirbúa tillögugerð um margvíslegar þjóðfélagslegar aðgerðir sem ríkisvaldið gæti gert og mundu bæta hag launþega svo að þeim kæmi að raunhæfum notum. Fór svo að þessar till. voru ræddar og endanlega afgr. af Alþýðusambandinu um mánaðamótin nóv.des. s.I.

Með þessum till. má segja að verkalýðshreyfingin hafi rétt fram höndina og boðist til að taka ábyrgan þátt í mótun efnahagsaðgerða sem gætu komið í stað og gert svipað gagn og krónuhækkanir kaups.

Í þessu sambandi er fróðlegt að leiða hugann rúmlega áratug aftur í tímann. Þá sat að völdum ríkisstj. Bjarna Benediktssonar, viðreisnarstjórnin svonefnda. Henni tókst að gera viðtækt samkomulag um ráðstafanir í efnahagsmálum við verkalýðshreyfinguna og afstýra þá um sinn stórátökum á vinnumarkaðinum. Þá brunnu húsnæðismálin hvað mest á almenningi og var gert samkomulag um stórfelldar íbúðabyggingar fyrir frumkvæði ríkisins og í samvinnu við verkalýðsfélögin. Þúsundir manna búa í dag í góðum og tiltölulega ódýrum íbúðum sem eru ávöxtur af þessu júnísamkomulagi, eins og það hefur verið kallað.

Þegar Alþýðusambandið bauð fram till. sínar og hugmyndir um efnahagsmál í byrjun des. gafst ríkisstj. tækifæri til að gera annað júnísamkomulag, grípa til margvíslegra efnahagsráðstafana er hefðu létt lífsbaráttu launþega og dregið verulega úr misrétti, en forðað þjóðinni frá þeim átökum er nú hafa dunið yfir. Því miður bar ríkisstj. ekki gæfu til að skilja hvílíkt tækifæri henni bauðst, og hún missti af því. Till. voru ræddar stuttlega og undirtektir ráðh voru litlar, að því er forustumönnum Alþýðusambandsins fannst.

Þróun þessa máls varð að mestu mistökum sem ríkisstj. hefur gert, og ekkert gat hindrað verkföllin þar eð þetta tækifæri var ekki notað. Ríkisstj. hefur það eitt sér til afsökunar, að landhelgismálið hafi tekið mikinn tíma á þessum sömu vikum. Það er að sjálfsögðu rétt, en það er ekki boðleg afsökun. Ráðh. eru 8 talsins og ráðgjafar þeirra legio, svo að það var óverjandi að vanrækja kaupgjaldsmálin eins og gert var. Og stæðum við ekki sterkari í landhelgismálinu ef friður ríkti í landinu og þjóðinni hefði auðnast að leysa vandamál tekjuskiptingar og annan efnahagsvanda eins og þroskuð þjóð með ríka ábyrgðartilfinningu á að gera?

En nú er komið sem komið er. Verkföll standa yfir og reynt er að ná samkomulagi um hóflegar kauphækkanir til viðbótar þeim árangri sem náðist í lífeyrismálum. En hvað er þá verkalýðsfélögunum óhætt að fara fram á án þess að þau hætti á að valda stórkostlega aukinni verðbólgu? í stefnuræðu sinni í upphafi þings, í októbermánuði, sagði forsrh. þetta: „Horfur um hag þjóðarbúskaparins eru nú þannig að kjaraákvarðanir fyrir næstu ár geta aðeins miðast við að tryggja núverandi rauntekjur heimilanna og fulla atvinnu.“ Til þess að þetta, sem forsrh. telur vera mögulegt, geti gerst þurfa kauphækkanir nú að sjálfsögðu að vera eins miklar og þær verðhækkanir sem fram koma á næstu mánuðum fram eftir árinu og þegar er vitað um, að ekki sé talað um það sem kann að bætast við. Sú miðlunartillaga, sem sáttanefnd lagði nýlega fram, nær ekki þessum tölum og gerir því ráð fyrir að rauntekjur heimilanna falli niður fyrir það, sem þær voru seint á s.l. ári, en forsrh. taldi mögulegt að það kæmi ekki fyrir. Var því sannarlega ekki eðlilegt að verkalýðsfélögin gætu sætt sig við það með tilliti til þeirra yfirlýsinga sem fram höfðu komið. Ríkisstj. missti af gullnu tækifæri til að gera nýtt júnísamkomulag og fyrirbyggja þau verkföll er nú standa yfir. Það voru mikil mistök og fyrir þau uppsker ríkisstj. vantraust landsmanna.

Sjálfstfl. og Framsfl. hafa áður setið saman í ríkisstj. árin 1950–1956. Þá komu fljótlega fram svo sterkar andstæður á milli flokkanna og svo mikið kapphlaup hagsmunaafla að samstarfið varð aldrei heilt og slitnaði tvívegis upp úr því þegar eitt ár var eftir af kjörtímabilinu. Ætli það fari ekki eins að þessu sinni? Þeir treysta ekki hvorir öðrum, og því getur þjóðin ekki treyst stjórn þeirra.

— Góða nótt.