23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. áheyrendur. Hér er til umr. till. um vantraust á ríkisstj. og gefst þá gott tækifæri til að ræða þau helstu málefni, sem mestu skipta íslensku þjóðina, og jafnframt er ekki úr vegi að víkja nokkuð að þeim ávirðingum sem stjórnarandstæðingar bera ríkisstj. á brýn og eiga að mati þeirra að valda því að hún skuli fara frá. Eftir því sem fram hefur komið í kvöld eru það einkum tvö málefni sem talið er að farið hafi illa úr hendi hjá ríkisstj., en þau eru landhelgismálið og efnahagsmálin. Og m.a. telja stjórnarandstæðingar að ríkisstj. beri ábyrgð á því verkfalli sem nú stendur yfir. Mig langar að athuga þetta örlítið nánar og vík þá fyrst að landhelgismálinu.

Það var auðvitað gefið mál að einhliða útfærsla íslensku landhelginnar í 200 sjómílur mundi mæta verulegri andspyrnu. Hitt höfðu menn nokkra von um, að Hafréttarráðstefnan mundi ekki dragast svo sem raun hefur á orðið. Framsfl. beitti sér þess vegna fyrir því að útfærslan skyldi gerast síðari hluta árs 1975, en ekki fyrir árslok 1974, eins og margir höfðu haft á orði. En þær vonir, sem íslendingar bundu við lok Hafréttarráðstefnunnar, rættust sem kunnugt er ekki, og m.a. vegna ástands fiskstofnanna gátum við ekki dregið útfærsluna. Skapaðist því fljótlega á miðunum það ástand sem við öll þekkjum.

Eftir að skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar var birt fékkst staðfesting á því, sem menn hafði raunar áður grunað, að fiskstofnarnir á miðum okkar voru í yfirvofandi hættu vegna ofveiði. Brýnasta verkefni okkar íslendinga og þar með ríkisstj. hlaut því að vera að vernda þá með öllum tiltækum ráðum. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar litu svo til, að raunhæfasta friðunaraðgerðin fælist í því að semja um miklar aflatakmarkanir við þær þjóðir sem undanfarið hafa fiskað á þessum miðum. Því var samið við belga um 6 þús. tonna ársafla og vestur-þjóðverja um veiðar á þeim fiskstofnum sem helst voru taldir þola veiðarnar, þ.e. ufsa og karfa. Nú eru í undirbúningi samningar við norðmenn og færeyinga um mjög takmarkað aflamagn til skamms tíma.

Ég leyfi mér að varpa fram þeirri spurningu, hvernig menn héldu að ástandið væri á miðunum ef við værum í ófriði við allar þessar þjóðir og hvort mönnum finnist ekki að Landhelgisgæslan hafi nóg að gera eins og er að berjast við bresku landhelgisbrjótana, þótt hún þurfi ekki til viðbótar að gæta allra hinna líka.

Auk þess hafa þessir takmörkuðu samningar einnig þá þýðingu samkv. mati okkar, að þeir sýna umheiminum að íslendingar eru ekki svo einráðir að ómögulegt sé við þá að semja. Mun það vafalaust hafa heillavænleg áhrif á niðurstöður Hafréttarráðstefnunnar sem væntanlegar eru síðari hluta þessa árs.

Ég dreg enga dul á það og hef aldrei gert það, að ég hef talið að raunhæfasta friðunaraðgerðin gagnvart bretum hefði einnig átt að geta náðst eftir samningaleiðinni. Mér er ljóst að um þetta eru mjög skiptar skoðanir meðal fólks á landinu og vel má vera að þeir séu fleiri sem vilja enga samninga. En hitt er svo annað mál, að ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar í þeim viðræðum, sem farið hafa fram við breta, að þeir hafi getað fallist á neitt viðunandi aflamagn, og þess vegna hafa samningar alla tíð verið útilokaðir.

Það olli mér vægast sagt vonbrigðum þegar Hattersley, sá sem nú fær vart vatni haldið út af áhyggjum af framtíð íslensku ríkisstj., skyldi haldinn þeirri blindu í samningaviðræðum okkar að unnt væri að framlengja samninginn frá 1973 því sem næst óbreyttan, á sama tíma sem breskir fiskifræðingar féllust í öllum meginatriðum á niðurstöður íslenskra starfsbræðra sinna um ástand þorskstofnsins. Þá þegar var ljóst að bretar höfðu ekkert lært og samningar við þá mundu verða erfiðir. Þegar svo bretar bættu gráu ofan á svart með því að senda inn herskipin, auka togaraflotann og skipuleggja smáfiskveiðar á alfriðuðu svæði, var sýnt að slíkir samningar kæmu ekki til greina. Þess vegna höfum við nú slitið stjórnmálasambandi við þá. Það er vissulega alvarleg aðgerð, en hún var óhjákvæmileg eins og málin stóðu og ætti að færa öðrum þjóðum heims sanninn um að okkur er full alvara í þessu máli.

Það má vel vera að stjórnarandstæðingar hefðu treyst sér til að halda betur á þessum málum en við höfum gert. En ég efast stórlega um að ástandið væri betra þótt þeirra ráðum hefði verið fylgt og alla vega hafa þeir nú fengið sitt indæla stríð. Við skulum vona að þetta fari allt vel, og ég er sannfærður um að við vinnum sigur að lokum. Það er bara að hann verði ekki of dýru verði keyptur.

Bent hefur verið á það í blaðagrein hér af a.m.k. einum manni, að við erum með fiskverndaraðgerðum okkar ekki einvörðungu að sjá eigin hag borgið. Við erum jafnframt að vernda matvælaframleiðsluna fyrir hungraðan heim. Undir þetta vil ég tala. Og hverjir ættu í rauninni að skilja þetta betur en bretar, — eða eru þeir e.t.v. búnir að gleyma því hvað Íslandsfiskurinn reyndist þeim mikil björg í bú á styrjaldarárunum þegar íslenskir sjómenn hættu og fórnuðu lífi og limum til að færa þeim þessa björg heim?

Ég hef nú í stórum dráttum lýst því sem gerst hefur í landhelgismálinu og segi að lokum að ríkisstj. hefur ekkert að fela og ekkert að skammast sín fyrir í sambandi við það. Og ég er sannfærður um að þjóðin skilur þetta þegar hún athugar málið í ró og næði og án áhrifa frá æsingamönnum sem nota vilja þetta lífshagsmunamál okkar í annarlegum tilgangi.

Um efnahagsmálin vil ég segja það, að skylt er að játa að ýmislegt hefur farið þar á annan veg en menn hefðu kosið. Er þá fyrst að nefna verðbólguna sem hefur ætt áfram með ógnarhraða. Þó ber að hafa í huga að síðustu mánuðina hefur tekist að veita henni talsvert viðnám, og ríður því á miklu að ekkert verði gert sem eykur snúningshraðann að nýju. Þá er þess og að gæta að viðskiptakjör okkar hafa versnað og aflabrögð miðað við sókn og tilkostnað minnkað. Auðvitað rýrir þetta tekjur þjóðarheimilisins, og það lýsir því ekki miklu raunsæi að halda því fram að allt geti verið óbreytt, allir geti haft jafnmikla peninga til ráðstöfunar og enginn þurfi að slaka á kröfunum í neinu.

Stjórnarandstæðingar klifa á því sýknt og heilagt að fjárlögin séu allt of há og þau beri að lækka til þess að fólk geti haft meira fé til ráðstöfunar. Þessir menn vita þó vel að yfirgnæfandi hluti fjárlaganna gengur til óhjákvæmilegra útgjalda, — eða hvaða líðir eru það sem helst ætti að skera niður? Eru það framlög til heilsugæslu, eru það framlög til menntunar eða máske laun opinberra starfsmanna — eða niðurgreiðslur, kannske á að hætta þeim? Það mundi e.t.v. bæta hag fólksins. Svo eru tryggingarnar, þær eru hár liður. Stjórnarandstæðingar telja líklega að þar megi að skaðlausu spara. Þá eru það verklegar framkvæmdir. Þær eru sjálfsagt of miklar að mati þessara ágætu manna. Ég gæti auðvitað nefnt fleiri líði svo sem dómgæslu og réttarfar. Það er eflaust óþarfur flýtir á þeim málum. Þó heyrðist mér það nú ekki á formanni Alþfl. áðan. Hitt kann að vera rétt, að eitthvað megi draga úr öðrum þáttum hins opinbera rekstrar, en ósköp er ég hræddur um að þær upphæðir, sem þannig kynni að mega spara, dygðu skammt til þess að brúa bilið.

Og enn eru gerðar kröfur á hendur ríkinu. En vilja þá stjórnarandstæðingar auka — ekki minnka — hlut ríkissjóðs af tekjum manna. Hér rekur sig eitt á annars horn í málflutningi stjórnarandstöðunnar.

Það er óraunhæft að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að vegna versnandi viðskiptakjara og minna aflamagns hefur fjárhagsstaða þjóðarbúsins versnað undanfarin tvö ár, og þegar undirstaðan bilar verður yfirbyggingin að minnka í bili a.m.k.

Mér kemur í hug gömul saga. Maður nokkur var að mála geðveikrahæli og stóð í stiga. Þá kemur vistmaður til hans og hugar vandlega að því hvað verið er að gera, segir svo allt í einu við málarann: „Haltu þér fast í pensilinn því nú tek ég stigann.“

Athæfi stjórnarandstæðinga minnir mig á þessa hugsun. Þeir ríghalda á pensilinn enda þótt stiginn sé að fara. Raunsærra væri að játa staðreyndir og leggja líð sitt til að komast út úr þeim erfiðleikum sem við er að etja. En e.t.v. er til of mikils mælst af núv. stjórnarandstöðu að hafa raunsæi að leiðarljósi. En skylt er þó að geta þess að þeir eiga þar ekki allir sama vitnisburðinn. Til eru í röðum þeirra raunsæir og góðviljaðir menn sem ætla mætti að fúsir væru til góðra verka, en játa ber að félagsskapurinn er þeim nokkuð erfiður.

Mér dettur ekki í hug að neita því, að til eru í landinu þær stéttir sem óhjákvæmilega verða að fá kauphækkun. En jafnfjarstætt finnst mér hitt vera, að slík kauphækkun eigi að ganga hlutfallslega upp allan stigann, þannig að t.d. ráðh. fái fimmfalda eða hvað það nú er kauphækkun á við þann sem lægst hefur launin. Sem betur fer er það svo að mjög margir búa hér enn við allgóð kjör, og það er býsna táknrænt að sama daginn og þessi vantrauststill. kom fram á Alþ. birtist í málgagni eins af flm. hennar, Alþýðublaðinu, frétt er ber yfirskriftina: „Nota verkfallið til að panta Mallorkaferðir.“ Það eru nú tæpast neinir fátæklingar sem þarna er um að ræða. Einhverjir eru það þó enn, sem hefur fer, sem hafa nokkra peninga aflögu ef þessi frétt er rétt, en að vísu kom hún í Alþýðuhlaðinu.

Við meðferð fjárlaganna á hv. Alþ. héldu líka stjórnarandstæðingar uppteknum hætti og fluttu margar og miklar hækkunartill., bæði um beinar hækkanir og í heimildarformi. Eins brugðust þeir illa við þeim lækkunartill. sem ríkisstj. þó bar fram og hér hefur raunar verið minnst á áður. Þar var þó gullið tækifæri fyrir þá til að feta þann veg sem þeir nú telja hinn eina rétta, að lækka fjárlögin og spara í ríkisrekstrinum. Þetta tækifæri var látið ónotað. En nú tveim mánuðum síðar eru þeir orðnir alvitrir og hafa lausnarorðið á hraðbergi. Tæpast er von að þjóðin geri mikið með svona málflutning. En þrátt fyrir mikla hækkun fjárlaga milli ára er þó hitt staðreynd, sem vert er að gera sér grein fyrir, að þau hafa ekki hækkað í samræmi við verðlagshækkanir, þannig að ríkisstj. hefur óumdeilanlega spyrnt við fótum, og áfram verður að halda á þeirri braut.

Það er vissulega hörmulegt til þess að vita, að á sama tíma sem við eigum í baráttu við erlenda aðila, sem varðar líf eða dauða okkar litlu þjóðar, skulum við standa í innbyrðis styrjöld, sem — ef ekki ræðst fram úr — fyrr eða síðar getur orsakað enn þá alvarlegra ástand í efnahagsmálum okkar heldur en þegar er orðið og er þó nægilega alvarlegt svo að ekki sé meira sagt.

Í þessu sambandi ber enn fremur að minnast á afstöðu atvinnurekenda og þann hátt sem hér er ævinlega hafður á verkalýðssamningum. Það er nákvæmlega sama hvernig á stendur, ávallt er fyrsta svar vinnuveitenda það, að alveg ómögulegt sé að hækka laun um nokkurn skapaðan hlut, atvinnureksturinn þoli nákvæmlega enga hækkun, allt sé á heljarþröminni. Þegar svo búið er að sitja að þeirra dómi hæfilega lengi yfir samningaborðinu, vaka þangað til menn eru komnir að fótum fram, þá kemur í ljós að líklega sé nú kannske hægt að sletta einhverju ofan á kaupið. Á sama hátt byrja verkalýðsfélögin sina kröfugerð á miklu hærri nótum heldur en nokkur von er til að verði gengið að og menn vænta að fá sem niðurstöðu samninga. Hefst síðan hin mikla þráseta þar sem mestu virðist gilda að vera duglegur að vaka og halda út, sem kallað er, og þykir mikið til koma. Allt minnir þetta á þá þekktu frásögn af viðræðum drengjanna í Sumarhúsum um það, hvort presturinn hætti yfirleitt nokkurn tíma að tala, og þá skarplegu niðurstöðu annars þeirra, að þegar prestinn fari að langa í kaffi, þá segi hann amen. Væri nú ekki skynsamlegt hjá báðum aðilum að hætta þessu pókerspili og byrja heldur fyrr á því að gera sér grein fyrir hvað menn raunverulega meina að hægt sé að gera? Ég held að þessum vinnubrögðum þurfi að breyta og því fyrr sem það er gert, þeim mun betra fyrir alla, ekki aðeins hina svonefndu aðila vinnumarkaðarins, heldur ekki siður fyrir þjóðarheildina.

Ég vit svo að lokum minnast með örfáum orðum á þá staðhæfingu stjórnarandstæðinga að verkfall það, sem nú stendur yfir, sé ríkisstj. að kenna. Öllu meiri fásinnu hafa þeir tæpast látið sér um munn fara og skal þó viðurkennt að samkeppnin er hörð.

Er það virkilega meining þessara manna, sem flestir telja sig velunnara og verndara verkafólksins, að fella beri samningsréttinn niður og taka upp þá aðferð að ríkið skammti launin með lögum eða á annan hátt? Ég játa að þessi aðferð þekkist í ýmsum löndum, en satt að segja hélt ég að íslensk verkalýðsfélög óskuðu ekki eftir því.

Það er afar auðvelt fyrir alþýðusamtökin og vinnuveitendur að sameinast um það að varpa vandanum frá sér og gera kröfur á hendur ríkisvaldinu. En menn þurfa þá jafnframt að átta sig á því hvað ríkið er. Það er ekkert annað en samfélag okkar allra, þessara manna líka, og auknar byrðar þess eru í reynd lagðar á alla landsmenn, þar með talda aðila vinnumarkaðarins. Ef þeim finnst eitthvað auðveldara að bera byrðarnar á þann hátt að leggja þær fyrst á ríkið og síðan á þá, þá er það auðvitað aðferð sem hægt er að athuga. En mér hefur virst að verkalýðsfélögin a.m.k. vilji ógjarnan afsala sér þeim samningsrétti sem þau hafa aflað sér á undanförnum árum, oft með miklu erfiði og í strangri baráttu. Þannig hefur það verið ævinlega þau ár sem ég hef átt sæti hér á Alþ., að aldrei hafa verkalýðsfélög brugðist harðara við heldur en þegar hafa verið sett lög sem höfðu það hlutverk að ákvarða kaup og kjör. Er þess raunar skemmst að minnast, að þegar sett voru lög um kaup og kjör starfsmanna Áburðarverksmiðjunnar, þá var gripið til þess ráðs að meina þeim, sem vildu vinna samkv. þeim, að gegna störfum sínum.

Ég get vel skilið þá afstöðu að menn vilji standa vörð um samningsrétt verkalýðsfélaganna, en þá verða menn líka að gera sér grein fyrir þeim skyldum, er honum fylgja, og ráða fram úr vandamálunum sjálfir. Það mun ekki standa á ríkisstj. þeirri, er nú situr, að leggjast á sveifina til að greiða fyrir lausn þessa verkfalls þegar raunhæf úttekt liggur fyrir á því hverjir samningar koma til greina og hver hlutur ríkisins á þá að verða til að endar nái saman. En áður en aðilar samninganna vita sjálfir hvað þeir raunverulega vilja eða neita að segja það er þess trauðla að vænta að ríkisstj. hafi mikil afskipti af vinnudeilunni, enda minnist ég þess, að þegar fyrri ríkisstj. hafa verið með fingurinn í vinnudeilum hefur það mætt misjafnlegum viðtökum svo ekki sé meira sagt.

Mér segir svo hugur um, að þetta verkfall sé miðlungi þokkað af öllum almenningi sem gerir sér grein fyrir því að verkföll eru allra tjón, einnig þeirra sem sagt er að fái eitthvað út úr þeim. Fólk er yfirleitt gagnrýnið á þau vinnubrögð sem tíðkast hafa og tíðkast enn í þessum málum og vill breytingu á þeim. Allir íslendingar sameinast þó í þeirri ósk að þeim mönnum, sem í eldinum standa að þessu sinni, megi auðnast að vinna verk sitt þannig að allir geti eftir atvikum bærilega við unað og að vinnufriður geti orðið á ný, því að íslensku þjóðarinnar bíða sannarlega svo mörg önnur og mikilvæg verkefni að hún má ekki við því að dreifa kröftunum á þennan hátt. Í þeirri von, að svo megi takast, býð ég hlustendum góða nótt.