23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Einlægur stuðningsmaður og fölskvalaus aðdáandi núv. ríkisstj., Styrmir Gunnarsson Morgunblaðsritstjóri, finnur hvöt hjá sér að gera grein fyrir stöðu stjórnarinnar í Reykjavíkurbréfi í blaði sínu í gær. Þar segir hann m. a , með leyfi hæstv. forsela:

Ríkisstj. þarf ekki að kippa sér upp við það þótt hún verði fyrir gagnrýni. Að sjálfsögðu skamma menn ríkisstj. þegar illa gengur. Þannig er það alltaf. En stuðningsmenn stjórnarinnar þurfa ekki að hafa of miklar áhyggjur af því. Stjórnmálabaráttan gengur í bylgjum, stundum vel, stundum illa. Og skjótt skipast veður í lofti.“

Svo mörg eru þau huggunarorð Morgunblaðsritstjórans til ríkisstj. sinnar. Hann biður hana að æðrast ekki þótt á móti blási því að eitthvað gæti nú hugsanlega einhvern tíma gengið henni í hag. Máttlausari getur uppörvunin varla verið þótt trauðla verði efast um góðan vilja höfundar. En eftir að hafa talið kjark í ríkisstj. á þennan sérkennilega hátt tekur ritstjóri helsta stjórnarmálgagnsins að gefa henni heilræði. Þau eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir, sem stjórna landi, eiga ekki að sækjast eftir vinsældum. Þeir eiga að ávinna sér traust. Það er grundvöllur sterkrar landsstjórnar — ekki vinsældir.“

Er þá nóg komið af tilvitnunum í Styrmishugvekju, enda orðið ljóst að meginniðurstaða ritstjóra Morgunblaðsins er sú að ríkisstj. sé illa liðin, en hún geti bætt úr því á þann hátt að taka sig til og vinna sér traust.

En það er of seint að iðrast eftir dauðann. Ríkisstj. hefur þegar haft nægan tíma og kappnóg tækifæri i.il að vinna sér traust. Tíminn hefur bara farið í súginn og tækifærin gengið stjórninni úr greipum. Því er nú komið sem komið er. Ríkisstj. hefur ekki aðeins bakað sér óvinsældir, hún hefur líka fyrirgert trausti sem margir báru til hennar í öndverðu.

Fátítt er hérlendis að ríkisstj. geti státað af jafnöflugum þingmeirihluta og sú sem nú situr að völdum. Stuðningsflokkar hennar telja rúmlega 2/3 þingheims En landsmenn hljóta líka að ætlast til mikils af stjórn sem styðst við svo yfirgnæfandi þingmeirihl. Slík stjórn ætti tvímælalaust að hafa öll skilyrði til að framfylgja yfirlýstri stefnu, standa við orð sín. Orðheldnin er líka undirstaða trausts, hjá ríkisstj. jafnt og einstaklingi. Hvernig hefur núv. ríkisstj. staðið sig á því prófi? Hefur hún unnið til trausts eða fyrirgert trausti? hítum á nokkur úrslitaatriði stjórnarstefnunnar, annars vegar hátíðlegar yfirlýsingar og fyrirheit, hins vegar efndirnar.

Þegar ríkisstj. tók við völdum birti hún almenna stefnuyfirlýsingu þar sem rakin voru markmið sem hún setti sér. Nokkur hin helstu voru þessi, með leyfi hæstv. forseta: Að bæta gjaldeyrisstöðu, treysta hag fjárfestingarsjóða og ríkissjóðs, sporna við hinni öru verðbólguþróun og tryggja sem best lífskjör almennings. Ríkisstj. mun taka ýmsa þætti efnahagsmála til gagngerðrar endurskoðunar í því skyni að tryggja afkomu atvinnuveganna, atvinnuöryggi og vaxandi almenna velmegun samfara réttlæti í tekjuskiptingu og aðstöðu manna. Gætt sé ítrasta sparnaðar í rekstri ríkisins og opinberra stofnana. Á almennar launatekjur skal ekki lagður tekjuskattur.

Þetta voru nokkur kjarnyrði á við og dreif úr fyrstu stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Ekki var lítið færst í fang, enda stjórnin sjálf viss um að hún væri sterk og til átaka fallin. Nú er komin hálfs annars árs reynsla á það hversu ríkisstj. er verki farin að koma ásetningi sínum í framkvæmd. Á því hlýtur að velta hvort menn bera til hennar traust eða vantraust.

Ríkisstj. ætlaði sér að bæta gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins. Þegar hún tók við völdum var nokkur gjaldeyrisvarasjóður í handraða. Sá forði þvarr gersamlega á fyrstu mánuðum valdaferils stjórnarinnar og síðan hefur verið bullandi halli á utanríkisviðskiptum. Verulegur hluti af neyslu þjóðarinnar á síðasta ári var greiddur með erlendu lánsfé, og í árslok var skuld á gjaldeyrisreikningi álíka mikil og inneignin hafði verið þegar stjórnin tók við. Í sérstakri stefnuyfirlýsingu ríkisstj. fyrir árið 1975 var gert ráð fyrir 9 milljarða viðskiptahalla við útlönd, en hann varð eftir því sem næst verður komist 22 milljarðar. Ríkisstj. gerði því skóna í sama plaggi að greiðslujöfnuður við útlönd kynni að nást á síðasta ári, en greiðsluhallinn reyndist 4.8 milljarðar.

Nú má segja, að hér sé um að ræða þjóðhagsþætti, sem engin ríkisstj. getur haft full tök á, þar sem viðskiptakjör og útflutningsmagn ráðast af markaðsaðstæðum. En auk óviðráðanlegra atvika geta einnig komið við sögu óforsjálni og röng viðbrögð þegar áætlanir fara jafnstórkostlega úr skorðum og hér hefur verið lýst. Mat manna á því, að hve miklu leyti um er að ræða sjálfskaparvíti á þessu sviði hlýtur að fara eftir frammistöðu ríkisstj. gagnvart verkefnum sem eðli málsins samkv. eiga að vera algerlega á hennar valdi. Þar eru ríkisfjármálin marktækust.

Í stefnuyfirlýsingunni fyrir árið 1976 hét ríkisstj. því að beita samræmdum aðhaldsaðgerðum á sviði ríkisfjármála til að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Sett var það mark að lækka yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann um fjórðung frá því sem ætla mátti að hún yrði í árslok 1974. Í stefnuræðu á Alþ. gerði ríkisstj. ráð fyrir að skuldin við Seðlabankann yrði þá einn milljarður. En þótt komið væri fram í nóv. þegar þau orð voru sögð reyndist forsjálnin og raunsæið ekki meiri en svo, að áramótauppgjör sýndi að skuldin var þrem og hálfum sinni meiri eða sem næst hálfur fjórði milljarður. Og heldur varð lítið úr fyrirheitinu um að lækka þessa skuld á árinu 1975. Þvert á móti margfaldaðist hún enn og nam um síðustu áramót 12 milljörðum og 157 millj. kr., hafði rúmlega þrefaldast á árinu. Þvílíkur greiðsluhalli ríkissjóðs þvert ofan í allar áætlanir ber vott um að ríkisstj., sem í hlut á, hefur gersamlega misst tök á fjármálum ríkisins.

Þegar reikningar ríkisbúsins votta slíkt sleifarlag liggur nærri að álykta að fleira en aðsteðjandi vandi eigi sök á kröggum þjóðarbúsins út á víð. Við valdatökuna hét ríkisstj. því, eins og áður er sagt, að sporna við hinni öru verðbólguþróun og tryggja sem best lífskjör almennings. Hér mætti tilfæra ýmsar tölur sem sýna hver raunin hefur á orðið. En lestur á talnarunum á illa heima í útvarpi og þar að auki gerist slíks ekki þörf hví að hver og einn ykkar, hlustendur góðir, getur dæmt um það af eigin reynslu hver verðbólguþróunin hefur orðið og hversu kjörunum er komið.

Orðskrúðið í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er orðið argasta öfugmæli. Ríkisstj. sjálf gerir sér mætavel ljóst að viðureign hennar við verðbólgu og hallabúskap hefur siður en svo borið tilætlaðan árangur. Þetta kom glöggt í ljós í stefnuyfirlýsingunni sem flutt var í upphafi þess þings sem nú situr. Þar lýsti ríkisstj. yfir þeim ásetningi að ná víðtækri samstöðu um sameiginlegt viðnám gegn verðbólgunni. Vinnubrögðum við að ná því marki var lýst svo í stefnuræðunni, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir viðræðum allra aðila um samræmda launastefnu og leiðir til að komast fyrir rætur verðbólgunnar. Jafnframt þarf að vinna að því að móta nýjar reglur um meðferð vinnudeilna og lausn kjaramála í ljósi reynslu undanfarinna ára.“

Þetta stefnumark setti ríkisstj, sér með tilvísun til kjarasamninga sem þá fóru í hönd og nú standa sem hæst, með þeim hætti sem ekki þarf að lýsa fyrir neinum. En eins og fyrri daginn hefur ríkisstj. látið sitja við góðan ásetning og fögur orð. Efndir hafa alls engar orðið. Hver hefur orðið við það var að ríkisstj. hafi nokkuð það aðhafst sem talist geti uppfylla hátíðlegt loforð um að beita sér fyrir viðræðum allra aðila um samræmda launastefnu og leiðir til að komast fyrir rætur verðbólgunnar, svo að enn sé — með leyfi hæstv. forseta — vitnað orðrétt í stefnuyfirlýsingu hennar sjálfrar, flutta þjóð og þingi úr þessum ræðustól fyrir réttum fjórum mánuðum? Ekki nokkur lifandi maður hefur orðið slíks var. Stefnuyfirlýsingin hefur reynst innihaldslaust orðagjálfur. Ekki síst fyrir þá sök er nú komið sem komið er. Allsherjarverkfall á sjó og landi búið að standa í viku, einmitt þegar loðnuvertíð ætti að standa sem hæst og sjór er sagður svartur fyrir Suðurlandi af þessum eina meiri háttar nytjafiski okkar sem ekki er fullnýttur.

Alltaf hlýtur að vísu að vera álitamál hversu náin afskipti ríkisstj. á að hafa af kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og niðurstaðan að mótast af aðstæðum hverju sinni. En þegar boðað hefur verið hátíðlega að ríkisvaldið muni eiga frumkvæði að allsherjarsamráði aðila um tiltekin grundvallaratriði, eins og gert var í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í haust, hlýtur það að teljast kórvilla, sem hefnir sín óþyrmilega, að láta sitja við orðin tóm, hafast ekkert að til að framkvæma gefið fyrirheit.

Framleiðslutap gerir vonda stöðu þjóðarbúsins enn verri. Tekjutap rýrir enn frekar bága afkomu lágtekjuheimila í landinu. Ráðleysi ríkisstj. skerðir traust á æðstu stofnunum þjóðarinnar. Innanlandsátök um tekjuskiptingu stéttanna skella yfir á versta tíma, þegar sýnt er að ekki er annars úrkosta en heyja enn um sinn harða baráttu fyrir mesta lífshagsmunamáli okkar íslendinga, fullum yfirráðum yfir veiðum á fiskimiðunum sem landinu heyra til. Fulltrúar allra flokka eru loks á einu máli um að ekki er nokkur grundvöllur fyrir undanþágusamningum við bresku stjórnina og því ekki annarra kosta völ en heyja enn einu sinni vandasama baráttu á miðunum með takmörkuðu bolmagni okkar við ofurefli breska flotans.

Ljóst er af ummælum breskra áhrifamanna og blaða að þvergirðingsháttur bresku stjórnarinnar stafar m.a. af því að hún geri sér von um að íslenska ríkisstj. sé svo veik vegna erfiðrar stöðu þjóðarbúsins og innbyrðis ósamkomulags stjórnarflokkanna að unnt sé að knýja hana til undanhalds.

Eins og menn hafa mátt heyra, halda sumir talsmenn stjórnarflokkanna í þessum umr. því fram, að till. um vantraust á ríkisstj. og opinskáar umr. um þau rök, sem til slíks tillöguflutnings liggja, séu óvinafagnaður, eins og nú stendur á í landhelgisdeilunni. En það er að hafa endaskipti á hlutunum að slá slíku fram. Eins og nú er komið málum er það mestur ógreiði við íslenskan málstað í landhelgismálinu og íslensku þjóðina að láta sem ekkert sé, að draga fjöður yfir þá erfiðleika sem við er að etja. Mesta ábyrgðarleysið og óvinafagnaðurinn, eins og nú er komið, er að loka augunum fyrir því að með áframhaldi á sömu lausatökum á þýðingarmestu þáttum þjóðmála og viðgengist hafa undanfarin missiri er ekki aðeins teflt í voða fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, atvinnuöryggi og afkomu almennings. Slíkur ófarnaður væri þar á ofan næstum það eina sem megnaði að svipta okkur aðstöðunni sem nú er fengin til að vinna innan skamms endanlegan sigur í landhelgismálinu. Til slíks má með engu móti koma nú þegar langþráð markmið er loks í sjónmáli.

Öllum er fyrir bestu að talað sé tæpitungulaust um það sem á hefur bjátað öðru fremur hjá ríkisstj. Engar eða lélegar efndir á fyrirheitum hennar og stefnumálum stafa ekki af því að ráðh. vanti vilja til að gera betur.

Það, sem háir ríkisstj., er að stjórnarflokkarnir styðjast við hagsmunahópa sem sæta sérhvers færis að bregða fæti fyrir aðkallandi kerfisbreytingar, svo sem í skattamálum, fjárfestingarlánamálum og verðlagsmálum, sem eru skilyrði fyrir því að ráðin verði bót á misrétti sem stuðlar að sífelldu jafnvægisleysi í fjármálum og tekjuskiptingu. Þessir sérhagsmunir fléttast saman við ágreining og valdatogstreitu í stjórnarflokkunum og á milli þeirra, sem veldur því allt í sameiningu að ríkisstj. er haldin úrræðalömun á háu stigi í mörgum hinum þýðingarmestu málum þrátt fyrir yfirgnæfandi meiri hluta á þingi. Henni notast ekki þingstyrkurinn vegna þess að þinglið hennar er sjálfu sér sundurþykkt. Átakanlegast hefur úlfúðin og tortryggnin innan stjórnarliðsins komið í ljós í því hvernig haldið hefur verið á landhelgismálinu síðustu vikur. Þar hefur dráttur á ákvörðunum og ósamhljóða yfirlýsingar flokksmálgagna vakið almennar efasemdir um stjórnhæfni ríkisstj.

Vantrauststill., sem hér er til umr., er því borin fram að ærnu tilefni, herra forseti. Stjórnarandstöðu ber að segja ríkisstj. til syndanna, og eins og nú er komið málum verður það ekki gert eins rækilega og tilefni krefst nema með því að efna til vantraustsumr. í áheyrn alþjóðar. Enn má gera sér vonir um að þrátt fyrir það, sem úrskeiðis hefur farið og ég hef lýst með dæmum, sé enginu óbætanlegur skaði skeður fyrir þjóðina. En flestra dómur er að miklar hættur leynist fram undan. Þinglið stjórnarflokkanna ræður því að sjálfsögðu hvert framhaldið verður. Það hefur meiri hlutann og ber ábyrgðina. Á þess valdi er að taka sig á og gera betur. En það má engan tíma missa. Reynist slíkt ekki gerlegt situr ríkisstj. óhagganlega föst í því óheillafari sem hún hefur skorðast í. Verður að vona að nógu margir stjórnarþm. geri sér grein fyrir að þá er vænsti kosturinn fyrir þjóðina að spilin séu stokkuð á ný, því að við svo búið má ekki lengur standa ef ekki á verr að fara.