29.10.1975
Neðri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

15. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. það til breyt. á almennum hegningarlögum, sem hér er lagt fyrir hv. Nd., fjallar um tvo þætti almennra hegningarlaga, annars vegar ákvæði 40.–42. gr. um reynslulausn fanga og hins vegar ákvæði 232. gr. sem fjallar um röskun á friði einstaklinga.

Ákvæði hegningarlaganna um reynslulausn fanga hafa staðið að mestu óbreytt frá því að hegningarlögin voru sett 1940. Þær till., sem hér eru settar fram, eru að meginstefnu til byggðar á till. norrænu refsilaganefndarinnar sem skilaði álitsgerð um reynslulausn árið 1970. Helstu breytingarnar, sem lagt er til í frv. að gerðar verði á ákvæðunum um reynslulausn, eru þær að lagt er til að lágmarkstími, sem fangi hafi afplánað áður en hann fær reynslulausn, skuli vera 4 mánuðir í stað 8 mánaða eins og nú er, sem þýðir að fangi, sem dæmdur er í 6 mánaða fangelsi, getur átt kost á að fá reynslulausn þegar hann hefur afplánað 2/3 hluta refsitímans eða 4 mánuði, en núgildandi ákvæði gera ráð fyrir því að fangi hafi afplánað 8 mánuði af eins árs refsivist áður en hann á kost á reynslulausn. Ef sérstaklega stendur á er einnig heimilt samkv. 2. mgr. 1. gr. frv. að veita fanga reynslulausn þegar liðinn er helmingur reynslutímans. Ekki er reynslulausn samkv. þessu ákvæði bundin við að ákveðinn lágmarkstími hafi verið afplánaður.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að reynslulausn og reynslutími skuli vera allt að þremur árum, þó í vissum tilvikum allt að 5 árum. Samkv. núgildandi ákvæði 42. gr. er heimilt að ákveða reynslutíma allt að tveimur árum, en þó ekki lengri en til loka refsitíma. Þetta ákvæði var sett með lögum nr. 31 1961, en samkv. eldra ákvæði telst reynslutími þar til refsitíminn væri liðinn, þó aldrei skemur en tvö ár. Er því í frv. horfið að nokkru aftur til eldri ákvæða hegningarlaganna. Reynslan hefur sýnt að æskilegt er að geta beitt eftirliti lengur en á þeim tíma sem eftir stendur óafplánaður af refsingunni þegar reynslulausn er veitt. Hafa núgildandi ákvæði um reynslutímann m. a. haft þau áhrif að reynslulausn hefur mun minna verið beitt en ella hefði verið. Hefur í þess stað verið beitt náðunum í mun meira mæli en verið hefði ef ákveðin reynslulausn hefði kveðið á um möguleika á lengri reynslutíma.

Í 3. gr. frv. er ákvæði um hvernig skuli brugðist við ef aðill rýfur þau skilorð sem honum voru sett við reynslulausnina. Er þar lagt til að sett verði fyllri ákvæði en nú eru um meðferð slíkra mála. Er þar í fyrsta lagi set fram sú meginregla að fremji aðili eitt brot eftir að hann hlaut reynslulausn, þá ákveði dómstóll, sem fjallar um nýja brotið, refsingu í einu lagi fyrir nýja brotið og eftirstöðvar af eldri refsivist og skal þá beitt sömu meginreglum og skilorðsrof samkv. skilorðsbundnum dómi.

Í öðru lagi er lagt til í 2. mgr. 3. gr. að það sé háð ákvörðun dómsmrh. hvort eftirstöðvar refsingar séu teknar út, ef önnur skilyrði eru rofin, eða hvort einungis sé breytt skilyrðum, svo sem reynslu- eða tilsjónartími lengdur.

Þá er í þriðja lagi lagt til að heimilt sé að láta hefja þegar í stað afplánun eftirstöðva ef um er að ræða skilorðsrof, sem fólgin eru í ótvíræðu broti á almennum hegningarlögum, enda þótt dómstóll hafi ekki enn fjallað um nýja brotið. Á það við þegar aðili hefur játað brot sitt eða óyggjandi gögn benda til að hann hafi framið það, svo sem þegar hann er staðinn að verki. Samkv. núgildandi ákvæði í 41. gr. skal sá, sem brýtur gegn skilyrðum þeim sem honum voru sett, taka út refsingu þá, sem eftir stendur, sem nýja refsingu.

Samkv. 3. mgr. 3. gr. er lagt til að refsing teljist fullnægt á því tímamarki sem aðili fékk reynslulausn ef ekki er tekin ákvörðun um að hann taki út refsivist við lok reynslutímabils, en samkv. núgildandi ákvæði telst refsingu ekki fullnægt fyrr en við lok reynslutímabilsins. Getur þetta haft þýðingu þegar meta skal þau réttaráhrif sem tengd eru við lok refsifullnustu, svo sem um mat á ítrekunaráhrifum og við ákvörðun æruuppreisnar. Regla sú, sem hér er lagt til að tekin verði upp, er mun hagstæðari fyrir aðila en núgildandi regla.

Í niðurlagi 3. gr. er tekið upp ákvæði þess efnis að beita megi reglum um reynslulausn þegar veitt er skilorðsbundin náðun á hluta refsivistar, en slíkt ákvæði hefur ekki verið í lögum fyrr.

Í 4. gr. frv., sem fjallar um breyt. á 1. mgr. 238. gr. almennra hegningarlaga, er lagt til að refsimörk við röskun á friði annars manns á þann hátt sem í greininni er lýst, verði hækkuð og geti verknaður varðað allt að 6 mánaða fangelsi. Samkv. núgildandi ákvæði er hámarksrefsing varðhald allt að 6 mánuðum. Þau refsimörk, sem hér er lagt til að tekin verði upp, eru í samræmi við ákvæði í hegningarlögum Norðurlandaþjóða sem fjalla um þessi brot.

Þá er lagt til að gildistími lögregluáminningar verði markaður og áminningin gildi í 5 ár. l núgildandi ákvæðum er ekki tiltekinn gildistími slíkrar lögregluáminningar. Samkv. núgildandi ákvæði er ekki unnt að beita mann gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn stendur vegna brots á þessu ákvæði, en oft getur verið þörf á því. Hin hækkuðu refsiviðurlög, sem hér er lagt til að tekin verði upp, veita hins vegar möguleika til beitingar gæsluvarðhalds.

Ég hef orðið mjög mikið var við það í mínu starfi að til mín hefur leitað fólk sem hefur æðioft orðið fyrir þess konar áreitni sem gert er ráð fyrir að falli undir þessa gr., annaðhvort beint eða með öðrum hætti. Ég fyrir mitt leyti teldi því mikla þörf á að þetta ákvæði komist í lög, svo sem gert er ráð fyrir í þessu frv., því að annars hefur manni virst að það væri lítið hægt að gera í þessum tilfellum til úrlausnar á þeim kvörtunum sem fram hafa verið bornar um það.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.