24.02.1976
Sameinað þing: 56. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

93. mál, náttúrugripasafn

Jón Helgason:

Herra forseti. Á þskj. 109 hefur Guðmundur G. Þórarinsson flutt svo hljóðandi fsp., sem ég vil í fjarveru hans mæla fyrir nokkrum orðum:

„Hvaða áform eru uppi um úrbætur í húsnæðismálum náttúrugripasafns Náttúrufræðistofnunar Íslands?“

Náttúrugripasafnið í Reykjavík var stofnað árið 1886. Það var fyrst í eigu Hins íslenska náttúrufræðifélags, en 1947 tók ríkið við rekstri þess og hefur það síðan verið ríkisstofnun. Lengst af hefur það verið í leiguhúsnæði, fyrstu árin á ýmsum stöðum, en 1908 var það flutt í Safnahúsið við Hverfisgötu sem þá var nýbyggt. Því húsnæði var sagt upp 1917 og hefur safnið síðan verið í stöðugum húsnæðisörðugleikum. Þrátt fyrir uppsögnina var það þó í safnahúsinu í nokkra áratugi í viðbót þar sem mál þess urðu ekki leyst á annan hátt.

Árið 1942 leitaði Náttúrufræðifélagið samvinnu við háskólaráð um lausn húsnæðismála safnsins, og samþykkti háskólaráð að hús fyrir náttúrugripasafn yrði reist á háskólalóðinni. 1943 sótti háskólarektor til Alþingis um framlengingu á einkaleyfi háskólans til happdrættisrekstrar og tilgreindi þrjár ástæður fyrir því. Það er í fyrsta lagi, að háskólinn þurfi að byggja leikfimishús, í öðru lagi að háskólinn þurfi að byggja hús fyrir náttúrugripasafn og í þriðja lagi að lagfæra þurfi háskólalóðina. Tveimur þessara verkefna er löngu lokið, en hús fyrir náttúrgripasafn er óbyggt. Í ársbyrjun 1945 var ráðinn arkitekt til þess að gera uppdrátt að fyrirhugaðri safnbyggingu og lauk því verki, en leyfi fékkst ekki til að hefja framkvæmdir.

Árið 1957 var orðið óumflýjanlegt að gera eitthvað í húsnæðismálum safnsins og þá keypti háskólinn 3. hæð hússins að Laugavegi 105 og Hverfisgötu 116. Var þar komið fyrir 100 fermetra sýningarsal og hafist handa um að flytja safnið þangað eða réttara sagt að koma upp nýju safni, þar sem aðbúnaðurinn að því í fyrrv. húsnæði var svo lélegur að flestir hinna eldri muna voru orðnir ónothæfir. Við þetta ástand í húsnæðismálum býr safnið enn, enda þótt safngripirnir nálgist nú 100 þús.

Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands segir að hún skuli m.a. koma upp sem fullkomnustu vísindalegu safni íslenskra og erlendra náttúrugripa og varðveita það og koma upp sýningarsafni er veiti sem gleggst yfirlit yfir náttúru Íslands og sé opið almenningi. Stofnuninni er ógerlegt að sinna þessu hlutverki vegna húsnæðisleysis. Sýningarsafn er þó lögum samkv. aðeins einn þáttur í starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands. En henni hefur ekki heldur verið kleift að rækja aðra þætti skyldu sinnar. Á síðustu árum hafa verið starfandi nefndir til að athuga þessi mál, og hefur komið fram í áliti þeirra að vegna þess að fleiri aðilar en Náttúrufræðistofnunin vinni að svipuðum málum sé nauðsynlegt að koma á samvinnu milli þeirra og gera sér grein fyrir hvernig því samstarfi verði hagað í framtíðinni, áður en ráðist verður í byggingu húsnæðis yfir þá starfsemi. En betri skipulagning náttúrurannsókna er tvímælalaust nauðsynleg til þess að nýta sem hest bæði starfskrafta og fjármagn. Það er því augljóst að mikill undirbúningur verður að fara fram áður en hægt er að hefja byggingarframkvæmdir.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að margir íslendingar hafi áhuga á náttúru landsins og kemur m.a. fram í því hve marga sjálfmenntaða menn á heim sviðum við höfum átt. Stafar það sjálfsagt bæði af því hvað þjóðin hefur búið í nánum tengslum við landið Ég hvað náttúruöflin hafa oft verið íbúum þess óblíð, eins og við höfum glöggt verið minnt á hvað eftir annað að undanförnu, og þá um leið nauðsyn þess að við kynnumst náttúru landsins sem best. Þetta mál er því ekki aðeins menningaratriði, heldur hefur það beinlínis hagnýtt gildi fyrir þjóðfélagið.