24.02.1976
Sameinað þing: 56. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

93. mál, náttúrugripasafn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fsp. er þannig: „Hvaða áform eru uppi um úrbætur í húsnæðismálum náttúrugripasafns Náttúrufræðistofnunar Íslands?“ Svar mitt er á þessa leið:

Náttúrufræðistofnun Íslands eða Náttúrugripasafnið, eins og hún hét áður, er til húsa við Hlemmtorg, þ.e. að Laugavegi 105 og Hverfisgötu 116. Náttúrugripasafnið var upphaflega í eigu og umsjá Hins íslenska náttúrufræðifélags og lengi til húsa í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Í ársbyrjun 1947 var Náttúrugripasafnið gert að ríkisstofnun og jafnframt ráðnir að því fastir starfsmenn. Safnið var um skeið til húsa í Þjóðminjasafnsbyggingunni við Melaveg, en í ráði var að reisa sérstakt hús yfir stofnunina og átti hluti af happdrættisfé að ganga til þeirrar framkvæmdar, eins og fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda. En síðar var horfið að því ráði að kaupa húsnæði handa safninu þar sem það er nú, og var lagt fram fé af happdrættistekjum til þeirra kaupa.

Í núverandi húsakynnum Náttúrufræðistofnunarinnar er m.a. sýningarsalur sem að vísu er lítill, en vel úr garði gerður, að ég tel, og sýningarmunum er þar vel fyrir komið. Má segja að allt beri gott vitni þeim ágæta starfsmanni Kristjáni Geirmundssyni sem lengi var í þjónustu Náttúrugripasafnsins sem hamskeri. Telja verður, að Náttúrufræðistofnun Íslands búi við allgóðan húsakost, þótt vafalaust megi segja að hún hefði þörf fyrir meira rými og þá fyrst og fremst fyrir stærri sýningarsal og betri aðstöðu á alla grein í því sambandi. En hitt verður þó að teljast meginmál í svipinn, að kanna hvort og þá á hvern hátt starfsemi stofnunarinnar ætti að tengjast Háskóla Íslands. Er þetta mál sem þarf að kanna til þrautar í samráði við forráðamenn háskólans og Náttúrufræðistofnunarinnar. Í því sambandi mundi að sjálfsögðu húsnæðismál og önnur starfsaðstaða koma til nýrrar yfirvegunar.