24.02.1976
Sameinað þing: 56. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

169. mál, vasapeningar vangefinna

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„1. Hvað veldur því, að önnur framkvæmd gildir um vasapeninga til vangefinna en annarra þeirra er á hælum dveljast?

2. Er breytinga að vænta á þessari framkvæmd?“

Fsp. þessi er borin fram að ósk fjölmargra þeirra sem að þessum málefnum starfa og í tilefni mjög ákveðinna krafna og blaðaskrifa reyndar um sama rétt til handa vangefnum varðandi svonefnda vasapeninga og aðrir vistmenn á hælum njóta. Hér er um að ræða heimild í 50. gr. almannatryggingalaga um sérstakar bætur til handa öldruðum og öryrkjum sem á hælum eru

og er svo hljóðandi, niðurlag hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef hlutaðeigandi er algerlega tekjulaus er Tryggingastofnuninni heimilt að greiða honum sjálfum allt að 25% lágmarksbóta.“

Þessar bætur munu yfirleitt greiddar samkv. umsóknum og veit ég ekki um nein dæmi takmarkana á þessum bótum nema til vangefinna. Það kann þó að vera og upplýsist þá ef svo er um fleiri. Tryggingaráð mun úrskurða hér um og úrskurður þess mun vera á þann veg, að ég best hef fengið upplýst, að vangefnir njóti um helmings þeirra bóta sem hér um ræðir. Réttlætingu þessa hef ég helst heyrt þá, að vangefnir eigi þess ekki sama kost að koma þessum vasapeningum í lóg, þarfir þeirra m.ö.o. svo ólíkar þörfum venjulegs fólks, að á þá skuli líta sérstaklega með umræddri niðurstöðu, takmörkun sem ég kem ekki auga á að sé í neinu réttmæt. Við nánari athugun kemur í ljós að á árinu 1969 taldi tryggingaráð í samþykkt sinni að öryrkjar á fávitastofnunum ættu sama rétt til aukabóta samkv. 26. gr. almannatryggingalaga þá og aðrir vistmenn, en þá var upphæðin að vísu 10% í stað 25 % nú.

Ég kem ekki auga á það að lögin geri hér neinn mismun á. Þau eru án alls efa um sömu heimild til allra. Ég hef fyrir því allgóðar heimildir að einstök vistheimili hafi sent fullnægjandi grg. um fulla þörf vistmanna fyrir þessa vasapeninga, og mun það meira en um aðra aðila ýmsa sem ekki þurfa neina sérstaka grg., en fá samt heimildina að fullu svo sem sjálfsagt er. Hér er ótvírætt um einstaklinga að ræða með langanir og þarfir rétt eins og hjá okkur öllum, persónulegar þarfir til klæða og muna ýmissa, og sem dæmi nefni ég oft mikinn tónlistaráhuga þessa fólks og söfnunaráhuga sem hvort tveggja krefst fjármuna. Varðandi örvitana, sem mörgum þykir að hæpnast sé að þessi heimild nái til. þá er margt hægt að gera fyrir þessa peninga sameiginlega í þágu þessa hóps. M.a. veit ég að vistheimili, eins og Sólborg á Akureyri, hafa óskað eftir að fá þessar aukagreiðslur til að leggja í sameiginlegan sjóð til að sinna ýmsum verkefnum beinlínis í þágu þessa fólks til þess að gera því lífið bærilegra, m.a. með skemmtiferðum og öðru í því skyni. En aðalatriðið er að samkv. blaðaskrifum og upplýsingum, sem legið hafa fyrir, á sér stað mismunun sem ég hafði hreinlega enga hugmynd um. Ég hlýt að telja hana ósæmilega okkur, og því spyr ég hæstv. ráðh. þessara tveggja spurninga hér um.