24.02.1976
Efri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég finn mig knúinn til þess að minna á það að fyrir jól lagði ég fram frv. í þessari hv. d. um framlengingu á söluskattsstigi sem fyrst og fremst fer til niðurgreiðslu á olíu til húshitunar. Þetta mál var algjörlega óbreytt frá því sem það hafði verið s.l. ár. Þau lög, sem nm þetta gilda nú, renna út 29. febr. Það er því skammur tími til stefnu til þess að afgr. þetta mál, ef ekki er ætlast til þess að þessi skattgreiðsla og þessi styrkur falli niður, þar sem. það á eftir að fara gegnum tvær umr. í þessari hv. d. og síðan í gegnum Nd.

Ég vona og ég veit það reyndar að n. beggja d. munu hafa unnið að þessu máli með góðum vilja. Það er sjálfsagt hægt að afgr. það á þeim dögum vikunnar sem eftir eru. En hér má engu skeika og eins og ég sagði, þá finn ég mig neyddan til þess að vekja athygli hv. dm á því að hér er um að ræða að koma þessu máli í gegn eða að þetta söluskattsstig falli niður og þá þar af leiðandi olíustyrkurinn og fjárveitingar í önnur þau verkefni sem gert er ráð fyrir í þessu frv.