24.02.1976
Efri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

168. mál, flugvallagjald

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til athugunar frv. til laga um flugvallagjald, og leggur n. til að frv. verði samþ., en Jón Árm. Héðinsson og Ragnar Arnalds undirrita nál. með fyrirvara.

Það var gert ráð fyrir því við afgreiðslu fjárlaga að tekjur af flugvallagjaldi mundu nema 235 millj. kr. Þetta frv. er í samræmi við þá afgreiðslu sem fjárlög hlutu, og hér er gert ráð fyrir því að þessar tekjur nemi 235 millj. kr. eða gjaldið verði 1500 kr. á hvern farþega sem ferðast frá Íslandi til annarra landa, en 200 kr. í innanlandsflugi. Hér er því um allmikla lækkun á þessu gjaldi að ræða. Það má vissulega um það deila hvort ástæða sé til að lækka þetta gjald, en það var ekki gert ráð fyrir meiri tekjum af þessu gjaldi við afgreiðslu fjárlaga.

Ég vil láta það koma fram, að það var álit margra í n. að það væri æskilegt að tekjur af slíku gjaldi rynnu til flugmálanna og fjármagnið yrði notað til þess að byggja upp flugvelli og bæta öryggi flugvalla. Hins vegar er ljóst að það er ekki svigrúm til þess nú að taka ákvörðun um að þessar tekjur skuli leggjast í sérstakan sjóð. En ég hef tekið eftir því að allshn. Sþ. hefur lagt til að samþ. verði þáltill. um áætlunargerð í flugmálum, og þegar slík áætlanagerð er framkvæmd þarf jafnframt að hafa í huga tekjur til að standa undir henni. Ég vænti þess að stefnt verði að því að tekjur af þessu gjaldi renni til flugmála, hvort sem það verður gert við afgreiðslu fjárlaga eða tekjustofn þessi verði markaður.