24.02.1976
Efri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

168. mál, flugvallagjald

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Um þetta frv. er ástæðulaust að hafa mörg orð. Flugvallaskatturinn var á lagður fyrir einu ári og þá studdum við þá breytingu, ekki síst með það í huga að jafnhliða því að skatturinn var á lagður var söluskattur af flugfarmiðum afnuminn Það var því um að ræða breyt. sem tvímælalaust var til mikilla hagsbóta fyrir þá sem langt eiga að sækja með flugvélum hér innanlands. Hins vegar hef ég undirritað nál. um þetta frv. nú með fyrirvara vegna þess að það er og var skoðun mín, að þetta sérstaka flugvallagjald ætti að leggja í sérstakan sjóð til þess að hraða flugvallagerð innanlands. Sú var skoðun mín fyrir einu ári og sú skoðun mín er óbreytt.