29.10.1975
Neðri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

28. mál, kafarastörf

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 31 er frv. til l. um kafarastörf. Hér er um nýmæli að ræða. Engin lög eru til hér á landi sem kveða á um hæfni manna til hinna ýmsu starfa er nauðsyn ber til að unnin séu undir yfirborði vatns, svo sem við gerð hafnarmannvirkja, orkuvera og þess háttar. Verður hér ekki fjölyrt nánar um nauðsyn þess að greind störf séu sem best af hendi leyst, en þá jafnframt að öryggi viðkomandi manna sé best tryggt, þannig að allur búnaður til starfans sé af öruggastri og bestri gerð.

Félag ísl. kafara, sem stofnað var í des. 1957, hefur um árabil reynt að auka þekkingu félagsmanna sinna á þeim sviðum, sem varða starf kafara, og ekki síst að minnka áhættu við reglubundið eftirlit. En vöntun lögskipaðra reglna um þessi mál hefur verið félaginu fjötur um fót. Hvað snýr að ríkisvaldinu, þá hélt Vita- og hafnamálastofnunin námskeið fyrir starfandi kafara og byrjendur í apríl 1964, og auk þess hefur Landhelgisgæslan þjálfað menn í froskköfun vegna einstakra verkefna. Einstakir kafarar hafa haldið námskeið fyrir byrjendur í froskköfun.

Í bréfi Hafnamálastofnunarinnar 28. mars 1974 segir svo um þessi mál m. a.:

„Með tilliti til breyttra aðstæðna og þess, hversu takmörkuð ending manna er við köfunarstörf, er nauðsynlegt að slík námskeið séu haldin á fárra ára fresti. Er nú svo komið að í kafarastétt eru tiltölulega mjög fáir menn er færir eru um að vinna að hafnarmannvirkjum. Vegna þess að engin mörkuð stefna hefur verið í þessum málum og ekki er um að ræða nein fyrirmæli stjórnvalda þar um, hefur það ástand skapast að menn hafa oftar en góðu hófi gegnir sinnt þessum störfum án nokkurrar þekkingar og jafnvel notað til þess útbúnað sem er langt undir lágmarkskröfum þeirra landa sem lögfest hafa fyrirmæli um kafarastörf. Af ofangreindum ástæðum er nú svo komið að oft á ári liggur við slysum og jafnvel dauða við þessi störf.“

Með það fyrir augum að reyna að bæta úr þessu ófremdarástandi hefur vinnuhópur á vegum samgrn. unnið að samningu þessa frv. og þá einkum stuðst við ákvæði danskra laga og frv. þess sem sent var iðnn. Ed. Alþ. 3. des. 1960. Að öðru leyti vísast til grg.

Með þessu frv. er að því stefnt að tryggja þeim, sem köfun stunda í atvinnuskyni, ákveðinn starfsgrundvöll og setja þeim jafnframt reglur um réttindi og skyldur í starfinu. Með þessu er einnig verið að tryggja verkkaupanda hæfan og ábyrgan kafara og tryggja eftir föngum að kafari sakir vanhæfni eða kunnáttuleysis stofni ekki sjálfum sér eða öðrum í hættu. En til þess að ná þessu marki þarf hið opinbera að hafa hönd í bagga með þessari starfsemi eins og annarri og ákveða með lögum og reglugerð helstu atriði viðkomandi köfun.

Í 2. mgr. 4. gr. er gert ráð fyrir því að ráðh. sé heimilt að efna á hæfilegum fresti til námskeiða fyrir þá sem þreyta vilja kafarapróf og fullnægja þannig skilyrðum a- og b-liðar 3. gr. Það er auðvitað mögulegt og jafnvel sennilegt að slíkum námskeiðum geti fylgt einhver kostnaður, en hann mun verða hverfandi lítill.

Um skírteinisútgáfu, sem fylgir 5. gr., er ekki gert ráð fyrir öðru en slík skírteini verði viðkomandi að kaupa.

Ég held að þetta frv. sé ekki margbrotnara en svo að fleiri skýringar en ég hef hér látið fylgja sé ekki ástæða til að koma með, enda eru þær í grg., en aðalatriði málsins hef ég nú þegar skýrt.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.