24.02.1976
Neðri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

140. mál, Líferyissjóður Íslands

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson?:

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Lífeyrissjóð Íslands. Ástæður þess, að frv. þetta er lagt fyrir hið háa Alþ. í ársbyrjun 1976, eru margþættar. Hinar helstu eru þær sem hér segir:

1. Núverandi ellilífeyristryggingagreiðslur til aldraðra hafa verið algjörlega ófullnægjandi um árabil. Stafar það m.a. af skipulags- og úrræðaleysi þeirra aðila, opinberra sem annarra, sem helst bera ábyrgð á stefnumörkun og framkvæmd þessara mála. Nokkur bót verður þó væntanlega á þessu á næstunni vegna samkomulags þess sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um sem bráðabirgðaúrlausn á þessum málum fyrir næstu tvö árin, en svo sem kunnugt er hefur slíkt samkomulag tekist núna í yfirstandandi deilum.

2. Af þeim ástæðum hversu ellilífeyrisgreiðslur hafa verið ófullnægjandi og vegna langvarandi verðbólguþróunar hérlendis búa þúsundir aldraðra og öryrkja við léleg lífskjör og mikla óvissu varðandi afkomu sína á hverjum tíma.

3. Leiðréttingar á tryggingagreiðslum til ellilífeyrisþega, öryrkja og annarra, sem eru afkomulega háðir greiðslum úr almanna- og lífeyristryggingakerfinu, koma jafnan eftir á og seint og eru því miður oft á tíðum ekki í samræmi við aukinn og stórhækkaðan framfærslukostnað.

4. Í nútímaþjóðfélagi eru lífeyristryggingar veigamikill þáttur í samfélagslegri hjálp fólksins. Til þeirra er ýmist stofnað með beinum framlögum viðkomandi einstaklinga til ákveðins sjóðs, lífeyrissjóðs, er síðar endurgreiðir viðkomandi einstaklingi til baka framlag hans eftir tiltekinn tíma á grundvelli reglugerðar lífeyrissjóðanna þar að lútandi, eða að skattgreiðendur greiða í sameiginlegan sjóð almannatrygginga sem síðar greiðir þeim einstaklingum, er þörf hafa fyrir tryggingar, jafna tryggingu, þó með ákveðnum frávíkum sem ekki skal farið út í að ræða að svo stöddu.

5. Í ljós hefur komið að núverandi fyrirkomulag lífeyristrygginga á Íslandi er stórgallað. Mikil knýjandi þörf er fyrir endurskipulagningu þessara mála. Engin löggjöf hefur verið sett um starfsemi lífeyrissjóða til þessa, og má segja að löggjafarsamkoma þjóðarinnar hafi verið furðanlega áhuga- og afskiptalítil varðandi þróun og uppbyggingu þeirrar miklu félagslegu samhjálpar sem þarna er á ferðinni. Að vissu marki á þetta sér eðlilegar og rökréttar skýringar, m.a. þær, að fólkið hefur yfirleitt sjálft stofnað til þessara tryggingaréttinda í frjálsum samningum. Hefur því ekki verið þörf til þessa fyrir bein afskipti löggjafans af þessum málum.

6. Í ljós hefur komið og viðurkennt af flestum að það lífeyristryggingakerfi, sem meginhluti þjóðarinnar ætlaði að treysta á, óverðtryggðu lífeyríssjóðirnir, er byggt á sandi og fær ekki staðist. Meginorsök þess er viðvarandi verðbólga sem að því er virðist kemst ekki niður á það hundraðshlutfallsstig að reikningslegar forsendur sjóðanna gagnvart tryggingaskuldbindingum geti staðist.

7. Eigi verður lengur umflúið, ef hv. Alþ. vill vera forustustofnun þjóðarinnar sem fólkið raunverulega krefst, að lífeyristryggingamálin í heild verði tekin hér til umr. og afgreiðslu með þeim hætti að sérhver einstaklingur, hvort sem hann er í stéttarfélagi eða ekki, öðlist þann rétt og tryggingu í lífeyrisgreiðslum að hann þurfi ekki að kvíða ellinni. Ef það kemur hins vegar í ljós að Alþ. eða alþm. hafi ekki áhuga á þessum málum, þá get ég fullvissað viðstadda þm. að það eru til þeir aðilar í þessu þjóðfélagi sem munu gera sinar ráðstafanir til þess að tryggja a.m.k. því fólki sem er í stéttarfélögunum að það þurfi ekki að kviða ellinni.

Við endurskipulagningu á lífeyriskerfi landsmanna verður að stefna að eftirfarandi:

1. Að tryggja öllum, sem eru komnir á ellilífeyrisaldur, að lokinni starfsævi viðunandi og mannsæmandi lífsviðurværi.

2. Að veita örorkulífeyrisþegum öryggi og viðunandi tryggingabætur.

3. Að auka barnalífeyri og bæta aðstöðu þeirra sem verr eru settir í þjóðfélaginu.

4. Að tryggja öllum konum, sem hafa þörf fyrir það, fæðingarlaun.

5. Að einfalda lífeyriskerfi þjóðarinnar og útrýma misrétti.

Skipulagslega séð er æskilegast að það lífeyriskerfi, sem myndað verður, sé þannig að fyrir þorra manna verði ekki þörf fyrir einhverja viðbótarsjóði eða kerfi til þess að auka hin almennu réttindi sem fólk öðlast samkv. því.

Þá er óumflýjanlegt að kerfið geri ráð fyrir nokkurri lífeyrisjöfnun, þannig að lífeyrishlutfall hinna tekjulægri sé hærra en hinna tekjuhærri. Til þess að hið nýja kerfi verði ekki hemill á eðlilega framþróun á sviði lífeyrismála þarf að taka sem mest tillit til einstaklingsbundinna og stéttarlegra þarfa. Verður vikið nánar að þessum atriðum síðar í tengslum við skýringar á því frv. sem hér er lagt fram.

Ég hef orðið þess var að sumum finnst það mikið í fang færst að einn þm. skuli leggja fram jafnumfangsmikið frv. og hér um ræðir. Það, að ég skuli leyfa mér að gera slíkt, tel ég að eigi sér eðlilegar og rökréttar ástæður sem ég vil greina nokkuð frá.

Allt frá árinu 1966 hef ég átt sæti í stjórn stærsta einkalífeyrissjóðs landsmanna, sem er Lífeyrissjóður verslunarmanna. Sjóðfélagar eða félagsmenn í þeim sjóði eru nú um 15 þús. talsins og höfuðstóll sjóðsins 31. des. 1975 var um 2.5 milljarðar króna og eykst væntanlega um 1 milljarð kr. á yfirstandandi ári. Þessi sjóður hefur vaxið hratt á síðustu árum. Hefur hann hafi yfir miklu ráðstöfunarfé að ráða, en tryggingabætur til lífeyristaka hafa ekki aukist hlutfallslega að sama skapi og ráðstöfunarfé. Reglugerð og reikningslegar forsendur fyrir uppbyggingu sjóðsins, en það mun einnig eiga við um marga aðra óverðtryggða sjóði, er hér þrándur í götu. Miklum erfiðleikum er bundið að ná fram breytingum í sambandi við auknar tryggingargreiðslur úr lífeyrissjóðum sem byggðir eru upp á grundvelli lengri tíma uppsöfnunar, og skal ekki farið nánar út í það á þessu stigi.

Þróun verðbólgu á Íslandi á síðustu áratugum hefur valdið forráðamönnum lífeyrissjóða miklum áhyggjum og þó alveg sérstaklega þeim sem eru ábyrgðarmenn óverðtryggðu sjóðanna. Útilokað hefur verið að tryggja hag sjóðanna með ávöxtun sem hefði getað mætt neikvæðum áhrifum verðbólgunnar á raungildi þess fjármagns sem hér um ræðir þegar komið hefur að bótagreiðslum til sjóðfélaga.

Við, sem höfum borið ábyrgð á Lífeyrissjóði verslunarmanna, höfum haft mjög miklar áhyggjur af þróun þessara mála. Það stéttarfélag, sem er sá aðili er stendur að baki þessum sjóði, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, hefur lagt mikla áherslu á að sá hluti í kjörum fólksins, sem lífeyrisréttindin eru, skilaði þeim árangri sem til var efnt við stofnun sjóðsins árið 1956.

Fyrir nokkrum árum var okkur ljóst að núverandi fyrirkomulag þessara mála gat ekki staðist. Þess vegna var sú ákvörðun tekin af hálfu Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Landssambands ísl. verslunarmanna að rækilegar athuganir skyldu hafnar á lífeyrissjóðsmálum, bæði með tilliti til hugmynda að jákvæðri heildarlausn þessara mála og með sérstöku tilliti til sjóðfélaga Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Formanni VR og tryggingafræðingi félagsins, Pétri H. Blöndal, var falið þetta verkefni.

Hluti þessa starfs birtist í framlögðu frv. til l. um Lífeyrissjóð Íslands. Má líta á það sem framlag verslunarfólks til hugsanlegrar lausnar á þess eigin vandamáli á sviði lífeyristrygginga á breiðum grundvelli og einnig á vanda þjóðarinnar í heild í lífeyrismálum. Það var mat okkar að fengnum tryggingafræðilegum niðurstöðum að rétt væri á þessu stigi málsins með tilliti til velferðar alls þorra landsmanna að formaður VR, sem á sæti á Alþ., freistaði þess að tekin yrði upp nýskipan í lífeyrismálum á grundvelli gegnumstreymiskerfis, eins og það birtist í framlögðu frv. Fái sú hugmynd ekki hljómgrunn á hinu háa Alþ. liggur það næst fyrir af hálfu þeirra aðila, er standa að baki flm. við gerð og undirbúning frv., að vinna að breyttri skipan þess lífeyrissjóðs er ég gat um hér áðan, þannig að sjóðurinn veiti sínum lífeyrisþegum þær lífeyrisbætur, sem frv. þetta gerir ráð fyrir á grundvelli gegnumstreymis.

Að sjálfsögðu hafa margir aðrir en þeir, sem að þessu frv. standa, haft mikinn áhuga á því að nýskipan yrði tekin upp í lífeyrissjóðsmálum þjóðarinnar er tryggði meiri og betri lífeyrisbætur. Ég minni á störf Haralds Guðmundssonar fyrrv. alþm. og ráðh. á sviði tryggingamála. Sérstaklega ber þá að hafa í huga hina miklu og góðu athugun hans á lífeyrissjóðsmálum á Norðurlöndum. Birtust hugmyndir Haralds og athuganir í merkri skýrslu er kom út, að því er mig minnir, árið 1966. Árið 1967 sagði þáv. heilbrrh. Jóhann Hafstein í merkri ræðu á Landsfundi Sjálfstfl. er hann ræddi um hugmynd af lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn: „Eitt veigamesta atriðið á þessu sviði er að nú er unnið að undirbúningi löggjafar um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn.“

Það, að þessu máli var ekki hrundið í framkvæmd á þessum árum, mun m.a. stafa af því að verkalýðshreyfingin var þá sjálf að hefja undirbúning að því að semja um þessi réttindi á grundvelli eigin lífeyrissjóða, enda varð niðurstaðan sú er samningar voru undirritaðir milli aðila vinnumarkaðarins í maí 1969. Með þeim samningum var lagður grundvöllurinn að lífeyrissjóðum þeirra félaga innan ASÍ sem ekki höfðu þá þegar öðlast þessi réttindi. Hófu þessir sjóðir síðan starfrækslu 1. jan. 1970 á grundvelli reglugerða er aðilar höfðu komið sér saman um.

Margir aðrir þm. hafa sýnt lífeyrissjóðamálunum mikinn áhuga, þar á meðal hv. þm. Magnús Kjartansson og varaþm. Bjarnfríður Leósdóttir. Þau hafa bæði flutt hér á þingi þáltill. um verðtryggingu ellilífeyris. Þá hefur hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar, unnið mikið að þessum málum og stutt þau. Síðast, en ekki síst finnst mér viðeigandi að minnast þáltill. Ólafs Jóhannessonar núv. dómsmrh. er fram kom á þingi árið 1957 um athugun á stofnun lífeyrissjóðs fyrir alla landsmenn. Sem sagt, góðir og merkir þm. hafa lagt þessu máli líð á liðnum árum. Það, sem á hefur vantað til þessa, er að fyrir Alþ. lægi tæknilega útfært frv. er tryggði framgang þeirra hugsjóna á sviði lífeyrismála sem þm. úr öllum flokkum hafa tjáð sig fylgjandi.

Frv. það um Lífeyrissjóð Íslands, sem hér liggur fyrir, byggist á gegnumstreymiskerfi. Frv. felur í sér algjöra byltingu í framkvæmd lífeyrissjóðsmála þjóðarinnar. Með því eru þau vandamál, sem við blasa í sambandi við lífeyristryggingar, tekin allt öðrum tökum en ráð var fyrir gert við myndun og upphaf núverandi lífeyrissjóðakerfis. Í ljós hefur komið að það kerfi, sem menn hugðust notast við, hentar ekki nútíma kringumstæðum og alls ekki þeim verðbólguaðstæðum sem íslendingar hafa búið við í áratugi og búa að öllum líkindum við á næstu árum.

Uppsöfnunarkerfið hefur brugðist vonum fólksins sem stofnaði til lífeyrisréttinda á þeim grundvelli. Þess vegna vill mikill meiri hl. þjóðarinnar örugglega taka upp nýrra, betra og hagkvæmara lífeyriskerfi sem tryggir öldruðu fólki fullnægjandi lífeyristryggingar og veitir það öryggi sem fólk hefur þörf fyrir í ellinni.

Við gerð þessa-frv., sem hér liggur fyrir, var m.a. stuðst við reynslu vestur-þjóðverja á sviði tryggingamála, en þeir hafa búið við svipað lífeyriskerfi og frv. gerir ráð fyrir með mjög góðum árangri um árabil.

Með þessu frv. um Lífeyrissjóð Íslands er lagt til að grundvallarbreyting verði gerð á lífeyristryggingakerfi þjóðarinnar. Markmið breytingarinnar er að allir hafi sama rétt til fullnægjandi ellilífeyristrygginga á grundvelli ævitekna.

Jafnframt því sem tryggt er að allir njóti ákveðins lágmarksellilífeyris, er sé í samræmi við framfærslukostnað og verðlagsþróun á hverjum tíma, er það veigamikið atriði í þessu frv. að það tryggir öllum konum jafnan rétt til ellilífeyris á við karla, óháð því hvert er starf þeirra eða staða í þjóðfélaginu. Þar með er öllum húsmæðrum tryggður fullur réttur til ellilífeyris á við annað vinnandi fólk og lífsstarfi húsmæðra þar með gefið ákveðið verðmætisgildi.

Með frv. er í fyrsta skipti gerð till. um að fæðingarlaun séu felld inn í lífeyristryggingakerfi þjóðarinnar með eðlilegum hætti.

Flm. gerir sér grein fyrir að hér er um viðamikið mál að ræða er krefst nákvæmrar umr. og samráðs við mikinn fjölda aðila. En með því frv. til l. um Lífeyrissjóð Íslands, sem hér er lagt fram, eru lögð drög að nýrri uppbyggingu þessara mikilvægu trygginga fyrir alla landsmenn. Hljóti frv. hljómgrunn og skilning hjá hv. Alþ. er þess að vænta að það taki þeim breytingum í meðferð Alþ. er nauðsynlegar kunna að teljast til þess að lögin geti komið til framkvæmda 1. júní 1977, svo sem ráð er fyrir gert.

Nú hefur sú breyting orðið að mínu mati frá því að þetta frv. var lagt fram, með væntanlegu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um endurskipulagningu lífeyrissjóðsmála, að sú tímasetning, sem ég gerði ráð fyrir, færist hugsanlega til 1. jan. 1978.

Það er mikilvægt að eigi sé lengur látið dragast að koma lífeyrissjóðamálum íslendinga í viðunandi horf. Einnig er það mat verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda, svo sem fram kemur í samkomulagi því sem birt hefur verið þjóðinni í fjölmiðlum síðustu dagana

Frv. þetta felur í sér þá grundvallarbreytingu frá núverandi trygginga- og lífeyrissjóðakerfi að í stað svonefnds uppsöfnunarkerfis, er felst í tugum smárra og stórra sjóða, er tekið upp einfalt en árangursríkt gegnumstreymiskerfi er byggist á iðgjöldum sem ákveðin eru á hverjum tíma í samræmi við tryggingaþörf og verðlag er greiðslur eiga sér stað. Eins og nú er háttað safnast upp milljarðar kr. í 95 smáum og stórum lífeyrissjóðum. Verðbólguþróun undangenginna ára og grundvallaatriði í reglugerðum sjóðanna, eins og ég vék að áðan, varðandi langs tíma sjóðamyndun útiloka að hinir svonefndu óverðtryggðu sjóðir geti innt af hendi fullnægjandi lífeyrisgreiðslur. Þrátt fyrir hugmyndir um verðtryggingu á útlánum sjóðanna er fyrirsjáanlegt að það eitt út af fyrir sig mun ekki nægja til að greiða viðunandi ellilífeyri úr fjölda sjóða. Fé lífeyrissjóðanna brennur því stöðugt í báli verðbólgunnar, en aldrað fólk komið á ellilífeyrisaldur situr eftir með sárt enni. Er þetta gjörsamlega óviðunandi ástand sem verður að breytast.

Í umr. og því, sem skeð hefur í sambandi við yfirstandandi samningagerð hjá aðilum vinnumarkaðarins, er greinilegt að ef Alþ. hefur ekki forustu um að beina þróun þessara mála inn á heilbrigðari og betri brautir mun þjóðin innan tíðar sitja uppí með gjaldþrota lífeyrissjóði og mikinn fjölda lífeyrisþega er búa við mjög kröpp kjör.

Þetta segi ég þrátt fyrir það samkomulag sem ég hef tekið þátt í að gera vegna verkalýðshreyfingarinnar nú síðustu dagana, því að það er hvergi nærri fullnægjandi þó að það sé auðvitað betra en það sem fólk þurfti áður að búa við.

Ég vil þá skýra nokkuð núverandi lífeyristryggingakerfi. Það hvílir einkum á tveim meginstofnum Annars vegar er um að ræða greiðslur ellilífeyris úr lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins og hins vegar greiðslur úr nær 100 lífeyrissjóðum, eða 95 nánar tiltekið, sem eru í eigu ýmissa samtaka og félaga. Lífeyrir Tryggingastofnunar er svo sem kunnugt er almennur lífeyrir sem allir landsmenn eiga rétt á samkv. gildandi lögum. Er um að ræða ákveðinn grunnlífeyri sem frá 1. júlí 1975 hefur verið 16 139 kr. á mánuði. Að auki er sérhverjum elli- og örorkulífeyrisþega veitt ákveðin tekjutrygging til viðbótar við ellilífeyri ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega fara ekki fram úr ákveðinni upphæð á ári. Frá 1. júlí 1975 hefur ósert tekjutrygging verið 13 084 kr. á mánuði. Ellilífeyrir og óskert tekjutrygging voru með smáhækkun sem varð 1. des. 29 223 kr. á mánuði fyrir einstakling og 52 601 kr. fyrir hjón eða 90% af tvöföldum lífeyri einstaklings. Lífeyrisgreiðslur úr hinum einstöku lífeyrissjóðum eru mjög mismunandi. Sameiginlegt einkenni lífeyrissjóðanna er að lífeyrisgreiðslur eru háðar tekjum lífeyrisþega fyrir töku lífeyris og starfsaldri. Með hvaða hætti lífeyrir er háður tekjum er afar mismunandi eftir sjóðum. Sumir lífeyrissjóðir greiða ákveðinn hundraðshluta af meðaltekjum síðasta starfsárs, aðrir af meðaltekjum síðustu 5 starfsára enn aðrir taka tekjur yfir lengra tímabil inn í dæmið.

Lífeyrissjóðunum má skipta í tvo meginflokka eftir því hvort lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar eða ekki. Meginþorri allra landsmanna er í óverðtryggðum sjóðum, en opinberir starfsmenn, bankamenn og nokkrir aðrir starfshópar í sambærilegri aðstöðu njóta verðtryggðs lífeyris. Gífurlegur aðstöðumunur er á milli lífeyrisþega er njóta verðtryggðs lífeyris annars vegar og þeirra er taka greiðslur úr óverðtryggðu sjóðunum hins vegar. Eftir því sem verðbólgan er meiri eykst þessi munur í lífeyrisgreiðslum. Er nú svo komið að í þessu fyrirkomulagi felst gífurlega mikið þjóðfélagslegt ranglæti gagnvart sjóðfélögum óverðtryggðu sjóðanna. Vísa ég til ræðu minnar á síðasta þingi um þetta efni og þeirra dæma sem þar voru gefin. Ranglætið getur verið gífurlega mikið, þannig að sá, sem er með lífeyri úr óverðtryggðum, getur verið með aðeins 1 eða jafnvel 1/3 af því, sem sá er með sem fær ellilaun úr verðtryggðum sjóði. Er ég þá að tala um sjóðfélaga sem hafa unnið sambærileg störf.

Fjárhagsleg uppbygging hinna einstöku lífeyrissjóða í núverandi kerfi grundvallast á þeirri meginreglu að sérhver sjóðfélagi inni af hendi iðgjaldagreiðslur sem í langs tíma uppsöfnun og ávöxtun, venjulegast á 30 árum, nægir til að stunda undir væntanlegum lífeyrisgreiðslum til viðkomandi lífeyrissjóðsfélaga. Er því um að ræða hreint uppsöfnunarkerfi.

Í sambandi við ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á sér ekki stað nein uppsöfnun fjármagns. Árlegar tekjur í formi skatta eru litnar mæta áætluðum útgjöldum vegna þessara þarfa. Hér er því um að ræða gegnumstreymiskerfi, sem allir skattgreiðendur standa að baki á hverjum tíma.

Vil ég þá ræða nokkuð um galla núverandi lífeyrissjóðakerfis.

Sem fyrr er frá greint hefur óhagstæð verðlagsþróun og mikil verðbólga á síðustu árum leitt í ljós vangetu lífeyrissjóða í núverandi mynd til að standa við skuldbindingar sínar, auk þess sem ranglætið vegna mismunandi réttinda, sem þeir veita, kemur stöðugt skýrar fram. Iðgjöld til lífeyrissjóðanna eru yfirleitt um 10% ef dagvinnutekjum félagsmanna. Iðgjaldatími er yfirleitt um 30 ár. Þegar til fullrar lífeyrisgreiðslu kemur við 67 ára aldur hafa sjóðfélagar almennt greitt sem svarar 3 árslaunum í iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs. Við 67 ára aldur nú er ólifuð meðalævi talin vera um 14 ár. vegna ákvæða núverandi reglugerða lífeyrissjóðanna sem gera ráð fyrir að sjóðfélagar fái ellilífeyrisgreiðslur á grundvelli launa síðasta starfsárs eða síðustu starfsára fyrir töku lífeyris er dæmið mjög alvarlegt í reynd.

Ávöxtunarmöguleikar sjóðanna eru bundnir við hæstu leyfilega vexti sem undanfarin 30–40 ár hafa verið mun lægri en vöxtur verðbólgunnar. Um jákvæða ávöxtun á iðgjöldum hefur því ekki verið að ræða. Eftir því sem næst verður komist nægja iðgjöld lífeyrissjóðsfélaga sem hefur töku lífeyris nú, varla til að greiða lífeyri hans í 12 mánuði þrátt fyrir hæstu leyfilega vexti.

Lífeyrissjóðirnir í núverandi mynd geta því ekki staðið við skuldbindingar sínar og veita lífeyrissjóðsfélögum ófullnægjandi lífeyri. Kemur þetta skýrar í ljós eftir því sem sjóðurinn er eldri og ellilífeyrisþegum fjölgar í viðkomandi lífeyrissjóði.

Verðtryggðir sjóðir hins opinbera vernda sjóðfélaga sína gegn verðbólgunni. Hið sama gildir ekki um sjóðfélaga hinna óverðtryggðu sjóða. Auk hins mikla misréttis, sem þetta hefur í för með sér, getur þetta tvöfalda kerfi misréttis í ellilífeyrisgreiðslum haft afar óæskileg áhrif á eðlilegt streymi fólks milli starfsgreina. Hlýtur núverandi fyrirkomulag að verka eins og hvati á fólk að leita eftir atvinnu hjá hinu opinbera sem veitir hið mikla afkomuöryggi í ellinni sem verðtryggður lífeyrir er. Lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga verðtryggðu lífeyrissjóðanna taka síðan hlutfallslegum breytingum í samræmi við umsamdar launabreytingar á þeim launaflokki, sem viðkomandi bjó við, þegar taka ellilífeyris hófst.

Í óverðtryggðu sjóðunum fær ellilífeyrisþegi ákveðna krónutölu á grundvelli áminna réttinda. Tekur þessi krónutöluupphæð engum breytingum síðar hvað sem líður verðlagsþróun eð.a kaupgjaldsbreytingum. Með tilliti til þessa eru lífeyrisþegar óverðtryggðu sjóðanna afkomulega mjög háðir ákvörðunum Alþ. á hverjum tíma varðandi heildarupphæð ellilífeyris. Við núverandi aðstæður ráða greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins algjörlega úrslitum fyrir þetta fólk. Þrátt fyrir mikla uppsöfnun fjár í óverðtryggðu sjóðunum greiða þeir óverulegan ellilífeyri. Sem dæmi mætti taka ellilífeyrisþega óverðtryggðs lífeyrissjóðs sem hóf töku ellilífeyris árið 1970. Almennur láglaunamaður hefði þá getað fengið 7200 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði sínum á grundvelli þáverandi kaupgjalds og miðað við 60% réttindi og 5 ára meðaltal. Nú, 5 árum síðar, fengi hann enn óbreytta krónutölu úr sjóðnum, 7200 kr., að viðbættum 16 139 kr. sem grunnlífeyri og 11 150 kr. í tekjutryggingu, eða samtals 34 489 kr. Þetta þýðir að viðkomandi ellilífeyrisþegi fengi 27 289 kr. á mánuði í ellilífeyri frá Tryggingastofnuninni eða yfir 79% ellilífeyrisins. Þetta hlutfall og þar með þáttur almannatryggingakerfisins hækkar eftir því sem lengra líður frá töku lífeyris. Í reynd er það því Tryggingastofnun ríkisins, sem tekur að sér meginmagn allra ellilífeyrisgreiðslna annarra en til þeirra. sem fá greiðslur úr verðtryggðu sjóðunum. Til þess að mæta þessum greiðslum þarf árlega að skattleggja landsmenn sérstaklega. Við aukna verðbólgu og fjölgun ellilífeyrisþega verður slík skattlagning jafnt og þétt þyngri. Á sama tíma fara 10% af svo til öllum launagreiðslum í landinu í uppsöfnun fjármagns í lífeyrissjóðunum. Tiltölulega lítill hluti þessa fjármagn fer í ellilífeyrisgreiðslur og mun vikið að því síðar.

Ég álít að íslenskar aðstæður þoli ekki þetta tvöfalda álag vegna tryggingamála við það gífurlega ósamræmi sem þarna á sér stað í tilflutningi fjármagns. Er það tímaspursmál hvenær þessi spilaborg hrynur til grunna, bæði af peningalegum og félagslegum ástæðum. Hinar peningalegu ástæður eru þær, að þeir, sem eiga að bera ábyrgð á fjármagni lífeyrissjóðanna, geta ekki horft upp á það að þessi mikli sparnaður verði að engu í báli mikillar verðbólgu eða að peningarnir séu teknir og þeim ráðstafað með öðrum hætti en upphaflega var gert ráð fyrir. Hugsanleg verðtrygging á fjármagni sjóðanna í formi útlána og kaupa á verðtryggðum skuldabréfum mundi hvergi nægja til að tryggja stöðu sjóðanna, auk þess sem mjög ber að draga í efa að íslenskir lántakendur, hvort sem um er að ræða launafólk eða atvinnufyrirtæki, geti staðið undir þeirri miklu verðtryggingin sem mikil verðbólga hefur í för með sér. Er það auðvitað mál út af fyrir sig sem alþm. ættu að huga að og ræða meira hér á þingi.

Félagslegar og stjórnmálalegar afleiðingar þessarar þróunar eru augljósar hverjum manni sem þekkir eitthvað til afkomu manna. Það er gjörsamlega óviðunandi að skylda fólk til mikils sparnaðar, lána því svo eigið fé með háum vöxtum og greiða því síðan að lokum ófullnægjandi ellilífeyri að loknu ævistarfi. Slíkt kerfi stenst ekki. Þess vegna ber hið fyrsta að hverfa frá núverandi söfnunarkerfi og taka upp nýtt lífeyrisgreiðslukerfi sem mætir þörfum tryggingaþega miðað við hinar hröðu, óvissu breytingar sem hafa verið og eru í efnahagslífi þjóðarinnar. Jafnframt þurfa allir landsmenn að njóta sama réttar til ellilífeyris á grundvelli ævitekna og tekjuhlutfalls, óháð því hvað þeir starfa. Þá eiga allar konur að njóta fulls og sama réttar til ellilífeyrisgreiðslna án tillits til stöðu, en í fullu samræmi við ævitekjur sem geta verið annað tveggja til orðnar vegna vinnu utan heimilis eða innan þess.

Sú kerfisbreyting á lífeyrismálum þjóðarinnar, sem hér er gerð tillaga um, tryggir konum, er vinna heimilisstörf, ellilífeyri á grundvelli tekna heimilisins. Felur það í sér mikla og sjálfsagða réttarbót og því misrétti þá jafnframt útrýmt sem ríkt hefur í þessum efnum. Með tilliti til álagningargrundvallar þess kerfis, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. gegnumstreymiskerfis, en það byggist á tekjum manna á hverjum tíma, er sjálfsagt og eðlilegt að ellilífeyrir miðist við ævitekjur. Hins vegar er nauðsynlegt að hið nýja lífeyriskerfi sé þannig uppbyggt að tekjulitlu eða tekjulausu fólki verði tryggður ákveðinn lágmarksellilífeyrir, og er það gert í þessu frv. rn það þarf væntanlega að vera hærra en reiknað var með þegar gengið var frá reikningslegum forsendum þess. Skal vikið nokkru nánar að því hér á eftir.

Ég vil fara nokkrum orðum um hina tæknilegu hlið frv. þ.e.a.s. hinar tæknilegu skýringar þess, og vil þá jafnframt vísa til grg. sem fylgir lagafrv. Með þessu frv. eru sett upp nokkur dæmi til þess að skýra á einfaldan hátt hvað í þessu kerfi raunverulega felst. Lífeyrisgreiðsla samkv. frv. þessu er háð tveimur meginatriðum. Í fyrsta lagi byggist greiðsla á ævitekjum einstaklings og er lífeyrisprósentan mælikvarði á vinnuframlag hans. Í öðru lagi er greiðslan háð svokölluðum vísitekjum, þ.e.a.s. verðtryggð. Lífeyrisprósentan er meðaltal tekjuhlutfalla einstaklings um starfsævina, leiðréttra. Prósentan er því mælikvarði á það hvað einstaklingurinn hefur haft að meðaltali í tekjur um ævina samanborið við samtíðarmenn sína. Leiðrétting tekjuhlutfallanna, hækkun í 0.5 eða lækkun í 3.0 ef þau eru undir 0.5 eða yfir 3.0, er tilraun til að meta vinnuframlag hinna tekjulitlu eða tekjulausu og um leið stuðlar hún að tekjuöflun, því að þeir, sem að hafa mjög háar tekjur, greiða af lífeyri sínum til hinna sem eru mjög tekjulágir. Þetta á að tryggja að enginn fái lægri lífeyri en sem nemur 30% af vísitekjum eða helming meðallífeyris, en það er, eins og ég gat um áðan, ef til vill of lág prósenta.

Skv. frv. skipta hjón með sér þeim lífeyrisréttindum sem þau afla í sambúðinni, enda er erfitt að meta sérstaklega vinnuframlag þess er vinnur á heimilinu, og hins aðilans, sem aflar tekna utan heimilis. Þessi tilhögun stuðlar að frekara jafnrétti kynjanna þar sem húsmóðirin hefur til þessa búið við skarðan hlut. Með hliðsjón af þessu er óþarft að hafa sérstök ákvæði um makalífeyri í frv.

Á grundvelli skattaframtala er tekjuhlutfallið fundið út. Þetta fyrirkomulag hlýtur að stuðla að því að skattaframtöl verða nákvæmari.

Með vísitekjum er gerð tilraun til að meta meðaltekjur á hverjum tíma til þess að lífeyrir hækki í hlutfalli við aðrar tekjur. Lífeyrisþegar eiga með þessum hætti að vera tryggðir gegn áhrifum verðlagshækkana og verðbólgu. Það, að lífeyrisprósentan í elli- og örorkulífeyri er ævitekjuhlutfallið margfaldað með 60, þýðir að ellilífeyrisþeginn fær 60% af meðaltekjum sínum verðtryggðum í lífeyri. Sá, sem aldrei hefur haft neinar tekjur, fær ævitekjuhlutfallið 0.5 og þar með: 30% af meðaltekjum á hverjum tíma.

Í frv. eru tekin nokkur dæmi og vil ég vísa til þriggja í þessari framsögu.

Við útreikninga er stuðst við gróft mat á vísitekjum í janúar, febrúar og mars 1976. Samkv. upplýsingum í Hagtíðindum voru heildarbrúttótekjur árið 1974 88.5 milljarðar kr. Tala framteljenda var 103 274, þar af voru 42 030 kvæntir, 12 469 lífeyrisþegar og eignafólk var með heildartekjur að upphæð 4 775 millj. kr. Samkv. þessu voru 127 760 manns á aldrinum 16–67 ára með samanlagðar tekjur að upphæð 83.7 milljarðar kr., eða meðaltekjur 655 190 kr. Gert er ráð fyrir sama giftingarhlutfalli ellilífeyrisþega og annarra. Hækkun vísitölu framfærslukostnaðar frá 1. júlí 1974 til 1. jan. 1976 nam 69.9%. Vísitölutekjur eru þá samkvæmt þessu nálægt 1 millj. og 113 þús. kr. frá 1. jan. 1976 eða 92 750 kr. á mánuði. Í samræmi við þessar forsendur fást eftirfarandi niðurstöður í þeim dæmum sem ég kem með hér á eftir.

1. Gert er ráð fyrir einhleypum launamanni sem vinnur frá 17 ára aldri til 67 ára aldurs og með ævitekjuhlutfallið einn heilan. Þessi maður mundi samkv. framangreindu fá 55 650 kr. í ellilífeyri á mánuði.

2. Ef tekið væri annað dæmi um launamann með sama tekjuhlutfall er kvæntist 27 ára gamall og að eiginkona væri jafngömul og ynni ekki úti eftir giftingu, en annaðist börn og heimili, þá mundi ævitekjuhlutfall mannsins verða 0.805, en konunnar 0.765, eins og fram kemur í grg Ellilífeyrir mannsins yrði 44 798 kr., en konunnar 42 572 kr., eða samtals hjá þeim báðum 87 370 kr. á mánuði. Yrði um verulega bót að ræða, fyrir slík hjón frá því, sem nú er, miðað við þær greiðslur sem þetta fólk fær úr almannatryggingakerfinu og úr óverðtryggðum lífeyrissjóði, ég tala nú ekki um úr óverðtryggðum sjóði.

3. Þá skal tekið dæmi um einstakling sem er í vel launaðri stöðu. Það er reiknað út frá upplýsingum úr opinbera kerfinu um háembættismann þar sem hvort tveggja hjóna ynni úti. Eiginmaðurinn fær ævitekjuhlutfall 1.49 og konan 1.56. Ellilífeyrir mannsins yrði 82 919 kr., en konunnar 86 814 kr. Samanlagður lífeyrir þessara hjóna ef bæði væru í góðum stöðum, yrði þá 169 733 kr. á mánuði.

Að sjálfsögðu væri hægt að finna og búa til mörg fleiri dæmi, en ég læt þetta nægja.

Hins vegar vil ég taka fram eftirfarandi í sambandi við útreikning um það hvað einstaklingur mundi fá sem aldrei hefði haft neinar tekjur. Í grg. er gert ráð fyrir að ævitekjuhlutfall 0.50 og 30% reglan mundi skila þessum einstaklingi 27 825 kr. Það er að mínu mati of lágt. Það þyrfti að hækka þá prósentu og það lágmark sem hér um ræðir. Varðandi þetta atriði áskil ég mér allan rétt til þess að endurskoða þau hlutföll, er hér um ræðir á síðari stigum þessa máls.

Þá vil ég víkja nokkuð að því atriði í frv. sem snýr að fæðingarlaunum. Í frv. þessu er tekið upp það nýmæli að veita konum hið minnsta þriggja mánaða fæðingarlaun, hvort sem um er að ræða konur sem vinna utan heimilis eða innan. Til þessa hafa konur búið við mjög misjöfn kjör fjárhagslega séð þegar svo hefur verið ástatt um þær sem hér um ræðir. Sumar konur njóta nú þegar þriggja mánaða fæðingarlauna, en svo eru aðrar sem fá engar greiðslur. Til þess að leiðrétta þetta misrétti hefur verið gripið til ýmissa úrræða. M.a. hafa verið samþ. lög frá Alþ. sem skylda Atvinnuleysistryggingasjóð til að greiða fæðingarorlof til kvenna sem starfa úti í atvinnulífinu og eru aðilar að almennum verkalýðsfélögum. Fyrir Alþ. liggur nú till. til þál. um fæðingarorlof bændakvenna. Þótt þessum konum verði tryggt fæðingarorlof er enn mikill fjöldi kvenna sem flokkast ekki undir nein lög eða reglur sem tryggja þeim fæðingarlaun. Með þessu frv. er viðurkenndur réttur allra kvenna til fæðingarlauna.

Í frv. er gert ráð fyrir því að þær konur, sem ekki eru útivinnandi, fái ákveðna lágmarksupphæð sem er 18 550 kr. á mánuði, miðað við núverandi vísitekjur. En ég vil taka það fram að þessi upphæð er of lág og þarfnast endurskoðunar til samræmis við hækkun á prósentunni um lágmarksellilífeyri sem ég gat um áðan.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að iðgjaldagreiðslum.

Grundvallaratriði frv. varðandi tekjuöflun til að fullnægja þeim tryggingaskuldbindingum, sem í frv. felast, er að á hverjum tíma sé lagt á iðgjald er mæti þeim tryggingagreiðslum, sem Lífeyrissjóður Íslands á að inna af hendi. Tryggingafræðingum skal falið það verkefni sérstaklega að reikna út iðgjaldið á grundvelli tölfræðilegra upplýsinga þar að lútandi. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að iðgjald til Lífeyrissjóðsins verði ákveðin prósenta af heildartekjum einstaklings. Þetta verður að teljast eðlilegt þar sem lífeyrir er einnig háður heildartekjum. Þá er sá háttur á hafður að viðkomandi einstaklingur greiði allt iðgjaldið sjálfur, en ekki vinnuveitandi hluta eins og nú tíðkast. Hins vegar er gert ráð fyrir því að laun hækki sem nemi iðgjaldaprósentu vinnuveitandans í núverandi kerfi lífeyrissjóða. Í dag mun hin almenna regla um greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóði vera sú að vinnuveitandi greiði 6% af launum viðkomandi starfsmanns, en starfsmaður sjálfur 4%, eða samtals 10%. En þess eru dæmi að iðgjaldaprósentur séu hærri. Þessi háttur á iðgjaldagreiðslu er eðlilegri en sá að hafa iðgjaldagreiðsluna tvískipta, auk þess sem hann gefur viðkomandi manni betra tækifæri til þess að fylgjast með þróun þessara mála og hugsanlegum breytingum. Þá mundi iðgjaldi verða að fullu frádráttarbært til skatts hjá viðkomandi einstaklingi.

Um það, hvað iðgjaldaprósenta þyrfti að vera há miðað við forsendur frv., er eftirfarandi að segja:

Ef ellilífeyrir er tekinn fyrst, þá er þess fyrst að geta að framreikningar yfir aldursdreifingu íslendinga næstu 15 árin hafa sýnt að fjöldi þeirra, sem eru eldri en 67 ára, er um það bil 13% af fjölda þeirra sem eru á aldrinum 16–67 ára. Ef gert er ráð fyrir að ævitekjudreifing breytist ekki verulega milli kynslóða og að ellilífeyrir sé 60% af meðaltekjum þarf iðgjald fyrir ellilífeyri að vera 7.8%. Um örorku- og barnalífeyri er það að segja, að upplýsingar um tíðni og hæð örorku svo og dreifingu barnalífeyris eru af mjög skornum skammti hér á landi. Þó má ætla samkv. upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins að örorku- og barnalífeyrir færi ekki fram úr helming upphæðar ellilífeyris. Iðgjald fyrir þessar lífeyrisgreiðslur þarf því ekki að vera hærri en 3.9%. Um fæðingarlaunin er það að segja, að árlegar fæðingar á Íslandi eru nú um 4000 talsins. Ef gert er ráð fyrir að helmingur mæðra sé með meðaltekjur, en hinar með 20%, fæst 0.65% iðgjald miðað við 93 000 iðgjaldagreiðendur.

Á grundvelli framangreindra forsenda má búast við að væntanlegt iðgjald vegna þeirra trygginga, sem þetta frv. nær til, þyrfti að vera 12.4% af heildartekjum allra einstaklinga í landinu. Nú greiða vinnuveitendur beint 6% í hina ýmsu lífeyrissjóði vegna starfsmanna sinna og óbeint 1.5% til Tryggingastofnunarinnar. Launafólk greiðir sjálft beint í lífeyrissjóðina 4% af dagvinnutekjum. Auk þess greiða þessir aðilar sameiginlega háar upphæðir í formi skatta til Tryggingastofnunar ríkisins til að mæta ellilífeyris-, örorku- og barnalífeyrisgreiðslum.

Ég mun ekki fara nánar inn á það að ræða um lífeyrissjóðina, iðgjöld þeirra og iðgjaldagreiðslur né ávöxtun sjóðanna. Þó get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli þm. á því að samkv. upplýsingum, sem fengist hafa frá þeim aðilum sem annast upplýsingasöfnun um þróun lífeyrissjóða í landinu, mun mjög óverulegur hluti af þeim peningum, sem safnast upp í lífeyrissjóðunum, fara til lífeyrisgreiðslna. Sem dæmi vil ég geta þess að árið 1974 fóru aðeins 7.66% af eignum sjóðanna til slíkra greiðslna, en miðað við tekjur sjóðanna á því ári var um að ræða 25.38% eða 1/4 af árlegum tekjum þeirra. En eins og ég gat um áðan fer meginhlutinn af fjármagninu til útlána í formi óverðtryggðra lána.

Ég vil þá að lokum víkja nokkuð að þeim kafla frv. þar sem fjallað er um stjórn og tryggingaráð.

Gert er ráð fyrir mjög fjölmennu tryggingaráði sem er samansett af fulltrúum þeirra aðila sem hér eiga helst hagsmuna að gæta. Ég vil taka það strax fram, að það kemur auðvitað til greina að þeir aðilar, sem mynda tryggingaráð, öðlist rétt gegnum þetta frv. að eiga aðild að stjórn Lífeyrissjóðs Íslands, þannig að Alþ. gæti annaðhvort fjölgað kjörnum fulltrúum í stjórninni eða fækkað þeim sem væru kjörnir hér og aðilar fengju þá tilnefningarrétt um ákveðinn fjölda fulltrúa.

Það atriði hefur mjög verið til umræðu meðal þeirra sem bera ábyrgð á peningamálum þjóðarinnar, að ef þetta frv. yrði að lögum mundi minnka sú uppsöfnun fjármagns sem þeir telja nauðsynlega vegna peningakerfisins. Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta atriði að svo stöddu í sambandi við þetta frv., en get þó ekki látið hjá líða að segja þetta:

Það var aldrei tilgangurinn hjá þeim stéttarfélögum, sem þurftu að fórna, ég segi: þurftu að fórna í stöðunni kauphækkunum fyrir það að öðlast þessi réttindi, að með því ætti verkalýðshreyfingin eða það fólk, sem stendur að baki lífeyrissjóðanna. að leggja grundvöll að skyldusparnaðarkerfi þjóðarinnar. Það er hins vegar annað mál ef það hefur orðið þjóðinni til góðs að þessi sjóðamyndun hefur leitt til þess. En það hlýtur að vera meginatriði og meginstefna bæði þeirra, sem standa að sjóðunum og hafa myndað þá og einnig Alþ. að þetta sjóðakerfi skili þeim tilgangi og þeim meginmarkmiðum sem lífeyrissjóðunum er ætlað, sem er að vera tryggingasjóðir vegna ellinnar, en ekki peningastofnanir til þess að tryggja peningakerfi þjóðarinnar á hverjum tíma. Um stöðu peningakerfisins við breyttar aðstæður hlýtur þó Alþ. að fjalla þegar þar að kemur ef vandamálið er jafnmikið og þeir aðilar halda fram sem bera ábyrgð á fjármála- og peningakerfi þjóðarinnar. Alþ. hlýtur að fjalla um það þegar þar að kemur hvaða leiðir koma til greina til þess að veita þær tryggingar sem máli skipta í sambandi við nauðsynlegan sparnað í þjóðfélaginu.

Ég gat um það áðan og skal ekki vora langorður um það að aðilar vinnumarkaðarins hafa væntanlega gert með sér samkomulag um bráðabirgðalausn í sambandi við fyrirhugaða endurskipulagningu lífeyriskerfisins. Er um að ræða tveggja ára tímabil. Hér er auðvitað ekki um samning að ræða enn sem komið er vegna þess að enn hefur ekki verið staðið upp frá samningaborðinu og samningar undirritaðir. Það samkomulag, sem birt hefur verið þjóðinni í fjölmiðlum varðandi þetta efni, er öllum kunnugt um þannig að ég tel mig ekki brjóta trúnað þótt ég greini hér frá nokkrum atriðum úr þessu samkomulagi sem ég tel æskilegt fyrirkomulag á meðan þetta stóra mál er í meðförum Alþ. og einnig hjá þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli úti í þjóðlífinu.

Það samkomulag, sem aðilar hafa gert með sér varðandi endurskipulagningu lífeyriskerfisins, er, eins og ég gat um áðan, algjört bráðabirgðasamkomulag a.m.k. skil ég það þannig. En markmið þess er að á næstu tveimur árum verði unnið að því að koma á samfelldu lífeyriskerfi sem taki helst til allra landsmanna. Tei ég það vera alveg í samræmi við megintilgang þess frv. sem hér er til umræðu.

Enn fremur er það í samkomulaginu að lífeyrissjóðir og almannatryggingar tryggja öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri er fylgi þróun kaupgjalds á hverjum tíma. Er það í samræmi við það atriði í frv. sem lýtur að vísitekjum.

Þá er það einnig í samkomulaginu að auka skuli jöfnuð og öryggi meðal landsmanna sem lífeyris eiga að njóta. Það atriði er einnig í framlögðu frv.

Þá er í samkomulaginu ákvæði um að lífeyrisaldur geti innan vissra marka verið breytilegur eftir vali hvers og eins lífeyrisþega, en án þess að það hafi áhrif á útgjöld kerfisins, þ.e.a.s. lífeyrir verður því lægri sem taka hans hefst fyrr.

Þá er og gert ráð fyrir í samkomulaginu að unnt verði að finna réttlátan grundvöll fyrir skiptingu á unnum lífeyrisréttindum milli hjóna. Ég skil það þannig að sá réttláti og rétti grundvöllur sé sá grundvöllur sem er í framlögðu frv.

Þá er gert ráð fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum ríkisins skipi n. til þess að fjalla um þessi mál, þ.e.a.s. lífeyrismálin, og þeir komi sér saman um ákveðnar till. eða hugmyndir fyrir septemberlok 1976. Í sambandi við síðari framkvæmd þessara stefnumarkmiða er gerð sú úrlausn til bráðabirgða að lífeyrissjóðirnir hafa fallist á að greiða 4% af iðgjaldatekjum hvors árs, þ.e.a.s. áranna 1976 og 1977, í sameiginlegan sjóð til þess að bæta þann ellilífeyri sem hefur ver:ð algjörlega ófullnægjandi. Ég vil taka það strax fram að þetta fyrirkomulag felur í sér mjög misjafnlega háar greiðslur frá einstökum lífeyrissjóðum og einnig koma misjafnlega háar upphæðir til baka til sjóðfélaga úr einstökum stéttarfélögum. En það skiptir auðvitað ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er að allir, sem þessara réttinda þurfa að njóta, njóti þeirra þó svo að framlag einstakra lífeyrissjóða í þennan heildarsjóð sé mismunandi þennan takmarkaða tíma, þar til nýja kerfið kemst í framkvæmd.

Ég vil undirstrika það og taka fram af hálfu okkar sumra sem höfum staðið að þessu bráðabirgðasamkomulagi varðandi ellilífeyrismálin að við teljum það ekki fullnægjandi þó að í samkomulaginu felist bót frá því sem áður var. Við tökum þátt í þessari bráðabirgðalausn með þeim fyrirvara að tekið verði upp annað og betra kerfi eigi síðar en 1. jan. 1978, gegnumstreymiskerfi sem tryggi frambúðarlausn á þessum málum.

Ég vil svo að lokum segja þetta:

það er mín skoðun að Alþ. hljóti og verði að hafa forustu í þessum málum. Þúsundir manna eru í engum stéttarfélögum. Mikill fjöldi ellilífeyrisþega, sem voru í stéttarfélögum áður fyrr, eru hættir afskiptum af málum sinna gömlu félaga og geta þar af leiðandi ekki gætt hagsmuna sinna og stöðu sem skyldi innan þeirra, þar sem áhrif þeirra hafa farið þverrandi af skiljanlegum ástæðum. Alþ. verður nú að þora að hafa skoðun og taka afstöðu til þessara almennu og mikilvægu hagsmunamála, hafa jákvætt frumkvæði, ekki aðeins í orði, heldur einnig í verki. Hér er um mál að ræða sem varðar ekki aðeins stéttarfélög, heldur þjóðina í heild.

Í trausti þess, að hv. þm. skoði þetta mál gaumgæfilega, vona ég að þeir sýni nú þjóðinni einu sinni, eftir, að því er ég vil segja, margra ára eða áratuga athugun, að þeir geti hjálpað — ég segi: hjálpað og stutt við bakið á öldruðu fólki og öryrkjum sem búa við óverðtryggðan ellilífeyri. Hv. þm. hlýtur að vera það kappsmál, sérstaklega þegar það er haft í huga að alþm. hafa sjálfir búið við þessi réttindi, verðtryggðan ellilífeyri, að því er mér skilst á annan áratug. Það, hvort alþm. taka nú af skarið og hafa skoðanir á þessu og koma ellilífeyrismálum í höfn, getur verið nokkur mælikvarði á það hvort alþm. eru raunverulega þeir forustumenn þjóðarinnar sem ég álít að fólkið í landinu geri kröfur til og ég vil bæt a við: þjóðin hefði þörf fyrir.

Ég er sannfærður um að í þessu frv. felist sú leið sem hlýtur að verða farin í lífeyristryggingamálum íslensku þjóðarinnar á komandi árum. Það er auðvitað óhjákvæmilegt og sjálfsagt að málið taki breytingum í meðförum og aðrir aðilar komi þar að og fjalli um þessi mál. En það er mitt mat og margra annarra að sú grundvallarhugsun, sem felst í þessu frv., muni sigra að lokum öldruðum íslendingum til blessunar. Það verður að tryggja eldra fólki réttlátari hluta þjóðartekna en verið hefur hingað til. og það verður að verja eldra fólk gegn verðbólgu og sjá til þess að gamla fólkið þurfi ekki alltaf að eiga undir því ár frá ári hvernig styrkur stéttarfélaganna er á hverjum tíma til þess að tryggja því þessi sjálfsögðu réttindi. Til þessa hefur Alþ. ekki haft frumkvæði í málinu og það er tími til kominn að svo verði.

Það er ósk mín og von að alþm. taki vel í þetta frv. og gangi þannig til verka varðandi afgreiðslu þess að hinir öldruðu geti búið við öryggi og góða lífsafkomu að lokinni starfsævi á grundvelli þess.