25.02.1976
Efri deild: 62. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég tók til máls um þetta frv. í fyrra og skal reyna að endurtaka sem minnst af því nú, árétta aðeins fáein atriði, en vísa að öðru leyti til ræðu minnar þá.

Hér er um merkt lagafrv. að ræða út af fyrir sig, það er a.m.k. nóg lesefni, ekki vantar það. Spurning er auðvitað um hversu tímabært það er, miðað við aðra þætti okkar menntakerfis. Ég hygg að það sé ekki síðra að huga að því einnig í leiðinni. Það er sannarlega nauðsynlegt að gefa fullorðnum möguleika á að afla sér menntunar, bæði að afla sér nýrrar menntunar og auka við fyrri menntun, sem er oft brýn nauðsyn í takt við tímans rás. Hin eina og sanna lausn í þessum efnum er vart fundin, en vegvísir mun þetta vera og vel virðist undirbúningur vera vandaður til þessa ef marka má þau ósköp af lesmáli sem við höfum hér fyrir framan okkur. Og vafalaust er margt af því þörf lesning þó að ég hafi aldrei komist yfir það í fyrra að lesa nema hluta af því, það sem mér sýndist markverðast.

Ég vil taka undir þau þrjú markmið sem koma fram í 1. gr., þau eru réttmæt, hvernig fullorðinsfræðsla getur verið: skólanám, hliðstæða frummenntunar, starfsnám, viðbótarmenntun, endurmenntun og ummenntun — nýyrði — í tengslum við atvinnulífið í viðtækustu merkingu og frjálst nám og frístundamenntun til þekkingar- og menningarauka. Ég tek þar sem sagt fyllilega undir. Það þarf að finna hér eðlilegan farveg og sýna þessum vanrækta þætti sóma. Spurning er auðvitað aðeins um það, þegar þetta á að komast í framkvæmd, hvort hér er að einhverju of geyst af stað farið, vegna þess að samhliða vakna spurningar um aðra þætti fræðslukerfisins: Eru þeir ræktir sem skyldi eða er þar um vanrækslu að ræða?

Annars vegar er um að ræða stöðu menntakerfis okkar á framhaldsstigi, þar sem alla heildarskipulagningu vantar í framhaldi grunnskólastigsins. Við hv. þm. Ragnar Arnalds höfum flutt um það hér till. tvívegis að heildarendurskoðun á framhaldsstiginu og skipulagningu í framhaldi af því verði hraðað. Þessi till. hefur ekki fengist afgreidd. Hér er um brýnt verkefni að ræða og sjálfsögð og rökrétt þróun hlýtur þetta að vera eftir grunnskólastigið.

Hins vegar, og á það legg ég enn meiri áherslu er verkmenntunin vanrækt og lítils metin. Hún er skör lægra, svo að ekki sé meira sagt, hinu almenna menntaskólakerfi með langskólapróf sérfræðinnar að einu markmiði. Verkmenntunin og gildi hennar hefur reyndar verið mjög í sviðsljósinu að undanförnu og n. hefur starfað þar að. Ég tel að endir starfa þeirrar n. hafi verið fremur dapurlegur. Það munu hafa komið fram þrjú álit, og mér sýnist af þeim fréttum, sem ég hef af þeim álitum, að þá sé það hvað dapurlegast sem telst til meirihlutaálits varðandi þá menntun. Ég hygg að það verði erfitt fyrir okkur að ganga inn á það form sem þar er verið að tæpa á. Ég skil því vel, úr því að svona fór um þessa n. sem mikils var vænst af, að þá sé hæstv. ráðh. í töluverðum vanda og hans starfsmenn í menntmrn. með meirihlutaálit þessarar n., ég vil segja: eins neikvætt og eins fáránlegt í sumum greinum og það í raun og veru er.

En nauðsyn fræðslu fullorðinna er ótvíræð í einhverju formi, og hún er auðvitað ekkert algjörlega nýtt fyrirbrigði, eins og hæstv. ráðh. benti á áðan. Við höfum verið að fikra okkur í sumum greinum þar fram á við. En háðir ofannefndir þættir: framhaldsstigið og verkmenntunin, eru ekki síðri nauðsyn sem að ber að hyggja og að þarf að hyggja jafnhliða. Ég hefði gjarnan viljað fá samhliða þrjú frv. um þetta, þ.e.a.s. um framhaldsstigið, um verkmenntunina sérstaklega og þá fullorðinsfræðsluna einnig.

Ég verð að vona að þessi frv. sjái dagsins ljós, þótt, eins og ég sagði áðan, þar hafi heldur syrt í álinn eftir örlög þessa nefndastarfa í sambandi við verkmenntunina.

Ég mun flytja frv. um nauðsynlegustu breytingar á annars vegar iðnskólalöggjöf okkar og fjölbrautalöggjöfinni ef ekkert bólar á úrbótum á hvorugu sviðinu, þ.e.a.s. heildarúrbótum. Þar verður auðvitað aðeins um að ræða þær brýnustu breytingar sem ég held að séu algjörlega óhjákvæmilegar hvað sem líður svo aftur síðari heildarlöggjöf. Og alveg sérstaklega er þetta nauðsynlegt gagnvart okkar iðnskólalöggjöf og í raun og veru líka vegna vaxandi áhuga á þeim þætti menntunar sem snýr að fjölbrautaskólum, þar sem ég álít að sé mjög stefnt í rétta átt.

Hér hefur verið mjög leitað, eins og við sjáum, til Norðurlandanna og ég efast ekki um að það sé gagnlegt og sjálfsagt að gera það. Þar er margt til fyrirmyndar einmitt í þessum efnum. En þá verðum við líka að gæta að einu. Þá verðum við að gæta að því hve langt á veg Norðurlöndin eru komin í þeim þáttum sem ég taldi hér áðan, þ.e.a.s. varðandi framhaldsmenntunina almennt og tækni- og verkmenntun og menntun í beinum tengslum við atvinnuvegina.

Varðandi fullorðinsfræðsluna sjálfa er nauðsyn að reisa sér ekki hurðarás um öxl þó að myndarlega megi af stað fara. Annars vegar þarf aðlögun að almennu fræðslukerfi, en það þarf þá að vera fastmótað í hvívetna á öllum stigum. Ef svo er ekki, þá er hætt við því að fullorðinsfræðslan verði í sumum tilfellum nokkuð fálmkennd.

Hins vegar legg ég áherslu á það að fullorðinsfræðslan verður að ná sem viðast. Landsbyggðarfólk verður að njóta hér jafnréttis, en ekki bíða mörg ár einhverra úrbóta eins og víðar í fræðslukerfinu. Hitt er ekki síður, að það verður að tryggja varðandi fullorðinsfræðsluna að erfiðisfólkið verði ekki út undan, ekki vegna þess að nein lagaheimild komi þar í veg fyrir, heldur einfaldlega vegna þess langa vinnudags og strjálla og stopulla tómstunda. Þetta fólk vill oft gjarnan eins og annað leita sér viðbótarmenntunar eða starfsmenntunar, en á þess hreinlega ekki kost vegna þess hvernig að því er búið í okkar þjóðfélagi. Það dugar sem sagt engin löggjöf hér um sérstaklega. Það eru bætt kjör þessa fólks vitanlega sem eru frumforsenda þess að það megi njóta hér til jafns við aðra.

Ég sé að inn í þetta frv., fylgirit þess, er komið álit, sem ég held að hafi verið mjög vel unnið á sínum tíma, frá skólanefnd Neskaupstaðar, þar sem formaður skólanefndar, Hjörleifur Guttormsson líffræðingur, setti fram nokkur meginatriði um það hvað athuga yrði þegar svona löggjöf væri sett. Ég held að ég vilji, þrátt fyrir það að þetta sé í frv., árétta þessi atriði öll hér. Þau eru fljótlesin, og þau eru ábyggilega mjög verð til umhugsunar, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Þótt æskilegt sé að Alþ. móti á næstunni stefnu um fullorðinnafræðslu og hlúi að henni á ýmsan hátt er ekki rétt að leggja umrætt frv. til grundvallar slíkri löggjöf nema þá eftir rækilega endurskoðun.

2. Nauðsynlegt er að setja samræmda löggjöf um framhaldsskólastigið að meðtalinni verk- og tæknimenntun áður en sett verða yfirgripsmikil lög um fræðslu fullorðinna.

3. Æskilegt er að reynsla fáist af starfi fræðslunáða í landshlutum að því er tekur til grunnskóla áður en þeim verða falin ný og umfangsmikil verkefni varðandi önnur skólastig eða fullorðinnafræðslu.

4. Stuðningur ríkisins við fullorðinnafræðslu verði fyrst um sinn í margs konar óbeinu formi, en ekki þau 75% af sannanlegum kostnaði sem frv. gerir ráð fyrir.“

Þetta er svo ítarlegar og betur rökstutt í grg. sem fylgir hér með.

„5. Menntmrn. verði heimilað að starfrækja fullorðinnadeildir við skóla framhaldsstigsins fyrir fólk 21 árs og eldra, enda veiti þær fræðslu hliðstæða frummenntun og kostnaðurinn verði þá greiddur af ríkinu á sama hátt og við frummenntun.

6. Hvatt verði til að sveitarfélög komi sem víðast á námsflokkum með fjölbreyttu sniði undir stjórn skólanefnda og fulltrúa áhugaaðila með fjárhagsstuðningi sveitarsjóða og annarra heimaaðila, en óbeinum stuðningi ríkisins.

7. Atvinnurekendur standi straum af kostnaði við starfsþjálfun fullorðinna sem er í beinum tengslum við atvinnurekstur og vinnustaði.“

Mér þótti rétt að lesa þetta upp hér, þó að það sé komið hér inn í þetta kraðak af umsögnum og grg. sem hér eru með, vegna þess að við fljótan yfirlestur á því tel ég að hér sé um athyglisverðustu og skynsamlegustu ábendingarnar að ræða. Vil ég þó ekki dæma þar um fyllilega vegna þess að þetta er vitanlega það álit sem ég hef kynnt mér best.

Að síðustu þetta: Alls staðar í menntakerfi okkar er hrópað á aukið fjármagn. Versta staðreyndin í þessu efni er sú, að verkmenntun okkar og menntun í tengslum við mikilvægustu atvinnuvegi okkar er svelt. Í þessu frv. er djarflega að staðið. Það kann að vera rétt, en á öðru má það ekki bitna. Ég get lýst stuðningi við meginhugsunina hér að baki. Hér er um ómissandi þátt í fullkomnu fræðslukerfi að ræða, en að öðru þarf jafnhliða að hyggja og mikilvægi þess er slíkt að það þolir enga bið.