25.02.1976
Efri deild: 62. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessar málefnalegu ræður tveggja hv. þm., sem hér hafa talað, gefa mér tilefni til að segja fáein orð til viðbótar því sem fram kom í minni framsögu.

Hv. 7. landsk. þm. talaði hér fyrr og mér virðast undirtektir hans við þetta frv. vera efnislega jákvæðar. Hins vegar er það skoðun hans að það sé skynsamlegra að ganga fyrst frá lagasetningu um framhaldsskólastigið í heild og ekki síst þá um verkmenntaþátt þess, áður en tekið er til við að setja löggjöf um skipulag fullorðinsfræðslu. Ég skal ekkert deila við hv. þm. um það hvort ætti fyrr að koma, þessi lögin eða hin. En hins vegar held ég að það sé ekki rétt að liggja alveg niðri með einn þáttinn fremur en annan. Ég held að þeir séu báðir ákaflega nauðsynlegir. Ég held, að það gildi sama hjá okkur og í nálægum löndum, og ég tel, að álit ráðherrafundarins, sem ég vék að í framsögu, sé nokkuð rétt, að það sé mikil nauðsyn að huga að þessum fullorðinsfræðslumálum og vaxandi nauðsyn vegna þeirra breytinga sem eru að verða í þjóðfélögunum, hvort sem okkur, þessum gömlu, gráhærðu, líkar það betur eða verr. Þá á ég einkum við það sem snýr að útivinnu kvenna.

Hv. 7. landsk. minnti á tiltekna umsögn um þetta frv. sem borist hefur frá skólanefnd á Austurlandi. Sú umsögn er einmitt dæmi um það, hversu smíði þessa frv. og meðferð þess það sem af er hefur vakið menn til umhugsunar um þetta mál og orðið til þess að menn hafa á mörgum stöðum leitast við að brjóta það til mergjar og sett fram margar skynsamlegar ábendingar og till. varðandi þetta verkefni. Og hvað sem líður afgreiðslu þessarar löggjafar, hvort sem menn eru kannske á því, að afgr. heildarlöggjöf um þetta eður ei og hvenær sem hún yrði sett, þá held ég að sú frumvinna, sem í þetta mál hefur verið lögð, hafi tvímælalaust verið mjög gagnleg.

Hv. þm. Jón G. Sólnes, 2. þm. Norðurl. e., var nú kannske ekki alveg eins jákvæður. Hann flutti hér nokkur varnaðarorð fjárhagslegs efnis, og undir það vil ég auðvitað taka, ekki síst þegar þau koma að norðan. Þar fara menn gætilega í sakirnar um þessar mundir eins og vera ber og kunnugt er og alltaf skyldi gera. En varðandi það sem hann varpaði hérna fram og er auðvitað alveg satt, að við höfum lagt mikla fjármuni í menntakerfið miðað við okkar getu hér í okkar fámenna þjóðfélagi, þá er það nú svo, eftir því sem næst verður komist, að við erum þar ekki nema einhvers staðar nálægt meðallagi í hópi nálægra og skyldra þjóða í hlutfalli af meðaltekjum, að ég held þar sé ekki um neina ofrausn að ræða. Og ef menn fara að huga að nánar á ýmsum stigum og sviðum skólamálanna, þá koma hvarvetna í ljós mjög sárar vantanir á aðstöðu fyrir þessa eða hina skólastofnunina. En það er rétt, sem hv. þm. bendir á, að m.a. með tilliti til annarra verkefna hljótum við að fara okkur hægt í að efna til nýrra útgjaldaliða, enda taldi ég mig hafa gert grein fyrir því, þegar ég mælti fyrir frv., að mín hugsun er sú að menn fari hægt í þetta, hugi vel að og reyni að leita lags að þoka fram einstökum þáttum.

Ég held að það sé mjög erfitt og óæskilegt varðandi þetta mál, eins og yfirleitt önnur mál, að láta þau liggja, láta þau bíða í þeirri von að við ljúkum einhverju öðru alveg og getum þá tekið þau upp. Þetta er kannske þverstæðukennt fljótt á litið. En ef við hyggjum betur að, þá er það svo t.d. í skólamálunum að við höfum unnið þar stórvirki án þess nokkurn tíma að huga að því hvort ekki væri nú einhvers staðar hálfunnið verk sem skynsamlegra væri að ljúka áður en byrjað væri á því næsta. En í okkar strjálbýla landi og með okkar miklu félagslegu þarfir hefur þetta verið unnið svona — og gefist vel.

Það er náttúrlega erfitt að benda á alveg ákveðinn árangur af námi þessara eða hinna námshópanna. Hvað snertir öldungadeildirnar, þá er nú önnur bara á fyrsta ári, hin er búin að starfa lengur, en ég held að það sé alveg nýskeð að hún útskrifaði sína fyrstu stúdenta. Það er því kannske ekki von á að þeir hafi staðið í stórræðum enn, þeir sem þar voru að bæta við sig menntun.

Ég er þaklátur öllum jákvæðum undirtektum í sambandi við sjónvarpsmálin. Ég finn sjálfur hjá mér nokkra sök að hafa ekki rekið meira á eftir störfum þeirrar n., sem að þeim vinnur, heldur en ég hef gert því að þetta er mikið nauðsynjamál. Það er svo alveg augljóst að sjónvarpskennslan kostar peninga. Bæði verður þá enn brýnna, eftir að sjónvarpið batnar, dagskrá þess, að koma sjónvarpi til allra landsmanna, og auðvitað kostar allt sjónvarpsefni mikið fé. Hins vegar álit ég að kennslan ætti ekki að koma sem hrein lenging, því ég tel það mætti leggja niður sumt af því, sem þar hefur verið að undanförnu alveg að skaðlausu. Á ég sérstaklega við sumt erlent efni sem þar er sýnt og ég tel ekki uppbyggjandi.

Ég skal nú ekki eyða miklu fleiri orðum að því að ræða það sem fram kom í máli þeirra hv. þm. sem hér töluðu. En ég vil taka það fram, að ég er alveg sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. um það, að þenslan í námsaðstoðinni hefur verið bæði óeðlileg og svo náttúrlega óæskileg að því leyti að hún hefur kostað mikið fé og jafnvel meira fé en við teljum okkur með góðu móti geta af hendi látið. Ég minnti á það, þegar ég talaði fyrir frv. um námsaðstoð í gær, að fyrir sex árum voru þetta 75 millj. kr. í fjárlögum. Nú segja námsmenn að þurfi 2600 millj. kr. ef sæmilega sé gert að. Þarf ekki orðum að því að eyða að þetta er miklu meiri þensla en við höfum efni á að þola og líka óeðlileg. Þetta getur ekki verið eðlilegt þó fjölgað hafi námsmönnum og krónan smækkað. Og það, sem er megintilgangurinn með þessu nýja frv., er annars vegar að treysta stöðu Lánasjóðsins og jafnframt að draga úr hinni óskaplegu eftirspurn með því að taka upp þau lánskjör að menn hugsi sig um áður en þeir taka lánin, þessi lán eins og öll önnur lán, og taki þau ekki nema þeir þurfi þeirra raunverulega með. En það er auðvitað höfuðtilgangurinn með allri námsaðstoð að tryggja þeim, sem þess þurfa, aðstoð til þess að þeir geti numið fræðin.

Það er kannske von að menn segi sem svo, að það líti út fyrir að alltaf sé nóg fé til þess að ausa út, og séu ætið með útgjaldatill. En í tilefni þessara orða hv. þm. vil ég láta það koma fram hér, að það er fátt sem ég óttast meira af því, sem fram kemur í áróðri um þessar mundir, heldur en þessi óskaplegi þrýstingur frá launþegasamtökum, frá blöðum sem teljast hægrisinnuð og rannar hvar sem er, að það verði að minnka það fé sem notað er til sameiginlegra þarfa til þess að menn geti haft meira fé til einkanota. Þetta finnst mér skelfilegur sónn í þjóðfélagi eins og okkar íslendinga þar sem sameiginlegu þarfirnar hljóta að vera dýrar vegna fámennis og strjálbýlis og þar sem þær eru eins brýnar og þær eru hér á mörgum sviðum, hvort sem eru skólamál, heilbrigðismál eða hvað annað. Allt lýtur að því hreinlega að hefta tekjuöflun hins opinbera, já hefta hana, koma í veg fyrir hann. Menn vita vel að það verður ekki sópað út úr opinbera kerfinu, við leggjum ekki niður banka eða ráðuneyti eða aðrar stofnanir. Þó að það sé kannske hægt að koma við einhverjum sparnaði, þá er það ekki í stórum stíl. Og þá hlýtur þessi stefna að bitna á framkvæmdunum. En að þessu einbeita menn sér, fólk af ýmsum stéttum, úr öllum áttum, eins og nú standa sakir. En ég er hins vegar sannfærður um það, að almennt liður okkur betur, hverjum um sig, já, öllum þjóðum með svipaðan hugsunarhátt og við, með því móti að sínum sameiginlegu þörfunum nokkuð vel, þó að það kosti einhvern samdrátt í einkalífi frá því sem verið hefur á okkar bestu árum. Ég veit að það eru ekki allir sem hafa afgang, en þetta er nú samt mín skoðun.

Ég sé að hv. 7. landsk. er nú horfinn úr d. Hann um það. En mér finnst í tilefni af orðum hans og raunar líka hv. 2. þm. Norðurl. e. að þá sé rétt að ég viki aðeins að því sem þrátt fyrir allt er verið að leitast við að vinna og hefur verið unnið í sambandi við verkmenntunina. Báðir þessir hv. þm. minntust réttilega á að hún hefði ekki fengið nóga fyrirgreiðslu og ég get algjörlega tekið undir það. En mér finnst ástæða til þess í tilefni af orðum þeirra að rifja aðeins upp hvað hefur verið gert. En ég skal reyna að fara fljótt yfir sögu.

Ég vil þá fyrst benda á það að sá tölulegi samanburður, sem stundum er gerður á framlögum ríkisins til bóknáms og til verkmenntar, er oft fram settur á algjörlega villandi hátt. Það tekur náttúrlega engu tali t.d að segja að öllu því fé, sem varið er til grunnskóla, sé varið til bóknáms. Bæði eru kenndar verklegar greinar og þar að auki á grunnskólinn að undirbúa nemendur undir nám og starf, bæði í bóknáms og verknámsskólum, þannig að hann þjónar hvoru tveggja. Á sama hátt er auðvitað ekki heldur hægt að segja að allt, sem til Háskólans fer, þjóni eingöngu bóknámi, því að þar eru greinar eins og verkfræðigreinar o.fl. sem ekki er hægt að flokka undir bóknám fremur en verkmenntir. Þetta gerir samanburðinn mjög villandi og óraunhæfan eins og hann er venjulega settur fram þegar menn bera þetta tvennt saman.

Og það eru líka ýkjur að lítið sem ekkert hafi verið gert á undanförnum árum til þess að efla verkmenntun íslendinga, þó að ég sé því sammála að það hafi verið of lítið aðhafst þá er það nú samt nokkuð. Ég vil í því sambandi minna á stofnun Tækniskóla Íslands 1964. Sá skóli hefur aukið merkum þætti í okkar menntakerfi og eflt okkar verkmenntun. Hann hefur þegar útskrifað marga tæknifræðinga og í þó nokkuð mörgum greinum. Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði var stofnaður 1971. Hans hlutverk er að mennta fiskiðnaðarmenn, bæði bóklega og verklega auðvitað, en til starfa í fiskiðnaðinum. Hann hefur þegar brautskráð 35 fiskiðnaðarmenn, 12 af þeim stunda framhaldsnám og munu ljúka fisktækniprófi næstra vor, er mér sagt. Hins vegar býr þessi skóli við mjög erfiðar aðstæður, það er satt, og hans hag þyrfti að bæta bæði fljótt og eð mjög verulegu leyti. Nýi Hjúkrunarskólinn var stofnaður 1972. Hann hefur fengið sæmilegt húsnæði og þar starfar námsbraut í hjúkrunarfræðum sem stofnuð var í tengslum við læknadeild Háskóla Íslands. Þar er haldið uppi ýmissi kennslu á þessu sviði, sem ég leyfi mér að kalla verklegt svið, sem ekki var unnt að veita við þá aðstöðu sem fyrir var í gamla hjúkrunarskólanum. Auðvitað hafa menn unnið töluvert að eflingu iðnskólanna, ekki síst í Reykjavík og hinum fjölmennari stöðum á undanförnum árum. Óhagstæð löggjöf um skiptingu kostnaðar á verkmenntunarstiginu er ákaflega mikill þrándur í götu fyrir þessa uppbyggingu, sérstaklega úti í dreifbýlinu, suður hér þar sem sveitarfélögin eru sterkari, En þrátt fyrir það hafa verið gerð mjög myndarleg átök á þessu sviði. við skulum segja t.d. á Akureyri, þar sem verknámshús hefur verið byggt á undanförnum árum. Og á Selfossi hafa menn hafið byggingu á slíku húsi. Og þar hafa menn nú náð samstöðu, sveitarfélögin öll á Suðurlandi að undanskildum Vestmannaeyjum standa að uppbyggingu iðnskóla á Selfossi.

Svo er ekki heldur hægt að neita því að skipan iðnnámsins hefur þegar verið hagrætt í mjög verulegum atriðum og er komin af stað fyrir nokkru vinna í námsskrárgerð fyrir iðnskólastigið. Það verk verður ekki unnið í skyndi, en vinnan er komin af stað og það er unnið að því fullum fetum, þó að e.t.v. væri hægt að hafa á hví meiri hraða ef nógir peningar væru til Verkið er ákaflega yfirgripsmikið, en hér á landi eru hvorki meira né minna en 50–60 viðurkenndar iðngreinar. Þá má enn fremur nefna verknámsskóla iðnaðarins sem teknir eru til starfa við nokkra iðnskóla, en það eru eins árs skólar sem veita undirstöðumenntun í iðngreinum. Og það hafa verið stofnaðar framhaldsdeildir við verknámsskóla Iðnskólans í Reykjavík í útvarpsvirkjun. rafvirkjun og bifvélavirkjun t.d., og fyrstu nemendurnir hafa þegar lokið námi úr þessum framhaldsdeildum. Raunar starfa verknámsskólar við fleiri iðnskóla, t.d. í Hafnarfirði og á Akureyri, og það er verið að undirbúa stofnun slíkra deilda víaðar, t.d. á Akranesi og Ísafirði. Og í þessu sambandi vil ég minna á stuttan og greinagóðan þátt sem Óskar Guðmundsson framkvæmdastjóri iðnfræðsluráðs sýndi í sjónvarpinu í gær um sumar þær skipulagsbreytingar sem hafa verið gerðar á iðnfræðslustiginu.

Ég vil enn minna á, til þess að sýna fram á nokkra hreyfingu í verkmenntamálunum, samvinnu skyldra skóla sem hefur verið tekin upp viða úti á landi svo að auðveldara verði að halda uppi kennslu í sérnámi utan Reykjavíkur. Þetta hefur verið gert t.d. í Vestmannaeyjum, á Akranesi, Ísafirði og Neskaupsstað. Og þarna er tengt saman fyrsta stigs nám hjá t.d. vélstjórum, stýrimönnum og iðnaðarmönnum, sums staðar öllum þessum þremur, sums staðar færri. Þetta ber þó allt vott um örlitla hreyfingu á þessu sviði sem mér finnst ástæða til að rifja upp fyrst þetta bar á góma hér í ræðum hv. þm. Ég vil líka minna á það að á síðasta skólaári var Flensborgarskólinn í Hafnarfirði gerður að fjölbrautaskóla. Hann hefur nú ekki miklar verknámsbrautir enn, en það mun vaxa. Og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, fjölbrautaskóli sem byggður er upp með því sniði frá grunni, er tekinn til starfa. Hann tók til starfa í haust, og þar er verið að byggja upp mikla aðstöðu fyrir verkná nið. Það má skjóta því hér inn í að ég hef nýlega fengið til tvo ágæta verkfræðinga að gera sérstaka úttekt á því hvað Iðnskólinn í Reykjavík getur annast af verklegu kennslunni og hvort ekki er hægt að koma við einhverjum sparnaði með því að samnýta að einhverju leyti aðstöðu sem nú þegar er fyrir hendi í Iðnskólanum fyrir báða skólana. Fjölbrautaskólann og Iðnskólann. Ég skal ekki segja um niðurstöðuna, en það er verið að kanna þetta. Svo má aðeins minna á að það eru núna gerðar ýmsar tilraunir með nánari tengsl námsins við atvinnulífið en áður hefur verið. Þannig fer fram kennsla í sjóvinnubrögðum, er mér fortalið, í nær 40 gagnfræðaskólum. Á Akureyri er gerð sérstök tilraun með kynningu á iðnaði meðal gagnfræðaskólanema, bæði að því er varðar stöðu iðnaðarins í atvinnulífinu og menntun fólks til iðnaðarstarfa. Og í Neskaupsstað t.d. er leitast við að kenna og kynna sjávarútveg alveg sérstaklega og tengja skólanum og á Reyðarfirði bifvélaiðnað.

Þetta er nú samt það helsta sem ég kann að greina á þessu sviði, fyrir svo utan það, að í Reykjavík er í mjög vaxandi mæli haldið uppi starfsfræðslu í gagnfræðaskólum. Vogaskólinn hafði um þetta mikla forustu og naut þar ágætra starfskrafta sem höfðu mjög góðan skilning á þessu. Þetta hefur verið tekið upp í vaxandi mæli hér í Reykjavík og er talið að menn þurfi mjög að fara að huga að föstu skipulagi, þannig að forðast megi þröng í fyrirtækjunum þegar leitað er til þeirra um nokkurra daga kynningu. Síðan vinna nemendur úr þessu verkefni ritgerðir og reyna að brjóta það til mergjar sem þeir sjá og heyra í slíkum kynnisferðum úti í atvinnulífinu. Þessi starfsfræðsla hygg ég að hljóti að glæða mjög skilning ungs fólks á hinum margbreytilegu störfum og nauðsyn alhliða menntunar og dreifingar í menntun og stuðla að því, að fleiri en áður leggi stund á það sem við almennt höfum kallað verkmenntun og við álítum að þurfi að rækja í vaxandi mæli.

Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma varðandi verkmenntunina, en mér fannst rétt að vekja athygli á þessu, því að við megum ekki vera of dökk í okkar áróðri, þá missum við marks. Það er vissulega heldur engin ástæða til þess að á þessu sviði eigum við mjög margt óunnið, á því er enginn vafi.

Hitt er svo annað mál, að mér þótti það dálítið, ja, ég veit ekki hvort ég á að segja skemmtileg tilbreyting í þessum dálítið einhliða þrýstingi í þá veru að efla verkmenntun og bæta stöðu verknámsskólanna sérstaklega, að til mín komu í morgun upp í rn. fulltrúar frá landssambandi íslenskra menntaskólanema. Þeir hafa haldið sinn fund og gefið út sitt blað, verið mjög málefnalegir á þann hátt að binda sig við málefni skólanna, og sýndu mér fram á það með ljósum rökum hvers konar gífurleg húsnæðisvandræði steðjuðu að menntaskólunum og hversu þeir hefðu verið vanræktir ofboðslega á undanförnum árum. Þeir minntu á það að á Ísafirði er kennt í mjög lélegu kennsluhúsnæði frá aldamótum þó að menn búi þar í góðum heimavistum, að í Kópavogi er engin íþróttaaðstaða fyrir menntaskólann og mjög erfið fyrir aðra skóla og á Laugarvatni hafa kennarar ekki þak yfir höfuð sér o.s.frv. Og eins og fram hefur komið í blöðum skildu þeir ekki hverju það sæti að nú skuli vera byrjað á menntaskóla á Austurlandi með öll þessi vandræði annars staðar.

Mig langar einnig í tilefni af þeim umr., sem hér hafa orðið um endurskoðun framhaldsskólastigsins, að lýsa því hvernig háttað er með endurskoðun á þessu skólastigi, Það er beinlínis gert ráð fyrir því, trúi ég, í löggjöfinni frá 1974 um grunnskóla og skólakerfi að endurskoðun á framhaldsskólastiginu verði sinnt þegar að settum þeim lögum sem þar var frá gengið. Í beinu framhaldi af þessari lagasetningu og kannske líka að nokkru samhliða henni hefur farið og fer fram endurskoðun á framhaldsskólastiginu, bæði einstökum þáttum þess og í heild. Frv., sem hefur verið lagt hérna fram um viðskiptafræðslu, snertir þessi mál, en aðeins einn einstakan þátt þeirra. Það er nú annað útgjaldafrv. frá sem ég er hræddur um, því miður, að erfitt verði fyrir þetta þing að afgreiða nema þá skilorðsbundið varðandi gildistöku þeirra þátta þess sem íþyngja ríkissjóði.

Nú ég vil fyrst, úr því ég minnist á þetta, láta það koma hér fram að er sammæli allra, sem um þessi mál fjalla í menntmrn., að meginmarkmið endurskoðunar framhaldsskólastigsins eigi að vera í sem allra fæstum orðum að auka fjölbreytni í framboði námsefnis, þannig að sem allra flestir fái nám við sitt hæfi, og gera námið sem allra mest hagnýtt og þroskandi, að flétta saman svo sem best verður gert bóknám og verknám og tengja verkmennt og auðvitað námið allt sem allra traustustum böndum við atvinnulífið í landinu og það starf almennt talað sem fram fer í þjóðlífinu á hverjum tíma. Megináhersla verði lögð á það að eyða blindgötum, sem nú ber mikið á í menntakerfinu, og greiða leið milli mismunandi námsbrauta, þannig að nemendur geti flutt sig til og haldið áfram stig af stigi og eins komið inn á ný þó að þeir hætti um stund. Og svo er ljóst að það verður að breyta og umfram allt að samræma þátttöku ríkisvaldsins og sveitarfélaga í kostnaði við hina ýmsu skóla á framhaldsskólastiginu, hvort sem það eru verkmenntaskólar, menntaskólar eða aðrir.

Ég held að það sé óhætt að segja það, að langmest forvinna í sambandi við endurskoðun á framhaldsskólastiginu hafi farið fram á verkmenntasviðinu. Eins og hv. 7. landsk. þm. minntist á, hafa starfað tvær nefndir að þeim málum. Sú fyrri skilaði áliti 1971, verk- og tæknimenntunarnefnd sem kölluð var. Það er mjög ítarlegt álit og það er í samræmi við skoðun okkar í rn. um stefnu í þessum málum í heild. Síðar var sett önnur n. beinlínis til þess að endurskoða lög um iðnfræðslu. Og það er alveg rétt hjá hv. þm., hún skilaði áliti í þrennu lagi, því miður. Að vísu er nokkuð stór meiri hl., en það koma fram sérálit frá tveim nm. og athugasemdir frá þeim þriðja.

Fleira hefur verið gert á þessu sviði, sbr. námsskrárgerð o.fl.

Þá vil ég láta það koma fram hér, sem ég hygg raunar að hafi verið sagt frá áður, að haustið 1974 var innan rn. skipuð n. til þess að athuga framhaldsskólastigið í heild. Í henni hafa starfað fjórir deildarstjórar í rn, undir formennsku Harðar Lárussonar deildarstjóra, og ég vonast til að þessi n. skili áliti innan örfárra vikna. Ekki alls fyrir löngu gerði einn af nm. grein fyrir viðhorfum n., eins og málið stóð þá, í tiltölulega fáum orðum. Þar segir að starf n. hefði einkum beinst að fjórum meginþáttum: skipulagi framhaldsskólastigsins, námsefni skólanna, nýtingu kennslustofnana sem til eru í landinu og fjármagnsþörf framhaldsskólastigsins. Þá kom það einnig fram, það er skoðun n., ráðstefna beri að því að leggja fram á Alþ. till. um heildarlöggjöf um allt framhaldsskólastigið og að n. miði að því í sínum till. að sá vinnuháttur verði á hafður. Ég skal ekki fara frekar út í það, en það er hins vegar ætlun mín að þegar framhaldsskólanefndin hefur skilað till. sínum til rn. og eins og áður segir vonast ég til þess að það verði innan mjög fárra vikna, þá er það ætlun mín að það verði rækilega um þær fjallað á hinum ýmsu skólastigum og af sem allra flestum þeim sem láta sig þessi mál varða og þá með umr. og athugunum í ýmsu formi.

Ég veit að það má deila um það hvort þessi skipan sé skynsamleg, að setja tiltölulega þrönga n. til þess að frumvinna málið og svo að vinna úr þeim gögnum sem lögð hafa verið fram, t.d. á verkmenntastiginu. En ég held að þetta séu ekki óskynsamleg vinnubrögð. Slík n. á að geta unnið tiltölulega hratt. En það verður auðvitað engin endanleg mynd málsins sem hún skilar, því að margir hafa áhuga á þessum málum og hafa vafalaust mismunandi skoðanir á þeim. Með þessu er ég ekki að draga það í efa, að það séu hinir ágætustu menn sem þarna eru að verki, og ég gæti þess vegna vel trúað þeim til þess að koma með góðar till. En þetta er nú bara gangur mála. En sem sagt, að það er ekki ætlunin að halda þessu innan þröngra marka, t.d. innan rn., þessari endurskoðun, heldur þvert á móti á þetta að vera frumvinna og grundvöllur og þetta er gert til þess að reyna heldur að flýta fyrir málinu á þennan hátt án þess að reiknað sé með því að skipulagið komi fullskapað út úr þessu nefndarstarfi.

Ég hef leyft mér, herra forseti, að reyna nokkuð á þolinmæði d. með því að fara út í þessar skýringar. Mér finnst ástæða til þess að láta þetta koma fram og eðlilegt að það einmitt tengist umr. um frv. sem hér liggur fyrir. Þetta er hvort tveggja mál sem brenna mjög heitt á mönnum, bæði verkmenntunin, efling hennar, og svo endurskoðun framhaldsskólastigsins í heild. Ég get tekið undir það að hvort tveggja þetta hefur heldur hægt miðað, a.m.k. hægar en æskilegt væri, þó að ég geti ekki fallist á hvað snertir verkmenntun að lítið sem ekkert hafi verið gert á því sviði. Það hefur verið gert töluvert þó að betur megi ef duga skal.