25.02.1976
Efri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Ég skal ekki verða til þess að lengja umr. þessa máls.

Þegar þetta mál var til meðferðar í fjh.- og viðskn., þá held ég að það sé engum vafa bundið að við höfðum allir ríka tilhneigingu til þess að reyna að hækka þá upphæð sem kemur til hvers íbúa, sem þarf að nota olíu til hitunar íbúðar sinnar, eins mikið og frekast væri unnt. Hins vegar voru hendur nm. allmikið bundnar þar sem þegar hafði verið tekin ákvörðun í sambandi við afgreiðslu fjárl. um verulega upphæð til Orkusjóðs sem ég held að allir hv. þm. séu sammála um að komi þjóðarheildinni að mjög miklu gagni að verði efldur sem allra mest.

Aðeins vil ég nota hér tækifærið til að lýsa þeirri tilhögun sem ég kom á framfæri þegar þetta mál var afgr. í n., en hún var á þann veg að greiðslu þessa olíustyrks yrði hagað á þann veg að fyrstu tveimur meðlimum hverrar fjölskyldu væri borguð verulega hærri upphæð en ráð er gert fyrir í þessu frv., en öðrum meðlimum fjölskyldunnar mun minni upphæð. Með þessari tilhögun tel ég að hefði náðst miklu meira jafnrétti, heimilin hefðu fengið verulega hækkun á greiðslu bóta í sambandi við kostnað við að nota olíu til hitunar íbúðanna, því að það má með sanni segja að kostnaðurinn sé nokkurn veginn hinn sami hvort sem fjölskyldumeðlimirnir séu tveir, þrír eða fjórir. Að vissu leyti hefði með þessari tilhögun, sem ég hér hef nefnt, verið hægt að ná mun meira réttlæti og tryggja að þessar greiðslur kæmu að mörgu leyti að betri og réttlátari notum. En áður en ég lýk máli mínu vil ég geta þess, að ég styð fram komið nál. meiri hl. fjh.- og viðskn.