25.02.1976
Efri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þann málflutning sem hér hefur verið fram borinn af stjórnarandstöðunni og þá sérstaklega frsm. nál. minni hl., Ragnari Arnalds. Ég held að hver einasti þm., alveg sama hvar í flokki hann er, vildi gjarnan að ríkissjóður eða Orkusjóður eða þessir olíulindapeningar, sem við erum að dreifa hér út, væru það miklir að við gætum orðið við fyllstu kröfum þeirra stjórnarandstæðinga og hækkað þennan olíustyrk upp í 13 500 kr. eða kannske meira. En ástandið í fjármálum ríkisins og þá Orkusjóðs er bara ekki þannig að við getum leyft okkur að fara upp í þá tölu í olíustyrkjum sem þar er farið fram á. En ég efast ekkert um að viljinn er fyrir hendi hjá öllum þm. til að gera það.

Orkumrh. hefur hingað til verið talinn velviljaður þeim sem minni máttar eru. Vitna ég þar í hans ágætu störf sem borgarstjóra á sínum tíma og þarf ekki að fara nánari orðum um þau, þannig að ég held að það sé enginn þannig sinnaður að hann vilji ekki hækka þennan styrk sem mest.

Ég vil taka undir með frsm. okkar í meiri hl. fjh.- og viðskn., þau orð sem hann lét hér fylgja okkar nál. En ég vil þó undirstrika það álit mitt, sem kom fram á nefndarfundinum í morgun, þ.e.a.s. að við þrír nm. beittum okkur fyrir því að sú greiðslubyrði, sem ríkissjóður hefur lagt á Orkusjóð og nemur um 125 millj. eða alla vega yfir 100 millj. kr., þ.e. greiðslur afborgana af lánum og vaxta af lánum, sem tekin hafa verið til raforkuframkvæmda og hingað til hafa verið greiddar af ríkissjóði, verði áfram greiddar af ríkissjóði, en ekki fluttar yfir á Orkusjóð eins og komið hefur fram að ákveðið hefur verið við gerð fjárlaga. Ég bind samstöðu mína um þessa hækkun upp í 9500 kr. frá 8200 kr. nokkuð við þá trú, að ríkissjóður sjái sér fært að draga til baka greiðslukvöð sem Orkusjóður hefur orðið að þola.

Ég tel hættulegt að skerða afkastagetu Orkusjóðs á þennan gífurlega hátt, fyrst með því að ríkissjóður færi þessa greiðslubyrði, sem er um 125 millj. kr., af sér á Orkusjóð og síðan að draga úr þeirri upphæð sem orkumrh. gerði ráð fyrir að orkusjóður hefði til ráðstöfunar við framkvæmdir á yfirstandandi ári. Ég held að það sé ekki rétt að takmarka meira en orðið er með þessari hækkun um 100 millj. kr. framkvæmdagetu Orkusjóðs. Það segir sig sjálft að eftir því sem framkvæmdageta Orkusjóðs er meiri, þeim mun fyrr fær sá hluti landsmanna sem nýtur ekki hitaveitu á þann hátt sem við njótum hennar hér í Reykjavík, skulum við segja, þeim mun fyrr fá þeir jarðvarma og þar með lækkandi tilkostnað við húshitun.

Ég byggi sem sagt samstöðu mína um þetta nál. meiri hl, á þeirri von að ríkisstj. taki til baka þá ákvörðun sina að velta yfir 100 millj. kr. aukagjaldi eða nýju gjaldi á Orkusjóð.

Ég vil vara við því sem kom fram hjá frsm. okkar meiri hl., að mér fannst hann boða nýja athugun á því hvort sérstakt sölugjald yrði lagt á notendur hitaveitna. Það gelur hljómað réttilega, en ég vil þó vara við því og tel ekki ástæðu til þess að hafa um það fleiri orð. Ég undirstrika það að ég vara við slíku.

Hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, taldi fráleitt að láta 1/3 af söluskattsstiginu renna í Orkusjóð. Ég aftur á móti tel það sjálfsagt og tel mjög áríðandi að þm. séu sammála um að styrkja Orkusjóð til þess að flýta framkvæmdum á þann hátt sem ég gat um. Ég tel ekki að sú skerðing, sem hér sé um að ræða, sé nokkurs konar rýtingsstunga í launþegasamtökin, og harma að formaður Alþb. skuli á þessu viðkvæma stigi samninga við verkalýðsfélögin draga þau inn í þessar umr. um niðurgreiðslu á olíukostnaði til húshitunar og get ekki séð á hvern hátt það getur orðið til þess að auka á erfiðleika um samstöðu í samningum við verkalýðssamtökin núna.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég lýsi stuðningi mínum við nál. sem ég hef undirskrifað og formaður fjh- og viðskn. hefur talað fyrir, en ítreka að ég vona að það náist samstaða með fjmrh. og ríkisstj. um að draga til baka þá ákvörðun sem virðist hafa verið tekin um að velta nýjum byrðum yfir á Orkusjóð og þar með skerða framkvæmdagetu hans.