25.02.1976
Efri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Iðnrh, (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þeir landsmenn, sem eiga við olíuhitun að búa, hafa orðið fyrir þungum búsifjum eftir að olíuverð hækkaði svo mjög eins og upphófst fyrir 2–3 árum. Það var því eðlileg ráðstöfun að leggja á sérstakt söluskattsstig til að létta þessari þungu byrði að einhverju leyti af þeim sem búa við slíka húshitun. En ég held að sé óhætt að fullyrða að það er tvenns konar áhugamál og hagsmunamál sem það fólk, sem býr við olíuhitun, hefur: annars vegar að fá beina peningalega aðstoð til þess að standa undir þessum kostnaði og hins vegar að aðrir möguleikar til ódýrari hitunar og þá sérstaklega hitaveitur geti orðið að veruleika sem allra fyrst.

Ég þykist vita að fjöldi þeirra manna, sem búa við olíuhitun, eigi sér þann draum að sem fyrst geti þeir fengið að nota hitaveitu. Þetta tvennt er í rauninni reynt að sameina í því frv. sem hér liggur fyrir því að á síðasta þingi var mótuð sú stefna að þetta fé skyldi annars vegar notað til að greiða olíustyrki til að lækka kostnað við olíuhitun, en nokkur hluti þessa fjárskyldi notaður til þess að reyna að hraða hitaveituframkvæmdum, auka jarðbitaleit og undirbúning að hitaveitum til handa þeim sem verða að búa annað hvort við olíuhitun eða e.t.v. dýra rafhitun, þó að á ýmsum stöðum sé álitamál hvort eigi fremur að fara út í. Hins vegar held að það sé ljóst, að yfirleitt hlýtur niðurstaðan að verða sú að hitaveitur eru hagkvæmasta hitunaraðferðin, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og fyrir þjóðfélagið í heild, vegna hins mikla gjaldeyrissparnaðar sem af því leiðir.

Ég veit að hv. fjh.- og viðskn. hefur verið mikill vandi á höndum að leysa úr þessu máli, þar sem annars vegar hafa verið að mörgu leyti eðlilegar og rökstuddar óskir um hækkun á þessum olíustyrk og hins vegar þetta viðhorf, að reyna að fá sem mest fé til að undirbúa og hraða jarðhitaleit og nýjum hitaveitum. Í því sambandi er vissulega lærdómsríkt að líta til þess hversu mikið hefur áunnist og mikil breyting hefur orðið nú á örskömmum tíma.

Það var vorið 1974 sem þáv. iðnrh. lagði fyrir Alþ. grg. um nýtingu innlendra orkugjafa og var byggt á rannsókn sem hafði farið fram í þeim efnum í einni kunnustu verkfræðistofu hér í borg. Þá var niðurstaðan sú að það mundu vera um 2/3 hlutar landsmanna sem gætu í fyrirsjáanlegri framtíð notið hitaveitna, aðrir yrðu að notast við aðrar hitunaraðferðir, fyrst og fremst rafhitun. Hins vegar hefur sú breyting orðið á vegna aukinnar jarðhitaleitar og rannsóknar og könnunar og aukins borkosts í þessu efni, að niðurstaðan hefur orðið sú, að nú eru það ekki 2/3 landsmanna sem talið er að muni geta fengið hitaveitur á næstu árum, heldur munu það vera yfir 80%. Þetta er ákaflega ánægjuleg þróun og breyting. Má sérstaklega nefna í þessu sambandi þá gjörbreytingu sem orðið hefur á varðandi höfuðstað Norðurlands. Vorið 1974 var talið í þessari skýrslu iðnrh. að Akureyri mundi ekki geta fengið hitaveitu, heldur væri á rafhitunarsvæði. Nú liggur hins vegar fyrir eftir nýjustu rannsóknir og boranir eð það er öruggt að Akureyri muni geta fengið hitaveitu.

Þannig er sem betur fer um marga aðra staði. Sem dæmi má nefna Vestfirði, þar sem hefur verið talið að væru mjög takmarkaðir möguleikar til hitaveitna. Þar hafa þeir stóraukist við síðustu boranir. Austurland er eitt af þeim svæðum sem þarf á næstunni að kanna rækilega. Þar hafa menn ekki verið bjartsýnir á að unnt yrði að finna jarðhita sem nægði að nokkru ráði til hitunar með jarðvarma, en menn hafa séð að svo miklar breytingar hafa orðið frá fyrri skoðunum og áætlunum í þessu efni að allt verður þetta. kannað til hlítar. Ég vil því undirstrika að það er hagsmunamál og áhugamál þeirra, sem búa við olíuhitun, hvort tveggja að fá nokkurn stuðning til að greiða niður olíukostnaðinn, en um leið að varið sé nokkru fé til að reyna að hraða þessum rannsóknum og könnun og undirbúningi hitaveitna.

Ég vil svo í þessu sambandi einnig nefna það, að gert er ráð fyrir að af því fé, sem Orkusjóður fær í þessu skyni, fari nokkuð til rannsókna og nokkuð beinlínis til framkvæmda við hitaveitur. Í sambandi við það síðast nefnda vil ég taka fram að á s.l. sumri hreyfði ég því í ríkisstj. og átti raunar tal um það við forráðamenn Lánasjóðs sveitarfélaga að eðlilegt væri að fjármögnun hitaveitna sveitarfélaganna gengi miklu meir um hendur Lánasjóðs sveitarfélaga en verið hefði, jafnvel að sá lánasjóður yrði miðstöð fyrir þessa fjármögnun. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt að það af þessu fé, sem ætlað verður til hitaveituframkvæmda, gangi um hendur Lánasjóðs sveitarfélaga. Það er aðeins framkvæmdaratriði og út af fyrir sig ekki þörf á að festa það í lögum.

Ég vil svo aðeins að lokum þakka meiri hl. n. og hv. formanni og frsm. fyrir það, hvernig þeir hafa leyst af höndum það vandasama starf, sem hér hefur verið unnið, og vænti þess að hv. d. afgr. málið eins og meiri hl. n. hefur lagt til.